X

Þegar tennurnar týnast …

Fólk sem tekur líkamsrækt alvarlega eyðir ekki orkunni í að tyggja ávexti. Það maukar þá og þynnir svo leðjuna með safa, mysu eða undanrennu svo sé hægt að neyta þeirra í fljótandi formi. Ég hef alltaf haldið að svona hræringur þjónaði þeim tilgangi að hylja lyfjabragðið af próteinpúlveri en nú er mér sagt að það séu ekkert endilega sett fæðubótarefni saman við súpuna.

Hversvegna fólk fer þá svona með matinn sinn er áhugaverð ráðgáta. Ekki er þetta fljótlegra, ekki bragðbetra og þótt æfingar taki á held ég að flestir séu nú færir um að bíta í banana eftir púlið.

Augljósasta skýringin er sú að fólk sem er alvara með að vera fallegt, hafi vit á því að láta ekki aðra sjá sig borða. Þegar allt kemur til alls er étandi fólk frekar ógeðsleg sjón og til hvers að vera fullkominn útlits ef maður er staðinn að því að éta, skíta, bora í nefið eða gera eitthvað annað mannlegt og ógeðfellt? Aukinheldur virkar það líka sálfræðilega meira fitandi að innbyrða fæðu í föstu formi svo það gæti verið hluti af mændsettinu að borða sem sjaldnast eitthvað sem þarf að tyggja.

Í gær var ég alveg sátt við þessar heimasmíðuðu kenningar mínar en í morgun fór ég að velta fyrir mér hvort gæti verið dýpri skýring á þessum undarlegu bústgrautum. Ég hef svo mikla tilhneigingu til þess að finna flóknar skýringar þrátt fyrir að reynslan kenni mér hvað eftir annað að hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera. En ég var semsagt að hugsa um það hvort íþróttamenn séu kannski framsýnni en eðlilegt fólk. Kannski eru þeir bara rosalega meðvitaðir um að þrátt fyrir allt hoppið og hamaganginn, MUNU þeir að lokum eldast eins og aðrir. Líkamsrækt kemur víst ekki í veg fyrir að fólk missi tennurnar svo líklega eru þeir að spara þær til elliáranna, sem að vonum verða miklu fleiri en svo að venjulegar tennur endist. Semsagt, hreyfingin lengir lífið, og um leið máttu eiga von á lengra tannleysistímabili. (Gervitennur henta ekkert öllum, margt gamalt fólk tekur þær út úr sér fyrir matinn.) Íþróttaspenglarnir sjá þannig fram á að þurfa að lifa á maukfæði mjög lengi áður en þessi fáránlega sterku hjörtu þeirra gefa sig. Þeir eru sumsé í hægri aðlögun.

 

sapuopera:

View Comments (1)

  • -------------------------------------------------------

    Hahahahaha! Þetta er dásamlega skemmtileg pæling.

    Posted by: lindablinda | 21.04.2007 | 18:22:46

    -------------------------------------------------------

    Leikfimi stundar maður til þess að halda í heilsuna. Fegurð er afstæð og kemur helst innan frá. Annars skemmtileg pæling.

    Posted by: Sveinn | 22.04.2007 | 0:03:42

    -------------------------------------------------------

    Kommon Sveinn! Ungt fólk a.m.k. stundar líkamsrækt frekar í fegrunarskyni en til heilsubótar.

    Það sem ræður útliti fólks eru að mestu leyti ytri þættir. Fegurð felst í því að standa undir hugmyndum samfélagsins (um fegurð) hverju sinni.

    Fegurðin kemur ekki innan frá. Allavega þekkjast þess engin dæmi að fólk komist á spjöld sögunnar fyrir fegurð án þess að uppfylla ákveðna útlitsstandarda. Þú getur sannprófað það með því að spyrja 15000 konur hvort þær langi til að líta út eins og móðir Teresa.

    Posted by: Eva | 22.04.2007 | 7:32:14

    -------------------------------------------------------

    Það eina sem hefur dregið mig í leikfimi er löngun í betri lögun.
    Takk fyrir að gefa okkur skýringu á maukáti massaðra manna.

    Posted by: Kristín | 22.04.2007 | 8:15:12

    -------------------------------------------------------

    M. Teresa gott dæmi um fallega konu - miðað við aldur og fyrri störf. Svo komast hún líka á spjöld sögunnar. Það verður enginn fallegri á að sprikla í Nautulus eða Þokkabót. Ömurlegt að sjá ungar konur sumar líklega með anorexíu í leikfimisölunum. Væntanlega þá til að verða fallegri! Hvílík afskræming á hugtakinu fegurð.

    Posted by: Sveinn | 22.04.2007 | 9:53:17

    -------------------------------------------------------

    Já, ég sé það núna Sveinn. Fegurðin kemur innan frá. Það er einmitt þessvegna sem dásamlega gott og yndislegt fólk vinnur gjarnan fegurðarsamkeppnir þrátt fyrir skvapkeppi og hrukkur. Það er líka þessvegna sem feita og hrukkótta fólkið er fengið til að leika í snyrtivöruauglýsingum. Góðmennska þess gerir það nefnilega svo fallegt.

    Posted by: Eva | 22.04.2007 | 11:05:03

    -------------------------------------------------------

    Já og fyrst þú veist það ekki: móðir Teresa komst á spjöld sögunnar fyrir líknarstörf, ekki fegurð. Allavega kemur hún ekki upp undir "fagrar konur" hjá honum gúggli.

    Posted by: Eva | 22.04.2007 | 11:07:22

    -------------------------------------------------------

    Eva við þurfum að líklega að skilgreina fegurð. Ég fór inn á þessa slóð og þykist nokkru vísari. http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2567. Ert þú ekki of upptekin af "comercial" kroppasýningum og vægi þeirra við mat á umfangi/víðfemi fegurðarinnar. Slíkar kroppasýningar ná einnig yfir t.d. grísi og er þá horft til fituhlutfalls í síðum þeirra þegar verið er að velja verðlaunagrísinn. Er slík sýn á fegurðina ekki full takmörkuð?

    Posted by: Sveinn | 22.04.2007 | 11:52:34

    -------------------------------------------------------

    Fegurð er ósköp einfaldlega það sem meirihlutanum finnst fallegt og það er einfalt að skilgreina það með því að skoða fólk sem þykir fallegt. Þar eru áberandi ákveðin hlutföll í andliti og líkamsbyggingu, lítil líkamsfita, slétt húð, stór augu, há kinnbein, þykkar varir. Þar sem m.a.s. vöggubörn fara í manngreinarálit, brosa frekar til þeirra sem almennt þykja fallegir, efast ég stórlega um að fegurð sé jafn afstæð og margir vilja vera láta.

    Það er beint samband á milli þess hversu vel tilhöfð ég er og þess hversu mikla athygli og hve góða þjónustu ég fæ. Það sem hefur best áhrif á útlit mitt er tíð notkun trimform tækis, heimsóknir á snyrtistofur og gnægð andlitsfarða. Ég hef hinsvegar aldrei tekið eftir jákvæðu sambandi á milli mannkærleika míns og útlits, nema síður sé.

    Posted by: Eva | 22.04.2007 | 13:04:04

    -------------------------------------------------------

    ésús, hvað þetta er kaldranaleg lífssýn hjá þér Eva, brrr...

    Posted by: baun | 22.04.2007 | 14:23:21

    -------------------------------------------------------

    Hún er að ganga fram af okkur, próvokera eins og skálda er háttur.

    Posted by: Sveinn | 22.04.2007 | 14:45:01