Stefán og drengirnir hans fóru með mér á matar og menningarkvöldið hjá félaginu Ísland-Palestína í gær.
Askur fann lausnina á ástandinu strax:
-Það verður einhver frá Íslandi að fara til þeirra og segja þeim að þeir verði bara að sættast svo þetta hætti.
Honum fannst alveg með ólíkindum að fólki gæti virkilega þótt það að sættast verri hugmynd en þjóðarmorð.
Ég verð að játa að mér finnst hálfvandræðalegt að vera fullorðin og geta ekki svarað spurningum drengjanna:
-Hvernig geta Ísraelsmann bannað Palestínumönnum að aka bíl í sínu eigin landi? Já en þeir ráða heima hjá sér, það má ekkert bara drepa þá?
-Já en er ekki ólöglegt að henda fólki út úr húsunum sínum? Af hverju kemur þá ekki löggan og stoppar þetta?
-Af hverju flytja Palestínumenn ekki á friðuð svæði? Já en ef þeir búa á friðuðum svæðum, hvernig geta Ísraelsmenn þá komist upp með að hrekja þá þaðan? Af hverju eru ekki Íslendingar og fólkið í öllum hinum löndunum búið að segja Ísraelsmönnum að þeir megi þetta ekki?
-Af hverju fer ekki fólk frá Íslandi og öðrum löndum þangað og stoppar þetta?
-Er ekkert búið að tala við kónginn í Ísrael og reyna að fá hann til að banna þeim að byggja vegginn?
-Af hverju er ekki allur heimurinn búinn að segja Ísraelum að við förum bara í stríð við þá ef þeir skili ekki landinu aftur?
-Af hverju viðurkennum við ekki ríkisstjórn Palestínu? Já en ef einhver rekur mann burt úr bænum sínum og drepur vini manns þá verður maður reiður, fólk hlýtur að mega verja sig? Af hverju viðurkennum við þá samt Ísraelsríki, þegar þeir hegða sér svona?
-Af hverju fara ekki hermenn frá öðrum löndum þangað og brjóta aðskilnaðarmúrinn?
-Af hverju flytja Palestínumenn ekki til annarra landa, t.d. til Íslands? Nú, af hverju tökum við ekki á móti flóttamönnum? Er ekki skylda að hjálpa fólki sem á bágt? Er það ekki í lögum?
-Hvað áttu við með að við getum hjálpað með því að segja öllum frá þessu, vita þetta ekki allir? Já en er þetta ekki í fréttunum? Af hverju er ekki sagt frá öllu í fréttunum, af hverju bara frá stríðinu en ekki öllu hinu?
Hvernig útskýrir maður fyrir barni að fullorðið fólk, fólkið sem við treystum til að stjórna heiminum, meti eigin hagsmuni meira en mannréttindi og að rétt og rangt skipti ekki sérstöku máli í pólitík? Og þó, það er kannski ekki svo flókið. Börn eru ginnkeypt fyrir hugmyndinni um góða menn og vonda og sjálfsagt væri hægt að afgreiða það þannig. Það er aftur erfiðara að svara því hversvegna almenningur allra landa kóar með ranglætinu og gerir engar kröfur um að alþjóðasamþykktum um mannréttindi og barnavernd sé framfylgt.