Þann 15. febrúar veitti Blaðamannafélag Íslands Jóni Bjarka Magnússyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni sem báðir skrifa fyrir DV blaðamannaverðlaun ársins fyrir umfjöllun þeirra um málefni hælisleitenda. Lekamálið hafði þá náð nýjum og óvæntum hæðum. Nú, hálfu ári síðar, stendur stjórnmálaferill Hönnu Birnu Kristjánsdóttur enn á ný í ljósum logum, aðstoðarmaður hennar liggur undir grun um trúnaðarbrot, og lágkúran virðist engum botni ætla að ná. Haukur Hilmarsson tók Jón Bjarka og Jóhann Pál tali.

Hvers vegna þessi áhersla á flóttamenn?

JB: Ég var nýgræðingur í blaðamennsku þegar Paul Ramses var sendur úr landi frá konu og nýfæddu barni. Það sló mig illa að sjá fólk flokkað sem ólöglegt, vita af fólki sem gat verið sent fyrirvaralaust úr landi.  Næstu ár kafaði ég dýpra, heimsótti flóttamannabúðir í Keflavík og tók viðtöl. Síðan þá hefur skíturinn bara hlaðist upp.

Skítur? Það er sterkt til orða tekið.

JB: Hvað annað getur maður sagt?

JP: Við erum að fjalla um valdníðslu. Það er bara óábyrgt að kalla hana  ekki sínum réttu nöfnum.

JP: Það er að vissu leyti viðbúið að samfélagið bregðist illa við svona umfjöllun. Við erum vön því að heyra um fallega velferðarkerfið sem við, þessi eðlilegu hvítu búum í. Útlendingum er kerfisbundið lýst sem „hinum“ og þar af leiðandi mæta brot á réttindum þeirra lítilli andstöðu.

Hefur þetta viðhorf ekkert breyst?

JB: Ég held reyndar að fólk í dag sé meðvitaðra en það var. Það hlýtur að gerast með tímanum. Það er svo augljóst mynstur í þessum brotum að það er ekki hægt að neita því að við búum við kerfisbundnar árásir á flóttafólk.

JP:Þegar brotin eru svona mörg og alvarleg, forsendurnar svo absúrd og svo margar stofnanir sem neita að viðurkenna mistök og afbrot, þá er engin leið að kalla það neitt annað en stofnanarasisma.

Þeir eru svo vanir því að fylgjast með þessu munstri mannréttindabrota að í samtali okkar vísar Jón Bjarki vísar til þess sem „ólöglegu innflytjendastefnunnar“. Ólöglegar fangelsanir eru viðtekin venja þegar flóttamenn koma til landsins á fölsuðum skilríkjum og mikill meiri hluti þeirra sem er vísað frá landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar er sendur úr landi löngu eftir að það getur talist leyfilegt samkvæmt henni. Úrskurðir eru birtir á íslensku í trássi við lög og aðbúnaður í flóttamannabúðunum er oft óviðunandi.

JP: Þarna er beinlínis hugmyndafræði að verki. Útlendingum er ítrekað haldið frá landinu á sama tíma og stefnuræða forsetisráðherra á alþingi fjallar um „fyrirmyndarland“ þar sem búi lítil þjóð með sameiginleg gildi.

Eftirlit eða ofbeldi?

Undanfarin ár hefur mikill fjöldi flóttamanna mótmælt, farið í hungurverkföll og jafnvel reynt að kveikja í sér til þess að berjast gegn þessarri stefnu. Síðan 2008 hefur lögreglan minnst tvisvar sinnum ráðist í stórar rassíur í flóttamannabúðum og minnst 5 flóttamenn hafa farið í felur og farið huldu höfði í allt að 13 mánuði.

Árið 2013 var niðurdrepandi. Kristín Völundardóttir, forstjóri UTL, lýsti opinberlega þeirri sannfæringu að meðal hælisleitenda væru sumir sem einfaldlega kæmu hingað sem ferðamenn en nýttu sér umsóknarferlið til þess að snapa ókeypis fæði og gistingu. Þvert á rétt hvers manns til friðhelgi einkalífs var eftirlitsmyndavélum komið fyrir í setustofunni á flóttamannabúðunum Fit Hostel í Reykjanesbæ. Einn flóttamaður framdi sjálfsmorð og skildi eftir sig son sinn á unglingsaldri og ofbeldi gegn flóttamönnum í íslenskum fangelsum var látið viðgangast þrátt fyrir vitund fangelsisyfirvalda.

Snemma morguns þann 26. September réðist sérsveit lögreglunnar inn í flóttamannabúðir í Auðbrekku í Kópavogi og handtók 15 manns. Eftir að hafa lagt hald á 1 gramm af kannabisefnum og eldhúshníf tilkynnti lögreglan fjölmiðlum að hún hefði fundið vopn og eiturlyf. Í kjölfarið fóru sögusagnir um albanskar glæpaklíkur á kreik.

JB: Það er áhugavert að sjá lögregluna tilgreina og glæpgera sérstaklega þjóðerni sumra íbúanna. Í dag búa Albanir við samskonar rasisma og Litháar hér um árið. Maður heyrði fólk kalla íbúana meðlimi í albönsku mafíunni án þess að það kæmi auga á hinn raunverulega glæp. Auðbrekka er iðnaðarhúsnæði sem var leigt af Reykjanesbæ án vitundar eða samþykkis Kópavogsbæjar. Einhver gæi fékk bara frábæran díl!

Svona sóðaskapur í rekstri flóttamannabúða hlýtur að vera einsdæmi!?

JP: Neibb. Það er ekki einu sinni til skrifaður leigusamningur fyrir flóttamannabúðirnar í Reykjanesbæ. Fit Hostel er á munnlegum samning!

Mörgum spurningum varðandi Auðbrekkuárásina er enn ósvarað, kanski vegna þess hve fáir hafa haft fyrir því að spyrja þeirra. Búðirnar eru enn reknar þrátt fyrir að það sé ólöglegt að búa í iðnaðarhúsnæði. Þótt ekkert virðist réttlæta svo stóra og grófa innrás hefur lögreglunni dugað að útskýra hana sem hluta af „eftirliti með hælisleitendum“. Hverju því eftirliti er ætlað að skila, hver hafði frumkvæði að því eða heimilaði það, hvers vegna þurfti að beita offorsi við það og nákvæmur fjöldi brota gegn alþjóðlegum mannréttindum og íslenskum lögum var framinn; ekkert af þessu hefur enn komið fram. En hitt er víst að það að brjóta niður hurðir og handtaka fólk þar sem það sefur í rúmum sínum og keyra það síðan á milli bæjarfélaga þar sem því er sleppt út á götu, án ákæru en á nærfötunum einum fata er brot á 2. Msgr 13. og 14. gr. lögreglulaga. Að halda öðru fram er einfaldlega lygi.

JB: Hvað segir Hanna Birna þegar hún er spurð um þetta á alþingi? Það sama og hún segir svo oft: Ekkert bendir til þess að mannréttindi hafii verið brotin.

JP: Lekamálið er eitt stórt dæmi um það þegar margar stofnanir bregðast samstundis. Það byrjaði þegar Jón Bjarki var að skrifa um brottvísun Tony Omos en kærastan hans, Evelyn Glory Joseph, var ólétt. Þau unnu samúð almennings og einhver boðaði til mótmæla til stuðnings þeim.

Daginn sem mótmælin áttu að fara fram birtu Fréttablaðið og mbl.is misvísandi ásakanir um meinta aðild Tonys að mansali. Upplýsingarnar komu úr skjali sem varðaði mál mannsins innan úr innanríkisráðuneytinu og  voru augljóslega trúnaðarmál. Í fréttunum var gasprað um gríðarlega viðkvæmar persónuuplýsingar um Evelyn auk þess sem henni var brigslað um að hafa verið beitt þrýstingi til þess að nefna Tony sem barnsföður sinn en það er staðhæfing sem síðar hefur komið á daginn að var bætt við skjalið daginn sem því var lekið og er ekki að finna í öðrum gögnum málsins. 

JP: Í fyrstu var þetta bara sjokk. En þegar við fórum að spyrja aðstoðarmenn ráðherrans spurninga, þá fyrst fóru að læðast að manni einhverjar grunsemdir. Það var eitthvað svo hrikalega skrítið, klaufalegt og grunsamlegt við það hvernig þau brugðust við. Staðhæfingarnar rákust hver á aðra og þetta breyttist bara í farsa. Það var í rauninni ráðuneytið sjálft sem upplýsti málið en ekki við. Við ætluðum ekkert að eyðileggja pólitískan feril Hönnu Birnu, það bara gerðist. Kanski er stóran lexían hérna fyrir stjórnmálamenn að þeir þurfa að ráða sér hæfa aðstoðarmenn, ekki fólk sem eru svo góðir vinir ráðherrans að það sé ekki hægt að fórna þeim.

Vantaði bara upp á samræmið eða voru þetta hreint út sagt lygar?

JP: Ótrúlega margar lygar! Svoleiðis hafsjór af ósannindum! En margar staðhæfingar bentu líka til þess að ráðherrann hreinlega misskildi stjórnskipan landsins.

Ráðuneytið hefur staðhæft að engum frekari spurningum verði svarað frá DV. Er það ekki fremur óvanalegt að yfirvöld sniðgangi einn tiltekinn fjölmiðil?

JB: Jú, mjög svo. En líka afneitun ráðuneytisins á öllum stigum málsins. Í fyrstu neytuðu þau hreinlega að nokkuð hefði lekið, þrátt fyrir að upplýsingarnar væru augljóslega í fjölmiðlum.

JP: Seinna létu þau eins og hver sem er hefði getað lekið þessu, Rauði Krossinn til dæmis. En nú er ljóst að bara örfáir einstaklingar höfðu aðgang að skjalinu þegar því var lekið.

Þetta tilfelli hefur vissulega mikla sérstöðu en þó hefur ríkið oft gripið til þöggunnar til að bregðast við umfjöllun þeirra.

JB: Yfirleitt svara yfirvöld eins sjaldan og eins litlu og mögulegt er. Fyrst reyna þau að þaga málin í hel, ef það virkar ekki ráðast þau á fjölmiðilinn og saka okkur um pólitískar ofsóknir. Þau reyna að forðast seinna skrefið en þetta endurtekur sig yfirleitt þegar við fylgjum stórum málum í smá tíma.

Kerfið

Hugmyndin að þessu viðtali kviknaði þegar ég las umsögn dómnefndar blaðamannaverðlaunanna. Þar segir:

Þeir leiða lesendur sína inn í skúmaskotin, gefa röddum hælisleitenda vægi, benda á neikvæð og niðurlægjandi viðhorf, sýna fram á brotalamir í kerfinu og síðast en ekki síst fylgja mörgum þráðum vel eftir.

Notkun dómnefndar á orðinu „kerfi“ sló mig. Hugtakið er óljóst en gefur hugmynd um einhversskonar gangverk óháð og hafið yfir mannlegan vilja. Ég sé fyrir mér ókleyft fjall af lögformlegum leiðum ríkisvaldsins til þess að takmarka athafnafrelsi einstaklinga, hafa af þeim lífsviðurværið og grafa undan samtakamætti þeirra. Kannski er þetta mistúlkun, en þetta stóra orð var bara ekki útskýrt neitt frekar.

Hvað er kerfið?

JP: Ætli það sé ekki verið að vísa í Þjóðríkið og stofnanir þess?

JB: Það hljómar sennilega. Stofnanir sem við ölumst upp við að eigi bara að stjórna en eiga sér þegar betur er að góð upptök í hugmyndafræði.  „Þjóðin“ er t.d. concept sem við trúum á einfaldleg  vegna þess að okkur er kennt að gera það í barnaskóla. Hugmynd um eitt tungumál og önnur sameiginleg einkenni sem tryggi „þjóðareiningu“. Þetta er algerlega huglægur skilningur og hann hrynur þegar við komumst í mikla  snertingu við aðra menningarheima.

Þeir segja almennt samþykki fyrir þjóðernishyggju skapa falska hugmynd um að stjórnvöld hafi lýðræðislegt umboð til að ráðast í aðgerðir gegn útlendingum. Þeir ergja sig á tvöföldu siðferði ríkisvaldsins sem útskýrir eigin tilvist með vísun í mannréttindi og gagnsæi á sama tíma og það treður þessi sömu gildi undir fótum sér. Jón Bjarki veltir því fyrir sér hvort það sé yfir höfuð hægt að vinna að lagalegum umbótum innan þvílíkrar lögleysu.

JB: Ég efast um að það sé hægt að vinna á stofnanarasisma innan ríkisvaldsins. Ég óttast að hann muni bara vaxa, eins og varnargarðurinn sem við sjáum umlykja Evrópu.

Umræddur varnargarður er FRONTEX, stofnun á vegum Evrópusambandsins sem sinnir landamæraeftirliti fyrir alla á alla álfuna. Hann bendir á að sam-evrópsk stefna um að halda flóttamönnum frá hljóti alltaf að bitna á rækilega skilgreindum mannréttindum, svo sem rétitinum til lífs og mannvirðingar.  

Jóhann Páll er ekki alveg eins svartsýnn.

JP: Þótt umbótastarf verði aldrei auðvelt þá hefði það strax talsverða þýðingu að lögfesta flóttamannasamning Sameinuðu Þjóðanna. Í augnablikinu hefur hann ekkert lagalegt vægi og Ísland fer engan veginn eftir honum. Ef ríkinu væri alvara með að bæta sig þá myndi það að innleiða ákvæði samningsins í landslög og virða þau síðan strax fækka mannréttindabrotum til muna.

Að kjósa ofbeldi

Samkvæmt þessu vísar „kerfið“ til einhvers konar sambands milli ríkisvaldsins og sýnar almennings á það. En hver er ábyrgð almennings?

Í umsögn dómnefndar um blaðamannaverðlaunin segir að fæstir láti sig varða aðstæður flóttafólks á Íslandi. Af hverju haldið þið að þetta sé?

 JP: Sektarkennd og skömm. Mál flóttafólks einkennast af stuðandi grimmd sem samfélagið vill ekki kannast við en er þarna samt sem áður.

JB: Þau sýna að við erum fær um ofbeldi gagnvart minnihlutahópum. Við beitum því gagnvart útlendingum og gætum beitt því gegn hverjum sem er.

Samt sem áður spinnast oft langar umræður í athugasemdakerfi DV vegna skrifa ykkar. Hvaða afstöður sjáið þið þar og endurspegla þær samfélagið?

JP: Yfirleitt greinist þetta í háværan hóp rasista og svo annan, ef til vill aðeins háværari hóp anti-rasista. Fáir standa þarna á milli og þessir hópar geta engan veginn talað saman.

JB: Ég held ekki að þetta gefi skýra mynd af því hvernig skoðani r fólks dreifast en þarna koma fram flest öll rök og skoðanir. Þetta er ekki þverskurður af samfélaginu, heldur þeim skoðunum sem rúmast innan þess.

Er mögulegt að treysta lýðræðinu þess að tryggja mannréttindi í landi þar sem rasismi á sér kröftuga málssvara á opnum umræðuborðum og stofnanarasismi mætir lítilli andstöðu?

JP: Mannréttindi eiga að vera óumsemjanleg en samt er rifist um þau eins og hvert annað deilumál. Oddviti framsóknarflokksin (á síðasta kjörtímabili) sem leiðir núverandi ríkisstjórn lagði til að öklabönd með staðsetningarbúnaði yrðu fest á hælisleitendur. Þingmenn beggja stjórnarflokka brugðust við legkamálinu með því að stinga upp á algjöru afnámi á friðhelgi einkalífsins. Að öll gögn um hælisleitendur yrðu bara birt. Ég þori eiginlega ekki að svara þessu. Það er erfitt að segja til um það.

Tilgangur blaðamennsku

Þrátt fyrir viðurkenningu blaðamannafélagsins sæta þeir enn mikilli gagnrýni. Algengt er að heyra kvartað undan augljósri pólitískri hlutdrægni þeirra með flóttamönnum.

JP: Í dag er eins og pólitík sé álitin skítug. Eitthvað sem blaðamenn og fræðimenn eigi að halda sig frá. Eins og pólitíkusar eigi einkarétt á pólitískum hugsunum. En fyrir blaðamann felst afstaða í því að fjalla ekki um valdníðslu.Auðvitað hefur umfjöllun okkar alltaf verið pólitísk. Þetta eru pólitískar spurningar eftir allt saman. Milljónir spurninga hafa aldrei verið bornar fram af því að blaðamennirnir voru að vanda sig við að vera hlutlausir.

JB: Þú ert alltaf samansafn af reynslu þinni, upplifunum og skoðunum. Þú getur ekki bara hlutleyst sjálfan þig og nálgast allt eins og óskrifað blað. Maður skyldi ætla að þegar þú spyrð spurningar þá hafir þú valið hana sjálfur. Þú lætur ekki viðmælandann velja spurningarnar. Valið á spurningum afhjúpar afstöðu þína. Þegar 15 hælisleitendur eru handteknir á nærbuxunum þá tekur þú afstöðu með því að prenta bara skýringar yfirvalda og spyrja engann annan. En fyrir sumum er það hlutleysi.

JP: Ég skynja samt meiri agressjón undanfarið. Það er smátt og smátt að detta úr týsku að þjónusta bara valdið. Eftirspurn eftir gagnrýnni fjölmiðlun er að aukast á kostnað hlutleysiskröfunnar. Hún er líka svo kæfandi. Hún beinlínis geldir fjölmiðla.

JB: Hún er bara ritskoðun! Ég held að við förum að sjá betri fréttir þegar blaðamenn hrista af sér þennan ótta. Ef við gröfum djúpt eftir því sem fólk fær ekki að heyra í stað þess að sitja bara við tölvuna og taka við tilkynningum frá ráðuneytum mun það skila fréttum sem eru í alvörunni fréttnæmar.

Tengdir við aktífisma

Hlutleysisins vegna skal það tekið fram að ekki eru allir á eitt sáttir um þessa afstöðu til hlutleysis. Sem dæmi má nefna fyrrum aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins; þjóðernissinnann og Sjálfstæðisflokksins enda sonur eins vinsælasta leiðtoga hans. Hann gengdi þingstörfum fyrir flokkinn í 18 ár, þar af 13 sem ráðherra. Lokanúmerið hans var í Dóms- og Kirkjumálaráðuneytinu í hrunstjórninni 2008, árið sem Paul Ramses var sendur úr landi.

Hann hefur ítrekað lýst vandlætingu sinni á hlutdrægni DV en í pistli sem hann skrifaði þann 11. febrúar gerði hann grasrótarstarf að umtalsefni og taldi sig sjá samhengi milli baráttu trotskyiasta á árum áður og No Borders samtakanna sem berjast fyrir afnámi landamæra og réttindum flóttafólks hins vegar. Þessari hugleiðingu lauk hann með því að spyrða blaðamenn DV við forustu No Borders en það er málflutningur sem hann hefur aldrei alveg látið af.

Hvaðan kemur manninum þessi firra?

JB: Ég las einu sinni ljóð á uppákomu sem No Borders stóðu að. Ég skildi það ekki þannig að með því hefði ég gengið í samtökin, hvað þá forystu þeirra. Hvernig það tengist svo kommúnistum í kalda stríðinu skil ég alls ekki. Það er auðvitað augljóst að ég hallast til vinstri í skoðunum en ólíkt Birni þá hef ég aldrei verið í stjórnmálaflokkum eða hagsmunahópum. Sem blaðamaður reyni ég bara að gefa þeim rödd sem ekki hafa hana. Ef þú getur ekki gert það án þess að vera úthrópaður sem trotskyisti eða No Borders leiðtogi þá skal ég bara vera það.

JP: Þessi skrif okkar stjórnast af mannréttindahugsjón en ekki hagsmunatengslum og eina skyldan sem við höfum við höfum er að segja alltaf satt og rétt frá. Ef við birtum bara upplýsingar sem eru sannleikanum samkvæmar þá höfum við efni á að taka afstöðu með mannréttindum og gegn valdníðingum. Ef einhverjir eru ósáttir við það er það bara þeirra vandamál.

Það er langt liðið á nóttina þegar ég þakka fyrir viðtalið og drulla mér heim, en ég get engan veginn sofnað. Ég lagði upp með varpa ljósi á það sem liggur á bak við lófastóran málmhnullunginn með nöfnunum þeirra; vinnuna, hugarfarið og ákökin sem hafa farið í að fletta ofan af stofnanarasisma íslenska ríkisins og ömurlegri stefnu þess í málefnum flóttafólks. Ég velti fyrir mér sinnuleysi samborgaranna og því hversu lengi þessi hroði fái að viðgangast.

Aðeins tíminn mun leiða það í ljós. En þangað til er það ákveðin huggun að síðastliðin 6 ár hafi DV skrásett glæpi og mannhatur útlendingastofnunnar, lögregludeilda víðs vegar um landið, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Kristínar Völundardóttur, Björns Bjarnasonar, Rögnu Árnadóttur, Ögmundar Jónassonar og svo mætti lengi telja. Þó að Íslenska ríkið ausi um þessar mundir fjármunum í verkefni eins og Íslandsstofu, sem aftur básúnar lofgjörð um það sem framvörð friðar og mannréttinda, þá er hin hliðin, ógeðfelld og mun raunsannari hægt og bítandi að rata í sögubækurnar, komandi kynslóðum til hrellingar og viðbjóðs. Og loksins loksins hefur sú skrásetning hlotið formlega viðurkenningu. 

Share to Facebook