Það er greinilega alveg málið að blokkera bara stíft. Ég fæ næstum engan póst á e-m lengur, kannski 2-3 skeyti á dag en er komin með 13 manna úrtak á msn og þeir virðast allir prýðismenn. Hef hitt 5 og það var bara sá fyrsti sem reyndist augljóslega fáviti.
Ég er fegin að ég hélt bara áfram og hitti hina líka. Einn þeirra sýndi mér reyndar ekki vott af áhuga, spurði nákvæmlega ekkert út í mig en vildi samt fá að hitta mig aftur af því að ég er víst „svo áhugaverð“. Ég spurði hann hvað hann ætti við og hann sagði að ég væri „falleg, hlý og gott að tala við mig“. Semsagt hlý, hmmm…. Ég held samt að sá maður sé alveg stórfínn. Hann er ekki nógu hrifinn af mér, (ef maður laðast að einhverjum vill maður fá að vita EITTHVAÐ um hann) en myndi kannski vilja bara einhvern félagsskap frekar en að vera einn. Það er ekki í boði hjá mér en hann getur áreiðanlega orðið ástfanginn af einhverri annarri. Hinir þrír eru menn sem ég hefði nú bara haldið að væru hamingjusamlega kvæntir og undarlegt nokk þá líst mér alltaf betur og betur á góðu strákana.
Um áramótin var ég mjög efins um að ég ætti að reyna að nálgast karlmenn á meðan ég væri ennþá svona reið út í tegundina en það er mjög hollt að sjá að það eru til almennilegir og huggulegir menn sem eru raunverulega að leita að maka og vanda sig við það. Ég verð ekki yfir mig ástfangin af þeim öllum og þeir verða ekki allir hrifnir af mér en ég sé fyrir mér að ég geti, í fyrsta sinn á ævinni, kynnt einhleypar vinkonur mínar fyrir fleiri en einum manni á 5 ára fresti.
Ég má samt til að henda inn nokkrum gullkornum sem hafa slæðst með á e-m.
-Nei ég er alls ekki að leita að bólfélaga heldur föstu sambandi. En ég vinn mikið og hef kanski ekki alveg tíma fyrir mjög alvarlegt samband.
(Semsagt fast samband en bara ekki alvarlegt?)
-Ég er háskólamenntaður, í góðri stöðu og ekki með skuldahala eða drykkjuvandamál. Það er bara eitt sem ég vil hafa á hreinu strax, ég get ekki tekið stríðni.
(Nei ég svaraði ekki „hí’á’ðig“, en mig langaði.)
-Já ég á tvö börn en þau eru mjög lítið hjá mér og ég þarf þannig séð ekkert að taka þau ef þú vilt hittast um helgina.
(Maður sem tekur helgarriðlirí fram yfir börnin sín. Einmitt týpan sem ég fell fyrir.)<
-Þú ert flott og gætir áreiðanlega selt blindum manni litasjónvarp.
(Maðurinn hefur ekki séð mynd af mér og hefur ekki hugmynd um hvort ég er flott, hvað þá að hann hafi nokkra hugmynd um sölumannshæfileika mína. Ég var reyndar búin að segja honum að ég nyti mín ekkert sérstaklega vel í afgreiðslu.)
-Ég var líka einu sinni trúlaus en svo uppgötvaði ég að trúleysi kemur út frá fáfræði.
(Jamm)
View Comments (1)
---------------------------------
Sá síðasti fær verðlaun sem ég legg til: prefrontal lobotomy á LSH.
Hann skemmir heilablöðin hvort sem er ef hann sekkur eitthvað í þessi trúarbrögð að viti.
Posted by: Kalli | 8.02.2007 | 14:06:32