Haukur hefur líklega verið í 9. bekk þegar við horfðum á Rocky Horror Picture Show um jólin. Eftir það talaði hann alltaf um tónlistina úr myndinni sem „jólalög“.

Uppáhaldskarakterinn hans úr Rocky Horror var Riff Raff. Vinur minn einn undrast það að hann skuli hafa haft mestar mætur á gleðispillinum, þessum sem leysir upp partýið og fyrirkemur töffaranum. Hann er hissa á því að Haukur skyldi ekki vera hrifnari af Frank’n’Further sem sannarlega virðir engin mörk og er fulltrúi ofsótts minnihlutahóps, ekki sem fórnarlamb heldur sá sem gengst uppi í hlutverki sínu. En ég er ekki hissa. Ef Haukur hefði verið persóna í þessum söngleik, þá hefði hann verið Riff Raff.

Riff Raff – nafnið sjálft hefur merkingu sem augljóslega höfðaði til Hauks. „Riffraff“ er í ensku notað í skyldri merkingu og „rakkarapakk“ í íslensku. Sá sem er „riffraff“ virðir ekki viðmið og gildi samfélagsins og tilheyrir því ekki í raun, hefur enga stöðu að verja. En þótt Riff Raff sé sannarlega jaðarmaður og samþykki ekki almennar hugmyndir um siðferði er ekki þar með sagt að hann sé siðlaus eða stjórnlaus. Það er Frank’n’Further aftur á móti.

Þótt það komi hvergi beinlínis fram hvert markmið ferðarinnar til jarðar var er rökréttast að álykta að það hafi verið vísindatilraunin, sköpun Rocky. Riff Raff og Magenta lýsa velþóknun sinni þegar Frank tekst að vekja Rocky til lífsins. En Frank er ekki bara brjálaður vísindamaður og krúttlegur kynvillingur. Eins og nafnið gefur til kynna gengur hann lengra en Frankenstein. Hann skapar ekki mann bara af vísindalegum áhuga heldur er markmið hans að koma sér upp kynlífsþræl. Hann er harðstjóri. Hann er fullkomlega skeytingarlaus um annað en eigin ánægju, gengur fram með ofbeldi og festir gesti sína við gólfið svo þeir komast ekki úr sporunum. Það er Riff Raff sem tekur í taumana, því já, það er eðlismunur á kynfrelsi og kynferðisofbeldi og þegar tilefnislausu manndrápi er fylgt eftir með því að blekkja veislugesti til mannáts, þá er það „lífstíll“ sem sannarlega má telja of öfgakenndan. Auðvitað þarf að vernda samfélagið frá mönnum eins og Frank. Ekki frá kynusla, heldur frá misbeitingu valds.

Riff Raff virðir ekki gildi og viðmið samfélgasins af þeirri ástæðu að þau séu almenn viðmið. En það merkir ekki að hann hafi engn gildi sjálfur. Hollusta hans er ekki við húsbóndann heldur málstaðinn.

Share to Facebook