Allir ljúga. Það er nú bara mannsins eðli. Við ljúgum stöðugt og reiknum með að aðrir geri það líka. Við ljúgum til að komast hjá vandræðum (refsingum, leiðinlegum verkefnum, vanþóknun), til að líta betur út í augum annarra, til að kaupa okkur frest, til að gera söguna skemmtilegri … semsagt oftast í einhverjum augljósum tilgangi. Lygar geta verið tiltölulega skaðlausar ýkjur, óbætanlegt mannorðsmorð og allt þar á milli. En oftast, jafnvel þótt lygin sé ljót og óréttlætanleg, sér maður samt tilganginn með henni.
Við samþykkjum ósannindi að vissu marki. Flestum sárnar þó afskaplega mikið að verða fyrir trúnaðarbresti og taka því illa ef gefin er slæm mynd af þeim. Sjálf get ég yfirleitt afgreitt slíkt á skömmum tíma án þess að bíða tjón á sálu minni enda sjaldan orðið fyrir subbuskap af munni vina minna svo ég viti. Maður fær áfallahjálp hjá góðum vini, reynir að átta sig á því hvað lygarinn var að pæla og kemst að þeirri niðurstöðu að lygin hafi að vísu ekki verið réttlætanleg, jafnvel ekki fyrirgefanleg, en þó skiljanleg í ljósi þess að viðkomandi sé aumkunarvert svín. Hann laug til að forðast reiði mína, upphefja sjálfan sig o.s.frv; rangt en mannlegt.
Langoftast eru ósannindi af vægara tagi og það hreyfir lítið við mér þótt einhver monti sig af því að vera snjallari, orðheppnari eða betur innrættur en raunhæft er, ég skil tilganginn. Yfirleitt reyni ég ekki að leiðrétta það heldur. Það kemur mér hinsvegar í uppnám þegar fólk lýgur algerlega að ástæðulausu og þó sér í lagi þegar lygin augljós í þokkabót. Hverskonar fokkans rugl er það eiginlega að ljúga þegar maður græðir ekkert á því og gerir það ekki einu sinni af sæmilegri list?
Ég fór að hugsa um þetta áðan þegar ég fékk póst frá manni sem ég þekki ekkert, sem segist hafa gert tilraun með að skrá sig sem ríkan gaur og óska eftir skyndikynnum á einkamal.is. Ég get svosem alveg trúað því að hann hafi gert það en hann heldur því líka fram að hann hafi fengið 434 bréf fyrsta sólarhringinn. Til hvers í ósköpunum er maðurinn að segja mér svona þvælu? Allir sem hafa notað einkamal.is að ráði vita að konur fá mun fleiri bréf en karlar en ég hugsa að jafnvel ung, tvíkynhneigð kona með stór brjóst og áhuga á rassaríðingum fái ekki svo mörg bréf á einum degi nema þá kannski með því að hanga á netinu heilan sólarhring og svara hverjum einasta fávita.
Ég gerði afar óvísindalega könnun á vefnum. Fletti upp í skyndikynnaflokknum tveimur konum og tveimur körlum af handahófi.
Önnur konan er 21. árs, samkvæmt auglýsingunni, meðalhá, grannvaxin og segist vera „til í allt“. Hennar síða hefur verið skoðuð 763svar sinnum frá því í lok júlí 2006.
Hin er 32ja ára, há og grönn, kann ekki stafsetningu og segist vera „heavy gröð“. Flettingar á hennar síðu eru 2694 á aðeins 9 dögum.
25 ára karlmaður sem segist myndarlegur og vel stæður, hefur fengið 55 flettingar frá 10. júní 2006.
39 ára karl kveðst vilja borga fyrir munnmök. Hans síða hefur verið skoðuð 260 sinnum síðan 2. janúar.
Nú má reikna með að mun færri skrifi bréf en þeir sem líta á auglýsinguna. Allavega mun fáheyrt að nokkur fái 434 bréf á fyrsta degi. Hvað þá karlmaður. Og nú velti ég því fyrir mér hvað í ósköpunum vaki fyrir blessuðum manninum með því að bjóða mér upp á svona vitleysu. Varla er tilgangurinn sá að stæra sig. Þetta er kannski hugsað sem einhverskonar greindarpróf?
Líklega ætti ég bara að spyrja hann sjálfan. Hann tekur fram í sama bréfi að hann ljúgi aldrei svo ég fengi sjálfsagt áreiðanlegt svar.
View Comments (1)
------------------------------------------------------------
Einhvern tímann las ég (svo það hlýtur að vera rétt) að þeir sem séu gjarnastir á að ljúga séu jafnframt almennt lélegustu lygararnir...
Posted by: Kalli | 24.01.2007 | 10:17:28
------------------------------------------------------------
Ég hefði nú haldið að æfingin skapaði meistarann í því eins og öllu öðru en kannski á lygin meira skylt við vímuefni, auðvelt að missa stjórnina.
Posted by: Eva | 24.01.2007 | 13:11:17
------------------------------------------------------------
Þetta minnir mig á kvæðið :)
Það er vandi að sjá um sig,
svo ei grandist friður.
Hvert það band, sem bindur mig,
bælir andann niður.
Kveður norna kalda raust
-kliður fornra strauma-
aftur morgnar efalaust
eftir horfna drauma.
Posted by: handsomedevil46 | 24.01.2007 | 15:16:25
------------------------------------------------------------
Aðallega held ég að lygarar verði að vera sérlega minnugir, þeir þurfa jú að muna allt sem þeir hafa logið.
Posted by: Miss G | 25.01.2007 | 9:42:57
------------------------------------------------------------
já, getur örugglega verið hrikalega erfitt að halda lygunum straight.
Posted by: hildigunnur | 25.01.2007 | 9:51:44