Ásgeir Ásgeirsson tók myndina

Einhverju sinni sótti Haukur um atvinnuleysisbætur. Hann hafði sagt upp vinnu og var krafinn um skýringar. Þetta greinargóða bréf er alveg í hans anda. Ef hann á annað borð taldi kröfu um skýringar réttmætar gekk hann alla leið.

Kæra Greiðslustofa

Þið óskuðuð eftir skriflegri yfirlýsingu um ástæður þess að ég sagði upp hjá xxx. Ég mun hér verða við þeirri beiðni en brýni fyrir ykkur að virða trúnaðarskyldu þar sem samskipti mín við fyrrum vinnuveitendur eru bæði persónuleg og viðkvæm.

Ég ber blendnar tilfinningar til xxx. Þarna lærði ég meira en á flestum öðrum vinnustöðum og eignaðist trausta og góða félaga sem gátu borið með mér stressið og ábyrgðina af löngum og annasömum vöktum. Ég lærði skipulögð og hröð vinnubrögð og eftir einn mánuð gat ég unnið nær óaðfinnanlega undir miklu álagi. Allt á ég þetta að þakka kokkunum sem þjálfuðu mig en jafnframt eigendum staðarins sem veittu mér uppörvun og sýndu mér traust og vinsemd.

Engu að síður voru skuggahliðar starfsins margar og ljótar. Það fyrsta sem ég varð var við var bagalegt, jafnvel hættulegt vinnuumhverfi. Allur tækjakostur var að niðurlotum kominn þegar ég hóf störf og átti bara eftir að versna. Hálf grillpannan var rafmagnslaus allan tímann sem ég vann þar. Yfirgrillið bilaði, fyrst öðru megin svo hinu megin svo okkur var ómögulegt að bera fram lasagna rétt lagað en þurftum samt að finna leiðir til þess að gera það. Örbylgjuofninn hætti að virka. Ljósið í pizzuofninum dó, sömuleiðis öll lýsing á pizzastöðinni. Hrærivélin gaf sig og var ekki löguð svo mánuðum skipti, engu að síður var okkur gert að baka brauð og hræra pizzadeig daglega sem þýddi að við þurftum að leita til nærstaddra fyrirtækja um tækjabúnað og ferja kanski 12 kíló af hráu pizzadeigi í fanginu. Lýsingin í starfsmannaherberginu gaf sig og var ekki löguð þannig að við þurftum að skipta um föt í myrkri. Teppið í stiganum þangað losnaði af og var ekki lagað þannig að ég var nokkrum sinnum við það að hrasa í stiganum. Starfsmannaklósettið var gert að geymslu, þannig að við þurftum að fara inn á gistiheimili til þess að skíta. Loftræstingin var lítil og hitinn mikill. Töfrasprotinn var svo illa á sig kominn að til þess að hakka sósur þurfti að halda honum saman með fingrunum á meðan hann var í gangi, sem er bæði erfitt og hættulegt, um leið og hann var settur í samband fór hann á fullt þar sem „on“ takkinn var fastur inni. Hitamælirinn hékk saman á límbandinu einu saman og allur gangur á því hvort hann virkaði. Blandararnir biluðu og voru ekki lagaðir. Um margra mánaða skeið var ekki einu sinni dósaopnarinn í lagi. Kæliskáparnir ofhitnuðu og frystirinn sömuleiðis. Festingarnar í kæliskápunum brotnuðu og ég þurfti að búa til nýjar úr beygluðum teskeiðum. Þær festingar hafa nú verið látnar duga í meira en ár. Allt geymslupláss var af svo skornum skamti að þegar stór tilefni, svo sem menningarnótt og 17. júní, lágu fyrir var hráefni geymt uppi á þaki. Pípulagnirnar voru lélegar og gátu tekið upp á því að leka. Um tíma var kraninn á handlauginni í eldhúsinu óvirkur svo maður varð að þvo sér í eldhúsvöskunum. Lalladallar voru af skornum skamti. Þeir sem ekki áttu eigin hnífa þurftu að deila einum bitlausum eldhúshníf. Vinnugallar voru fáir og stundum vann maður í óhreina tauinu af vinum sínum frá því deginum áður. Allt sem gat bilað bilaði og allt sem gat vantað vantaði. Það eina sem aldrei hefur hætt að virka er ofninn í eldhúsinu en glerið í honum í ónýtt og engin lýsing inni í honum. Ekkert var lagað án þess að maður hefði rexað í eigendunum um að mánuðum saman og vinnuálagið og slysahættan jukust á sama tíma og starfsandinn koðnaði smám saman niður.

Þetta er engan veginn tæmandi upptalning á annmörkum á vinnuaðstöðu en hún er þó algerir smámunir í samanburði við óstjórnina í rekstri fyrirtækisins. Á þeim tíma sem ég vann þarna sá ég nokkra frábæra og þaulreynda starfsmenn flosna úr starfi vegna óvissu um framtíð fyrirtækisins og óánægju með stjórn þess. Engum sem vinnur þarna svo nokkru nemi dylst að reksturinn er leikinn af fingrum fram frá degi til dags, geðþóttaákvarðanir eru algengar og fjármálin í ólestri. Starfsfólki hefur verið sagt upp störfum án útskýringa og frábært sumarstarfsfólk ekki ráðið aftur þrátt fyrir að allir hefðu búist við því. Launamál eru oft í ólestri og einföldustu atriði eins og að fá launaseðla geta tekið marga mánuði af stappi við eigendur fyrirtækisins sem benda þá jafnan hvort á annað og þykjast engu geta svarað. Á sama tíma er stanslaust hringl í gangi með peninga innan fyrirtækisins og annar eigandinn gekk einu sinni svo langt að slá lán úr söfnunarbauk starfsfólksins án þess að spyrja kóng né prest. Oft er ekki hægt (vegna skulda) að panta vörur frá byrgjum sem koma þeim til skila heldur þurfa starfsmenn að fara frá vinnu og skreppa í Bónus eftir mat, hvort sem það eru sjaldgæf krydd eða kartöflur sem vantar. Skipulagsleysi og stefnuleysi, mér leyfist jafnvel að segja hausleysi, eigenda olli því að stanslaus kvittur var uppi um bága stöðu fyrirtækisins og þegar ég hafði verið þar um nokkurra mánaða skeið kom upp grunur um að jafnvel væri misbrestur á því að laun væru greidd út að fullu. Þessar grunsemdir voru að lokum staðfestar þegar ég og annar starfsmaður leituðum til verkalýðsfélagsins og komumst að því að félagsgjald okkar og lífeyrissjóðsgjöld höfðu ekki verið greidd svo mánuðum skipti. Það var þá sem ég tók endanlega ákvörðun um að segja upp. Ég hef heyrt af því eftir að ég hætti að yngri starfsmenn hafi stundum ekki fengið útborgað og eigi jafnvel inni heilu mánuðina hjá fyrirtækinu og sjálfur hef ég enn ekki fengið greitt orlof.

Allt er þetta ömurlegt út af fyrir sig en verra í ljósi þess að annar eigandinn vann með okkur á staðnum, ýmist sem kokkur eða þjónn. Ef eitthvað er að þarf að leita til hans og það er hann sem tekur ákvarðanir um það hvort við höldum starfi eða ekki. Þótt ég sé í aðra röndina reiður yfir framkomunni við starfsfólkið, og yfir því að hafa ekki enn fengið greitt orlof hef ég engu að síður ákveðna samúð með eigendunum sem hafa að mörgu leyti reynst mér vel. Það er erfitt að standa í stanslausu stappi við manninn sem vinnur við hliðina á manni á erfiðu kvöldi og að lokum sagði ég upp, að hluta til vegna aðstöðunnar, að hluta til vegna þess að ég var farinn að óttast um að vera svikinn enn frekar um laun og aðrar greiðslur, en líka vegna álagsins af því að þurfa að rukka þær af manni sem ég hef ákveðna samúð með og ber hlýjar tilfinningar til.

Eins og sagði í upphafi ber ég blendnar tilfinningar til xxx. Það fylgdu því blendnar tilfinningar að vinna þar og líka við að hætta þar því þrátt fyrir allt eignaðist ég þar góða vini, skemmti mér vel við vinnu mína og leið að mörgu leyti vel á staðnum.

Staðreyndin er sú að hefðu launamál, öryggismál og aðstaða verið í lagi hefði ég ekki sagt upp á þessum stað sem hafði kennt mér meira og skemmt mér betur en flestir aðrir staðir sem ég hef unnið á. Það var ekki auðveld ákvörðun, en ég tel að hún hafi verið rétt. Sumt á maður einfaldlega ekki að láta bjóða sér upp á.

Share to Facebook