Haukur lifði og dó fyrir betri heim. Við höldum því starfi áfram með áherslu á að stuðla að viðhorfsbreytingum í samfélaginu. Vinnustofur, borgarafundir, mennigarviðburðir og greinaskrif eru meðal þess sem hægt er að gera, að ógleymdum beinum aðgerðum. Heimildamynd um líf og hugsjónir Hauks er í deiglunni og þar gæti komið fram ýmislegt sem er til þess fallið að vekja fólk til umhugsunar.

Hugsjónastarf kostar að sjálfsögðu bæði tíma og peninga og því er nauðsynlegt að eiga verkefnasjóð. Við höfum nú hrundið af stað söfnun á Karolina fund. Markmiðið er að safna um 300.000 kr í þessum áfanga.

Hvert framlag skiptir máli og við viljum sýna þakklæti okkar öllum sem láta eitthvað af hendi rakna. Þeir sem styrkja okkur um sem svarar 7.700 ísl kr. fá senda dúkristu af galdrastafnum haukrún. Myndin er samstarfsverkefni Evu Hauksdóttur og Unu Stígsdóttur.

Rúnin er tileinkuð Hauki Hilmarssyni. Hún er til þess fallin að efla frumkvæði, hugrekki, sjálfstæði, víðsýni og sköpunarkraft. Þessa eiginleika ræktaði Haukur með sér og þetta eru líka eiginleikar sem eignaðir eru fuglinum hauki. Hjarðmennska og sjálfsvorkunn þrífast illa á stað þar sem rúnin er sýnileg og fólkið tilbúið leggur stund á sjálfsrækt.

Myndin er prentuð í 40 tölusettum eintökum. Stærðin er 39.5 x 52.5 og myndin er prentuð á 350 gr Hahnemüle pappír.  Leifur Ýmir annaðist prentun og kunnum vð honum bestu þakkir fyrir.

 

Share to Facebook