Helgi Hrafn Gunnarsson

Rétt hjá Frosta Logasyni. Sérstaklega er aumt þegar fólk sem er reiðubúið til þess að hætta og jafnvel fórna lífi sínu til þess að bæta heiminn fær illa upplýstar pillur fyrir að bera vopn á stríðssvæði.

Það var rétt af vesturlöndum að steypa nasistum af stóli á sínum tíma. Það var engan frið að hafa og það er engan frið að hafa við Ríki Íslams. Það er ekki nein málamiðlun í boði og engin sáttahönd til að taka í. Haukur Hilmarsson valdi rétta málstaðinn í Sýrlandi gegn ranga málstaðnum og fyrir þetta val fórnaði hann lífi sínu.

Vonandi verður fórn hans til þess að Íslendingar kynni sér hin flóknu átök í Sýrlandi. Þótt átökin séu flókin, þá er ekkert erfitt að velja rétta málstaðinn, en það er sjálfstæðisbarátta frjálslyndra, jafnréttis-
og lýðræðissinnaðra Kúrda gegn herdeildum myrkursins í Ríki Íslams og hrottunum á vegum Erdogans Tyrklandsforseta.

Það er líka ekkert mál að vera rosalega mikið á móti byssum og hernaði þegar maður er herlaus þjóð úti í hafsauga umkringd annars vegar af einu stykki Atlantshafi og handan þess af vinaþjóðum sem senda börn sín (aðallega syni) út í nær vísan dauðann til að gera okkur kleift að njóta þeirra forréttinda að vera frjáls og jú, herlaus. Að sitja hérna í örygginu á Íslandi og gagnrýna fólk sem fórnar lífi sínu til að frelsa annað fólk, eins og vinaþjóðir okkar gerðu fyrir okkur á sínum tíma, er algjörlega aumkunnarvert.

Haukur Hilmarsson var hetja.

Votta aðstandendum sem þekktu þennn ótrúlega mann innilegar samúðarkveðjur.

Að lokum vitna ég beint í innlegg Frosta Logasonar:

„Það er ekkert að því að segja upphátt eins og er. Haukur Hilmarsson var hetja. Í guðanna bænum farðu ekki að upphefja sjálfan þig á friðarsinnaspilinu í þessu samhengi. Öll kjósum við friðinn. Þau eru hinsvegar færri okkar sem eru tilbúin að láta lífið fyrir hann, eins og Haukur.“ –Frosti Logason

Share to Facebook