Stjórnvöld geta bætt hag öryrkja með einni ákvörðun, snúið frá stóriðjustefnunni og hafnað þátttöku í hernaði. Þau geta ekki upprætt andfélagslega hegðun afbrotamanna jafn auðveldlega. Þau geta hert refsingar en það dregur ekki úr glæpatíðni. Það er hægt að hafa fleiri löggur á vappi í miðbænum, en með því er bara verið að færa vandann á milli staða, ekki uppræta hann.
Það hefur hvarflað að mér að með því að ganga gegn öllum fjandanum, sé hætta á að við gengisfellum kröfugönguna. Flestir eru mótfallnir slysum, þunglyndi, nauðgunum, heimilisofbeldi, vímuefnavanda, einelti, offitu og anorexíu. Ef við mótmælum opinberlega öllum félagslegum vandamálum, með sömu aðferð og við notum til að vekja athygli stjórnvalda á því að þau hafi tekið óvinsælar ákvarðanir, getum við þá búist við að kröfur sem þau eru fær um að bregðast við, hafi áhrif?