X

Spennufall

Kom heim úr stríðinu þreytt en sæl. Bjóst einhvernveginn við að almenningur áttaði sig á hvað hefði gerst. Reiknaði með sigurvímu og þjóðhátíð fram eftir nóttu. Ekki alveg. Þjóðin virðist hafa litið svo á nú væri ákveðnu verkefni lokið, fremur en að sigur hafi unnist. Fólkið fór bara heim og eldaði kjötfars.

Ég ætlaði á húrrandi fyllirí en á öðrum bjór kom flensan (ég hef bara ekki haft neinn tíma til að vera veik) í hausinn á mér og ég skrönglaðist í bælið. Vaknaði miður mín og hef verið gráti næst í allan morgun. Spennufall heitir það víst.

Nú getur maður fylgst með ógeðfelldu valdataflinu og hrossakaupunum næstu daga. Helvítið hann Steingrímur strax búinn að bakka með að skila IMF láninu. Ég fyllist vonleysi við hverja nýja frétt eða ekki frétt. Ég treysti Jóhönnu og Steingrími betur en Geir og Sollu en vald spillir, alltaf, svo þetta er ekki nóg. Kannski er samt von. Nú er þjóðin búin að átta sig á því að hún hefur eitthvað að segja og ef þau gera ekki róttækar stjórnkerfisbreytingar þá skiptum við úr búsáhöldum yfir í vinnuvélar. Fyllum göturnar af dráttarvélum og öðrum hægfara landbúnaðartækjum. Förum með jarðýtur og skítadreifara að stjórnarráðinu.

Mig langar að verða ógeðslega rík. Eiga milljón skrilljónir Ekki af því að ég hafi dýrar þarfir heldur af því að auðævi bjóða upp á frelsi og öryggi. Eða svo er manni sagt. En þegar upp er staðið felst sennilega meira öryggi í samhjálp en sjóðum og ég hef hvort sem er ekki verið að gera neitt annað en það sem mér bara sýnist. Auk þess er hæpið að eignast milljón skrilljónir nema með því að níðast á einhverjum öðrum og það er ekki fallegt.

Anarkí er málið og í svona litlu samfélagi ætti að vera hægt að koma því á, á bara nokkrum árum. Þegar maður nefnir anarkí setur fólk ýmist hljótt, og maður sér á svip þess að það heldur að nú sé maður endanlega búinn að tapa glórunni, eða þá að setur upp skilningríkt bros og hefst svo handa við að útskýra hversvegna maður sé vitleysingur.

Óþarft er að taka fram að þessi viðbrögð byggjast á fáfræði og algeru skilningsleysi á því hvað stjórnvaldsleysi er og auðvitað þeirri ranghugmynd að það sé alls ekki hægt að reka samfélag án yfirvalds. En það er bara víst hægt. Ég var einu sinni í trúfélagi sem byggist á anarkísku stjórnskipulagi. Það virkaði þrælvel. Helsti gallinn var sá að Gvuð var einlægt að þvælast fyrir þeim. Eins og lögga. Óþolandi. Þegar drengirnir mínir voru litlir voru þeir í Waldorfleikskólanum. Þar ríkir líka anarkí og þótt það geti verið þungt í vöfum, fullyrði ég að almenn ánægja starfsfólks, barna og foreldra og ábyrgð gagnvart stofnuninni og starfinu sem fer þar fram er margfalt meiri en í þessu almenna skólakerfi. Ef beint lýðræði gengur upp í litlum samfélögum, því skyldi það ekki ganga upp í stærri samfélögum? Þegar allt kemur til alls er anarkí áberandi í öllu félagsstarfi á Íslandi. Það er eingöngu yfirstjórn landsins sem treystir hinum almenna borgara hvorki fyrir ákvörðunum né upplýsingum.

Eva Hauksdóttir:

View Comments (1)

  • -----------------------------------
    Ertu aldrei ánægð:) Fyrsti samkynhneigði íslenski kvenforsætisráðherran og það er bara ekki nógu gott:) Og svo Mr.Niet í Fjármálaráðuneytið lika. Maður hefði haldið að þú værir í skýjunum :)

    En veistu, annað, hvar getur maður lesið sér til um þessar merkilegu stjórnmálastefnu. Eins og þú lýsir þessu þá er þetta eins og sambland af Dýrunum í Hálsaskógi og Animal Farm :) Er til einhver góð vefslóð sem þú gætir bent mér á ?

    Posted by: Guðjón Viðar | 27.01.2009 | 22:28:19

    -----------------------------------

    Á meðan spilling og valdníðsla er innbyggð í stjórnkerfið verð ég ekki ánægð.

    Fyrir þá sem ekki hafa heyrt um galdratólið google:

    http://flag.blackened.net/revolt/anarchism/

    http://en.wikipedia.org/wiki/Anarchism

    http://www.spartacus.schoolnet.co.uk/USAanarchist.htm

    Og hér er málgagn öfgasinnaðra anarkista á Íslandi, einkar holl lesning fyrir Sjálfstæðismenn í bata http://aftaka.org/index.php

    Posted by: Eva | 28.01.2009 | 1:36:06

    -----------------------------------

    Ég las í gegnum þetta efni á Wikipedia og hef þá impression að anarkismi sé ekki ein stjórnmálastefna heldur margar stjórnmálastefnur sem virðast í besta falli vera fjarskyldar i markmiðum sínum. Hver þau markmið væru var lika frekar óljóst sem ég er hreinlega engu nær. Hvernig væri ef þú mundir hjálpa mér, sjálfstæðismanninum í afturbata og lýsa þvi hvernig draumalandið Ísland liti út frá þínum bæjardyrum séð ?:)

    Posted by: Guðjón Viðar | 28.01.2009 | 11:40:39

    -----------------------------------

    Það eru til margar stefnur innan anarkismans rétt eins það er ekkert bara einhver ein jafnaðarstefna.

    Það sem sameinar alla anarkista er andúð á því fyrirkomulagi að lítill hópur manna geti stjórnað örlögum allra hinna. Sjálfri finnst mér eins og harður hægri anarkismi geti ekki almennilega gengið upp þar sem auðsöfnun felur alltaf í sér vald.

    Mitt draumasamfélag er ósköp mikið í líkingu við Kardimommubæinn. Ríkið á að halda uppi góðu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi en að öðru leyti að hafa sem minnst afskipti af fólki, fjölmiðlum og fyrirtækjum. Ríkið á ekki að styðja við stórfyrirtæki á nokkurn hátt, ekki heldur með lagasetningu og öll viðskipti eiga að vera gegnsæ.

    Allar stjórneiningar og stofnanir eiga að einkennast af virkri þátttöku almennings og ef einhver sem gegnir ábyrgðarstöðu klúðrar, þá á að vera hægt að losna við hann í hvelli og engir tugmilljóna starfslokasamningar takk.

    Lögreglan á að vera þjónustustofnun en ekki illa hugsandi valdbeitingarhundar með nokkra harðstjóra yfir sér.

    Flokkakerfi á að leggja niður. Litlar stjórneiningar velja fulltrúa til að sitja í stærri stjórneiningum. Slík störf eiga ekki að vera hálaunastörf og ekki að hafa völd í för með sér, það á að vera hægt að skipta um fulltrúa hvenær sem er. Kosningabarátta verður aflögð, þetta eru hvort sem er ekki valdastöður svo fólk er valið út á færni sína en ekki það hve miklum pening það getur eytt í ímyndarherferð og áróður.

Related Post