-Manstu hérna um árið þegar kastaðist í kekki milli okkar?
-Þetta eina sinn, jú ég man það.
-Þú hafðir mig fyrir rangri sök.
-Undarlegt að rifja þetta upp núna. Er einhver sérstök ástæða fyrir því?
-Ég vil bara gera þetta mál upp.
-Hmmpfh… Gjörðu svo vel.
-Þú hafðir mig fyrir rangri sök. Mér sárnaði það. Ég er ennþá sár.
-Ég spurði hvort þú hefðir gert það. Sjálfsagt í ásökunartón en þú sagðir nei og málið var dautt. Ég nefndi það aldrei framar. Aldrei.
-Málið var náttúrulega ekkert dautt. Þú lést mig njóta vafans, ekkert meira en það. Þú frystir mig ekki en það var bara af því að þú hafðir ekki sannanir. Þú trúðir mér ekkert.
-Nei það er satt, ég trúði þér ekki. Af hverju ertu eiginlega að hugsa um þetta núna, eftir öll þessi ár?
-Mér finnst ég eiga rétt á nokkrum spurningum áður en ég svara því.
-Prófaðu.
-Trúirðu mér í dag? Trúir þú því að ég hafi ekki komið nálægt þessu?
-Ég hef ekki hugsað um þetta lengi. Í gær hefði ég líklega sagt að þú hefðir gert það. Þú værir hinsvegar ekki að rifja þetta upp núna nema af því þér hefur sárnað í alvöru, svo já, ég trúi þér.
-Fyrst núna semsagt.
-Mér þykir það leitt hjartað mitt. Ég vildi að ég hefði trúað þér en ég gat ekki sannfært sjálfa mig. Þú sýndir heldur engin merki um að vera sár út í mig. Virtist sakbitinn ef eitthvað var.
-Maður getur nú verið sár þótt maður grenji ekki. Hefði það sannfært þig á þeim tíma eða þurfti mörg ár til að þú gæfir því séns að þér skjátlaðist?
-Ég bara veit það ekki. Þetta var áfall. Þú sórst þetta af þér en það virtist enginn annar koma til greina og ég er dálítið viðkvæm fyrir því að vera höfð að fífli. Hef gleypt of margar lygar sem ég hefði átt að sjá í gegnum.
-Segðu mér þá annað; þú hélst að ég hefði brugðist þér svona illa en samt treystirðu mér aftur. Hvaða vit er í því?
-Þetta var áður en mér varð ljóst að sá sem bregst einu sinni mun að öllum líkindum gera það aftur og svo leit ég á þetta sem barnalega hvatvísi en ekki illgirni. Mér er ekki alveg fyrirmunað að fyrirgefa og ég treysti þér nú ekki alveg samdægurs. Þú ert margbúinn að sanna hollustu þína síðan og það er greinilegra merki um iðrun en nokkur játning. Auk þess var enginn annar traustverðugri í lífi mínu og maður þarf að treysta einhverjum. Má ég annars spyrja þig að einu?
-Skjóttu.
-Þér fannst þessi „ásökun“ mín greinilega mjög særandi og fyrst þú vissir að ég trúði þér ekki þótt þú værir blásaklaus, af hverju brástu ekki ókvæða við? Af hverju snerirðu ekki baki við mér?
-Það var bara svo skiljanlegt að þig grunaði mig. Það var enginn í betri aðstöðu til að gera þetta. Þú fyrirgafst mér líka, að vísu eitthvað sem ég átti ekki sök á, en ég áttaði mig alveg á því að fyrirgefning af þinni hálfu er ekki eitthvað sem maður getur gengið að sem vísu, þannig að ég vissi að ég hlaut að skipta þig talsverðu máli.
-Ókei. Fleiri spurningar?
-Já.
-Láttu vaða.
-Ef ég hefði gert það og viðurkennt það, hvernig hefðirðu brugðist við?
-Sennilega horft á þig særðu augnaráði og látið þig hafa fyrir því að endurheimta traust mitt.
-Þú gerðir það hvort sem var! Hefði játning ekki breytt neinu?
-Ekki viðbrögðum mínum nei, en mér hefði liðið betur. Ég þarf að vita hvar ég hef þá sem standa mér næst.
-Og ef ég segi þér núna að það hafi reyndar verið ég? Hvernig færi sú játning í þig?
-Þessu ætla ég ekki að svara elskan. Mér finnst ágætt að mínir nánustu sé í pínulitlum vafa um hvar þeir hafa mig.
Þögn.
-Jæja. Ætlarðu að segja mér hvað vakir fyrir þér? Mér þykir fyrir því að geta ekki lesið hugsanir en í augnablikinu dettur mér ekkert í hug til að bæta fyrir það.
-Ég er ekki að fiska eftir afskökunarbeiðni Eva. Maður biðst afsökunar á slæmri framkomu og þú komst ekkert illa fram við mig. Það er ekki sanngjarnt að krefjast þess að fólk fyrirverði sig fyrir að hugsa rökrétt. Jafnvel þótt það rökrétta sé ekki alltaf rétt.
-Hvað þá? Hversvegna ertu að róta þessu upp?
Hann horfði beint í augun á mér, eiginlega óeðlilega beint. Og svo sagði hann;
-Þú hefur reyndar rétt fyrir þér um eitt atriði í þessu máli. Ég var sakbitinn líka. Málið er að ég vissi hver gerði það. Ég sagði ekkert af því að það var vinur minn og ég hélt að ég myndi missa ykkur bæði ef ég kjaftaði frá. Ég hélt að þú myndir sýna honum vanþóknun eða láta á einhvern hátt í ljós að þú vissir allt og svo hélt ég að þú myndir álykta að fyrst ég brást trausti hans myndi ég líka bregðast trausti þínu. Ég vonaði að þú kæmist að því eftir öðrum leiðum, sem var auðvitað út í hött af því að það vissi enginn nema ég hver gerði það. Ég segi þér þetta núna af því það er fyrst núna sem mér er ljóst að þú þurftir bara að vita hverjir eru líklegir til að stinga þig í bakið. Þú hefðir ekki gert neitt mál úr þessu. Ég áttaði mig ekki á því þá og já, ég ætlaði að segja þér að ég vanmat þig og mér þykir það leitt.
-Merkileg aðstaða. Við gerðum hvort öðru rangt til, án þess að koma illa fram. Er maður sekur um tilfinningar? Er maður sekur um rangar hugmyndir? Eða er sökin aðeins tengd framkomu?
-Ég veit það ekki og það er annað sem vefst fyrir mér; ég mat fyrirgefningu þína mikils þótt ég hefði ekki gert þetta. Það getur alltaf komið að því að maður þurfi á fyrirgefningu að halda og þarna fékk ég fyrirgefningu sem var byggð á röngum forsendum og þannig séð ógild. En það sem ég er að hugsa um er hvort fyrirgefning fellur úr gildi bara af því að forsendurnar voru rangar. Því ef svo er ekki þá á ég í rauninni eina fyrirgefningu inni hjá þér.