Útilistaverk sem ætlað er til heiðurs hernaðarsamstarfi NATO-ríkjanna og Rússlands var tjargað og fiðrað síðla laugardags, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Verkið stendur við Hagatorg, næst Hótel Sögu, þar sem það var afhjúpað árið 2002.

Skömmu eftir að Kvennablaðið hafði fyrst spurnir af aðgerðinni barst fjölmiðlum svohljóðandi tilkynning:

 

Í dag var minnisvarði um samstarf Nato og Rússlands við Hótel Sögu útbíaður í tjöru og fiðri. Hann hefur síðan 2002 smánað ásjónu borgarinnar. Hann er stöðug áminning um tilætlaða undirgefni okkar við stórveldi og hernaðarsamfélag. Þessa dagana drepur Nato-þjóðin Tyrkland, með þöglu samþykki Rússlands og Nato-þjóðanna, frelsisbyltinguna í Rojava í Sýrlandi — menn, konur og börn. Veimiltítuleg mótmæli Vesturlanda hafa holan hljóm. Þeim þykir vænna um vinskap fasistans Erdogan en um það samfélag réttlætis sem hann er að ráðast á. Þessi lydduháttur mun verða þeim og okkur til ævarandi smánunar. Minnisvarði um samstarfið sem leyfir Erdogan að níðast og drepa á ekki heima hér eða nokkursstaðar.

Nafnlausir heimildamenn blaðsins segja að allt að 20 manns hafi tekið þátt í aðgerðinni, sem fór fram á miðju torgi um hábjartan dag. Enginn vegfarandi hafi borið fram mótbárur, né hafi lögregla haft afskipti af málinu. Aðgerðin var að sögn heimildamannanna bæði skemmtileg og falleg.

Boðað var til mótmæla víða um heim þennan laugardag, 24. mars, gegn innrás Tyrklands í Afrin og hernaðinum sem tyrknesk yfirvöld hyggjast halda áfram í öðrum hlutum Rojava, sjálfstjórnarsvæðis Kúrda í Norður-Sýrlandi. Mótmælin fóru fram undir yfirskriftinni Global Action Day for Afrin.

Share to Facebook