Tvö stefnumót bókuð í vikunni. Vííí! Það er greinilega vit í því að bjóða fundarlaun (sem hefðu hvort sem er farið í makaleitartilraunir, mun ólíklegri til árangurs).
Ég skora samt enn og aftur á alla sem langar í hundraðþúsundkall að plögga mig. Muna bara að ég er ekki að leita að bólfélaga eða kærasta heldur maka. Ég trúi ekki á kærustusambönd. Vinkona mín var búin að þekkja manninn sinn í 9 ár áður en þau giftust. Þau skildu. Önnur varð fyrir því að eftir 20 ára hjónaband stóð maðurinn upp frá morgunverðarborðinu og sagðist „ekki nenna þessu lengur“ án þess að húnhefði nokkra vitræna ástæðu til að halda að eitthvað væri að. Langur tími er sumsé engin trygging fyrir eilífri ást og hamingju. Sæmilega glöggt fólk ætti ekki að þurfa meira en sex mánaða tilhugalíf til að gera upp við sig hvort það er tilbúið til að búa saman, með þeim fórnum sem sambúð útheimtir. Sumsé, ef þú þekkir einhvern frambærilega sem er í alvarlegri makaleit, sendu hann þá til mín.