Árás hafin á stjórnarskrártillöguna

Þótt tillaga Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sé ekki mjög róttæk er nokkuð öruggt að hún muni mæta mikilli andstöðu  þeirra afla sem ekki mega til þess hugsa að hróflað verði við því stjórnarfari sem hér hefur ríkt í áratugi.  Þar á meðal eru ýmis voldug hagsmunasamtök (t.d. LÍÚ) og allir stjórnmálaflokkarnir fjórir sem hafa drottnað yfir ríkisvaldinu og notað það fyrir ýmislegt annað en hagsmuni þess almennings sem það ætti  að þjóna.  Þessum öflum hefur tekist að koma í veg fyrir teljandi breytingar á stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun, þótt lagt hafi verið upp með að hana ætti að endurskoða fljótlega þegar hún var tekin upp fyrir sextíu og sjö árum.

Það var ef til vill bjartsýni að vona hið gagnstæða, en svolítil vonbrigði að Þorsteinn Pálsson skyldi ríða á vaðið gegn þeirri tilraun sem nú stendur yfir til að bæta stjórnarskrána.  Hér eru nokkrar úrklippur úr grein hans í Fréttablaðinu í gær:

Stjórnlagaráð hefur lokið störfum og hugmyndir að nýrri stjórnarskrá litið dagsins ljós, sumar nýtilegar og aðrar ekki eins og gengur.

Forsætisráðherra kaus í byrjun ríkisstjórnarsamstarfsins vorið 2009 að nota stjórnarskrármálið til þess að dýpka ágreining við Sjálfstæðisflokkinn.

Engin dæmi munu vera um að annars staðar hafi heildarendurskoðun stjórnarskrár lokið án samvinnu við næststærsta flokk þjóðþings.

Lokavinna stjórnlagaráðsins er því í raun áfangi á leið til fullbúinnar tillögu að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi ber nú ábyrgð á að sjái dagsins ljós.

Áður en menn fara að efna til þrætubókarumræðu um einstakar hugmyndir stjórnlagaráðsins væri ekki úr vegi að í næsta áfanga færi fram fræðileg úttekt á þeim hugmyndum sem fyrir liggja.

Hér þarf ekki bara lögfræðilegt mat. Einnig ætti að kalla til sérfræðinga á sviði réttarheimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði.

Lítil sem engin almenn umræða hefur farið fram um ýmsar kjarnaspurningar varðandi eðli stjórnskipunarreglna. Hvað er markmiðið með þeim? Hvar á að draga markalínuna milli stjórnskipunarlaga og almennra laga? Ráðið hefur sýnilega ekki haft aðstöðu til að ígrunda af kostgæfni álitaefni af þessu tagi.

Þorsteinn talar um „hugmyndir“ Stjórnlagaráðs, og „áfanga“ og hamrar á nauðsyn aðkomu Sjálfstæðisflokksins.  Ef til vill áttar hann sig ekki á þessu, en hér talar hann af sérkennilegri lítilsvirðingu um störf þess fólks sem hefur nú tekist þokkalega (á jafn skömmum tíma og tók að semja bandarísku stjórnarskrána) það sem íslensku stjórnmálastéttinni hefur ekki tekist allan þann tíma sem Þorsteinn hefur lifað.  Það er dapurlegt að heyra Þorstein tala um það eins og sjálfsagðan hlut að Alþingi, og Sjálfstæðisflokkurinn alveg sérstaklega, muni nú taka við þessum „hugmyndum“ Stjórnlagaráðs, og úrskurða hvað sé „nýtilegt“ í augum valdastéttarinnar.

Þorsteinn var alþingismaður í sextán ár og sat í ríkisstjórn í tæp fjórtán, þar af eitt ár sem forsætisráðherra (auk setu í stjórnarskrárnefnd  2005-2010).  Á þessum sextán árum gerðist það sama í stjórnarskrármálunum og hin fimmtíu árin frá lýðveldisstofnun, nefnilega ekki neitt.  Það var ekki af leti eða önnum við annað, heldur af því að valdastéttin, þar sem Þorsteinn var yfirleitt framarlega í flokki, vildi ekki færa almenningi neinar bætur á stjórnarfarinu.  Þessi valdastétt mátti einfaldlega ekki til þess hugsa að arðrán hennar og valdníðsla væri með nokkrum hætti skert.  Að maður sem ekki hefur staðið sig betur en raun ber vitni í vinnu við þetta mál skuli nú tala niður til þeirra sem eru að vinna verkið er sorglegt, en því miður dæmigert fyrir ósvífni íslensku valdastéttarinnar.

Þetta er sennilega ekki meðvitaður hroki (enda er Þorsteinn með prúðari mönnum á ritvellinum og oft skarpur greinandi þegar hann fæst við hluti þar sem ekki þarf víðari sjóndeildarhring en bakkana á þeim andapolli sem íslensk stjórnmál eru).  En yfirlæti sem byggir á því skilningsleysi sem hrjáir Þorstein verður hins vegar sjálfkrafa hrokafullt.  Til að yfirlæti verði það ekki þarf viðkomandi að minnsta kosti að búa yfir þekkingu sem réttlætir að talað sé niður til lesenda.

Þorsteinn býr ekki yfir sérstakri þekkingu á stjórnarskrármálum (a.m.k. ekki „nýtilegri“ þekkingu).  Eins skarpur greinandi og hann hefur verið á séríslensk stjórnmál  megnar hann ekki hugsa út fyrir það þrönga box sem valdastéttin hefur smiðað utan um sig.  Hvað þá að hann geti hugsað sér veruleika þar sem það er ekki náttúrulögmál að framámenn í Sjálfstæðisflokknum leiki  stórt hlutverk.

Lokaorð Þorsteins í greininni eru þessi:

Stjórnarskráin er ekki hrifningarverkefni eða tilfinningamál fyrir líðandi stund.

Eigi þetta að vera lýsing á starfi Stjórnlagaráðs virðist Þorsteinn hvorki hafa fylgst vel með vinnu þess né skoðað afraksturinn.  Og ef til vill er þetta einfaldlega rangt hjá honum.  Ef til vill þarf hrifningu og tilfinningar (auk vandaðrar vinnu) til að vinna þetta verk, en ekki þann steingelda skotgrafahernað sem félagar Þorsteins hafa stundað í áratugi.  Ég ætla frekar að gera orð Steinunnar Stefánsdóttur, í leiðaraFréttablaðsins í gær, að mínum:

Með starfi sínu hefur stjórnlagaráðið sett fordæmi sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar, meðal annars alþingismenn og ýmsir aðrir sem láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni. Stjórnlagaráð hefur vonandi með starfi sínu og umræðuhefð lagt grunninn að málefnalegri umræðu um það frumvarp að stjórnarskrá sem nú liggur fyrir. Dapurlegt væri í það minnsta ef frumvarpið yrði ómálefnalegri hatursumræðu að bráð eins og svo margt annað sem rætt er um í íslensku samfélagi.