X

Goðsögnin um endorfínkikkið

Tvennt hefur komið mér á óvart síðustu daga.

Í fyrsta lagi er fólk sem hreyfir sig reglulega er ekki rassgat fallegra en við hin. Að vísu hef ég ekki séð marga fituhlunka í tækjasalnum og sjálfsagt er þetta fólk allt saman rosalega sterkt og með mikið úthald en sturturnar eru svo fullar af signum brjóstum, flaxandi viskustykkjahandleggjum og lærum með mörkögglaáferð að ég er alveg hissa á að lýtalæknar hafi ekki klínt auglýsingum upp um alla veggi.

Ég sé í hendi mér tvær hugsanlegar skýringar. Annað hvort hefur líkamsáreynsla 2-7 tíma á viku ekkert afgerandi áhrif og þannig tilgangslaust að vera að þessu í fegrunarskyni nema þá að hafa atvinnu af því, eða þá að fólk hættir um leið og það er orðið ánægt með sig. Ef síðari skýringin er rétt, rennir hún stoðum undir grunsemdir mínar um að endorfínkikkið sé goðsögn. Því ef er eitthvað til í því að hreyfingu fylgi slík vellíðan að fólk verði háð því að hamast, þá hlyti það að halda áfram að mæta.

Mér finnst mjög ótrúlegt að ég eigi eftir að upplifa slíka sælu við að kreppa kviðvöðvana að það muni verða mér meiri hvatning en nístandi ótti minn við að geta ekki gengið um elliheimilið nema með súrefniskút í eftirdragi þegar þar að kemur. Mér finnst fátt jafn skelfilegt og tilhugsunin um að verða veikt gamalmenni. Reyndar hélt ég að ég fengi kannski flottan skrokk í kaupbæti en mér sýnist á öllu að trimform, buffer og fokdýr krem virki betur á mörkögglana en hreyfing. Reyndar er mannslíkaminn oftar en ekki ljótur og ég held að fólk sem er í alvöru fallegt, noti til þess lýtalækna og fótósjopp.

Efasemdir mínar um hið rómaða endorfínkikk hafa svo ekki minnkað við að komast að raun um að smá áreynsla getur komið af stað sömu efnaskiptum og tilfinningalegt áfall, sem er hitt atriðið sem kemur mér á óvart. Ég átti ekki von á endorfínkikki en því síður þessu. Nú er ég búin að vera gjörsamlega miður mín fram yfir hádegi tvo daga í röð, án nokkurrar röklegrar skýringar. Eins og ég verði hreinlega fyrir áfalli ca 2 mínútum eftir að ég hætti að hamast. Endorfín -myass!

Best gæti ég trúað að þessi undarlega hugmynd um endorfínkikkið hafi orðið til þegar einhver fávitinn sá konuna sína bresta í grát í lok æfingar og spurði hvort væri ekki allt í lagi. Konan, sem hafði enga röklega ástæðu til að vera leið, svaraði „jújú elskan, þetta er bara svo gott“ alveg eins og hún var vön að gera þegar hún orðin of þreytt til að feika raðfullnægingu. Fávitinn gleypti þá skýringu hráa og goðsögnin um endorfínkikkið varð til. Þar sem fólk er almennt svo auðtrúa að það er hægt að telja því trú um aðra eins firru og þá að áfengisvíma sé góð (þrátt fyrir reynslu mjög margra af uppköstum, skammarlegri hegðun og veikindum daginn eftir) þá er líka hægt að telja því trú um að ofþreytuáfall sé í rauninni himnesk sæla.

Strindberg hitti naglann á höfuðið. Mikið ósköp eiga mennirnir bágt.

 

sapuopera:

View Comments (1)

  • -----------------------------------------------------------
    haha, ég hef haldið þessu fram með endorfínkikkið í mörg ár :-D

    Ég fer reyndar ekki í svona áfall, en ég verð alltaf alveg viðbjóðslega þreytt ef ég fer í ræktina, linast niður og get ekki haldið hausnum uppi restina af deginum. Held að það sé líka bara mýta hvað maður verður hress af þessu rugli.

    Posted by: hildigunnur | 20.04.2007 | 17:52:02

    -----------------------------------------------------------

    ég ætla að leyfa mér að vera ósammála...... það tekur að vísu tíma fyrir líkamann að fá "kikkið". Fyrst verður hann bara voða þreyttur - en þá ertu líklegast að gera of mikið til að byrja með.

    Svo finnst mér ég líka ósköp falleg :-)

    Posted by: lindablinda | 20.04.2007 | 18:39:03

    -----------------------------------------------------------

    Þó það nú væri að fólk sem hefur atvinnu af því að hoppa sjái árangur. Mig langar annars að spyrja þig sem atvinnuhoppara hvort áfallaröskun eftir æfingu er þekkt fyrirbæri eða hvort ég er bara eitthvað gölluð.

    Posted by: Eva | 20.04.2007 | 21:03:25

    -----------------------------------------------------------

    Endorfínkikkið er staðreynd, en þreytan er það líka. Mýtan að maður sé eitthvað svo rosa hress af því að maður er alltaf í ræktinni er jaðarröksemdafærsla á góðum degi. Maður er náttúrulega miklu þreyttari. Af því að maður djöflast. En ég er orðinn háður.

    Posted by: DonPedro | 21.04.2007 | 1:08:21

    -----------------------------------------------------------

    Fáðu uppskriftina að vellíðan hjá pabba þínum. Hann byrjar hvern einasta dag í líkamsræktinni og er þar í tvo tíma. Ekki slæmt fyrir mann á hans aldri.
    Kær kveðja,

    Posted by: Ragna | 21.04.2007 | 9:22:18

    -----------------------------------------------------------

    Linda, ég hef tekið löng löng tímabil þar sem ég hef hamast, bæði farið í sprikltíma, (jafnvel merkta vönum), hlaupið og lyft og núna hjóla eins og vitleysingur. Ég held ég hafi tvisvar eða þrisvar fundið eitthvað sem ég gæti skilgreint sem endorfínflæði, og þó veit ég ekki. Ekki kikk, bara að mig hafi haldið áfram að hita í líkamann. (hvernig lýsir þetta kikk sér, annars)? Og þreytan hætti ekki neitt...

    Posted by: hildigunnur | 21.04.2007 | 10:59:56

    -----------------------------------------------------------

    Áfallaröskun sem slík er kannski ekki þekkt fyrirbæri, en að fara of geyst af stað, ætla sér of mikið og enda svo í ofþreytu og þunglyndi - er MJÖG þekkt fyrirbæri. Það er bara ekki hægt að koma sér úr yfirþyngd, slappleika og/eða áralöngu hreyfingaleysi í draumaformið/þolið á nokkrum vikum. Málið er að byggja sig upp jafnt og þétt og ofgera sér ekki. Þú átt ekki að koma titrandi og skjálfandi og á barmi þess að æla úr hreyfingunni, þá hefur þú ofgert þér og býður upp á að þig langar ekki aftur og ferð að kvíða hreyfingunni.Don - Þá daga sem ég hreyfi mig ekki er ég kolómöguleg, þreytt og ekki skýr í kollinum - þannig að ég er líklegast fíkill.....ég sofna hins vegar snemma.
    Hildigunnur - þetta er eins og að fá skyndilega risastóran skammt af aukaorku sem flæðir í gegnum líkamann. Þér finnst þú geta haldið áfram endalaust. Það þarf hins vegar að vera í formi og beita sér - til þess að finna þessi áhrif. Tók mig langan tíma esskurnar ;)

    Posted by: lindablinda | 21.04.2007 | 11:46:03

    -----------------------------------------------------------

    sem betur fer á ég auðvelt með að komast í endorfínkikkið í hressilegum leikfimitíma...og það að fara í gönguferðir, tala nú ekki um fjallgöngur, fyllir mig hreinlega hamingju og ég brosi m.a.s. í svefni þegar súrefnisflæðið og hreyfingin er næg.

    ef ég sleppi hreyfingunni, þá pompa ég niður í óánægju og leiðindalíðan.

    Posted by: baun | 21.04.2007 | 12:26:49

    -----------------------------------------------------------

    eru 2 ár með talsverðri hreyfingu amk. þrisvar í viku ekki nóg? Ég hef amk. aldrei fundið svona tilfinningu.

    Mér hefur heldur aldrei tekist að komast á þetta stig sem Baun talar um heldur, að verða háð hreyfingu. Eins og ég væri til í það. Þykir þetta yfirleitt frekar leiðinlegt og er þeirri stund fegnust þegar ég tek mér hlé á æfingum. En það gengur samt náttúrlega ekki að gera ekkert, þannig að ég drattast alltaf aftur í gang áður en ég verð of lin.

    Posted by: hildigunnur | 21.04.2007 | 14:33:50

    -----------------------------------------------------------

    hefði nú aldeilis haldið að 2 ár ættu að nægja, 2-3 mánuðir ættu að nægja til að koma "venjulegu" fólki á þetta endorfínról. en ég hef sossum ekki hundsvit á þessu..

    Posted by: baun | 21.04.2007 | 17:01:32

    -----------------------------------------------------------

    Ég hef Hildigunni grunaða um að finnast þetta bara með eindæmum leiðinlegt og þess vegna er líkamanum (heilanum) gefin röng skilaboð frá upphafi. Þekki svona rólegheitatýpur. Ég skal samt veðja að tilfinningin sem H fær þegar hún hlustar á tónlistina sína flutta eða eftir velheppnaða tónleika - fær hún tilfinningu sem er ansi lík endorfínkikkinu ;)
    En málið er að finna þá hreyfingu sem hentar, kannski ert þú bara svona sund týpa.....eða eitthvað annað?

    Posted by: lindablinda | 21.04.2007 | 18:20:43

    -----------------------------------------------------------

    Mér finnst alveg með eindæmum leiðinlegt að fara í kropparækt en ég geri það samt.Þetta er bara eðlilegt viðhald svona svipað eins og að mála húsið sitt. Merkilegt samt, eins og mér finnst alltaf leiðinlegt að hafa mig af stað, hvað mér líður svo miklu betur líkamlega og andlega á eftir.

    Posted by: Guðjón Viðar | 22.04.2007 | 11:05:02

    -----------------------------------------------------------

    haha, það gæti sko meira en verið að þetta sé leiðindastuðlinum að kenna :D

    Jú, maður getur fengið hellings kikk út úr vel heppnuðum flutningi, og líka með því að taka þátt í flutningi á flottri músík.

    Mér finnst gaman að hjóla, vona að ég haldi áfram að vera dugleg við það. Kikkið hefur ekki komið enn, sjáum til.

    Posted by: hildigunnur | 22.04.2007 | 22:54:41