Egóbústið sem þú finnur fyrir þegar fólk treystir þér fyrir sál sinni er þér nauðsynlegt, ég veit það, við erum öll svona að einhverju leyti. En þú gengur of langt. Það er hættulegur leikur að vinna hjarta mannveru sem þú ætlar ekki að skuldbindast og ef þú horfist ekki í augu við þá staðreynd að þú ert að leika þér að eldi, þá muntu skilja eftir þig sviðna jörð hvar sem þú ferð. Daður þitt við hárfínu línuna milli tilfinningalegrar skynjunar og erótískrar mun fyrr eða síðar koma þér sjálfum í vandræði að maður tali nú ekki um skaðann sem þú getur valdið á tilfinningalífi annarra.
Ég dæmi þig ekki. Ég hef snert þessa línu sjálf. Þú verður að gera þér grein fyrir því að þegar þú færð fólk til að hleypa þér alla leið að hjarta sínu ertu um leið að gefa þau skilaboð að samband ykkar sé á alveg sérstöku plani, þú sért ekki bara einhver óviðkomandi maður sem hefur notalega nærveru heldur náinn vinur, verndari eða kærasti. Eina leiðin til að komast hjá þeirri kröfu er formlegt samband leiðbeinanda og skjólstæðings, hvort sem þú ert læknir, sálfræðingur, prestur eða kennari. Jafnvel í slíkum samböndum er veruleg hætta á að mörkin verði óskýr.
Ég þekki mann sem var eins og þú. Með gífurlegan áhuga á tilfinningalífi manneskjunnar og þennan sérstaka hæfileika til að vekja trúnaðartraust. Með gott hjartalag og sama eldlega áhugann og þú á öllu sem gæti bætt líðan fólks sem á bágt. Einu sinni spurði ég hann hvað hann myndi velja ef honum gæfist færi á því án fyrirhafnar að vinna eitt afrek sem kæmi honum á spjöld sögunnar. Hann þurfti ekki að hugsa sig um, vildi finna leið til að útrýma kabbameini.
Fögur sál, vissulega en samt sem áður hefur hann farið svo hryllilega illa með svo marga. Í dag held ég að hann hafi ekki vísvitandi leikið sér að tilfinningum fólks, bara verið of sjálfsmiðaður til að velta því fyrir sér og takast á við ábyrgðina. Hann vildi fá páverkikkið en hljópst undan ábyrðinni sem fylgir því. Á endanum var hann sakaður um kynferðislega áreitni og honum fannst það ósanngjarnt enda hreint enginn ofbeldismaður.
Ég býst við að þér finnist það hljóma undarlega en það skiptir ekki öllu máli hversu gróft það var og hversu langan tíma það stóð eða hvort þetta meinta káf átti sér yfirhöfuð stað. Það sem skiptir máli er að skilaboðin sem hann gaf stúlkunni voru þessi; þótt við getum kannski ekki verið kærustupar svona opinberlega er samband okkar alveg sérstakt. Ég verð alltaf til staðar fyrir þig af því að þú gefur mér sálina úr þér. Hún trúði því. Hafði enga ástæðu til annars.
Hann var ekki níðingur í viðtekinni merkingu. Hann var ekki að svala fýsnum sínum á skelfingu lostnu fórnarlambi. Líklega hefur hann aldrei átt neinar kynferðislegar fantasíur þar sem hún kom við sögu. Engin líkamleg valdbeiting átti sér stað og að öllum líkindum hefur hún átt frumkvæðið að snertingunni sem orsakaði öll lætin -jafnvel bara ímyndað sér hana.Samt var hann ábyrgur. Ábyrgð hans lá fyrst og fremst í því að mynda tilfinningatengsl sem hann hefði ekki staðið undir jafnvel þótt hann hefði viljað það (og trúðu mér hann vildi það ekki frekar en þú) og staðfesta þau með snertingu sem flest fólk skilur sem tjáningu ástar og losta.
Ég sé blikið í augum þér þegar þú brosir íbyggilega og segir: ég get fengið hvern sem er til að segja mér hvað sem er og ég þarf ekki einu sinni að spyrja. Ég finn hvað þú finnur til þín og ég veit ekki hvernig ég á að útskýra fyrir þér í hverju siðblinda þín liggur. Og nú þegar ég horfi á þig vaða rakleitt inn á einkasvæði barnungar telpu í þeim tilgangni að vinna hjarta hennar, hvort sem það er nú meðvitað eða ekki, verð ég ráðvillt. Þetta væri kannski einfaldara ef þú gengir hreint til verks með kynferðislegri áreitni. Jafnvel tælandi augnaráð gæti gefið mér tilefni til að skipa þér að láta hana í friði en ég veit ekki hvort ég get ætlast til að þú skiljir það ef ég banna þér að gera hana ástfangna af þér.