X

Rómantík

-Þú ert fyrsta konan sem ég kynnist sem leggur ekkert upp úr rómantík, sagði hann. Ég fann að ég varð skrýtin á svipinn.
-Hvers vegna heldurðu að ég leggi ekkert upp úr rómantík, sagði ég eftir stutta þögn, kannski eilítið kuldalega og nú var það hann sem varð skrýtinn á svipinn.
-Ja, ég hef aldrei gert neitt fyrir þig sem getur talist rómantískt.

-Semsagt, af því að þú hefur aldrei gert neitt rómantískt fyrir mig, þá liggur í hlutarins eðli að ég þurfi ekkert á því að halda?
-Þetta átti náttúrulega ekki að hljóma alveg svona heimskulega. Ég á við að þú hefur aldrei sýnt merki um annað en að þú sért fullkomlega sátt.
-Ég hef þann óvenjulega hæfileika að geta verið aðeins minna en fullkomlega sátt án þess að hegða mér eins og fáviti.
-Þú ert semsagt ósátt?
-Nei, kjáninn þinn, ég er ekkert ósátt. Hugmynd mín um fullkomna veröld smellur kannski ekki alveg saman við raunveruleikann en maður fær ekki allt sem manni dettur í hug. Ekki allt í einu allavega. Á meðan maður fær nógu mikið af því sem skiptir mann mestu er allt í lagi.
-Færðu þá það sem skiptir þig mestu?
-Já.
-Hvað skiptir þig mestu?
-Ég er ekki nógu vitlaus til að segja þér það elskan.

-Þú ert erfið Eva.
-Já, það hlýtur að vera erfitt að sofa hjá konu sem gerir engar kröfur.
-Stundum. Satt að segja er það dálítið eins og byrja í nýrri vinnu og eiga bara að finna sjálfur út hvernig maður kemur best að gagni.
-Ég myndi sennilega horfa í kringum mig og reyna að finna út hvað allir hinir væru að gera.
-Það er svosem rökrétt en ég held að það sem virkar á aðrar konur leggðist ekkert endilega vel í þig. Ekki það að ég hafi efni á demöntum en þú hefur sjálf sagt að þeir myndu ekki heilla þig. Ekki ætla ég að bjóða þér upp á einhverjar blóm og konfekt klisjur eða láta þig æla yfir lítinn fjólubláan bangsa með hjarta. Ég er ekki haldinn nógu mikilli sjálfspíslarhvöt til að fara með þér í leikhús og þegar ég vildi bjóða þér út að borða valdirðu Sægreifann. Í alvöru talað Sægreifann. Hvað varstu að pæla. Allar venjulegar konur hefðu viljað fara á Sögu eða í Perluna.
Ég horfði á hann agndofa.
-Þú hringdir kl. rúmlega 6 og sagðir „ertu til í að borða með mér, þú ræður hvert við förum“, hvernig átti mér að detta í hug að Hótel Saga væri inni í myndinni?
-Nú það fæst matur þar.

Eftir á velti ég því fyrir mér hvort það sé bara þetta sem hindrar hinn dæmigerða íslenska lúða í því að gera þessa litlu hluti sem fá konu til að trúa því að hún skipti hann máli.
Eru menn almennt svona þjakaðir af frumleikakomplexum?

Æ þið guðjónar. Blóm-og-súkkulaðitrixið er vissulega margnotað. Það er vegna þess að það virkar rómantískt á konur. Alveg eins og munngælur virka erótískt á karla. Hvernig þætti ykkur að vera með konu sem byði aldrei upp á hefðbundið kynlíf af því að hún héldi að það þyrfti ekkert minna en grísagrímu og remúlaði til að gleðja svona spes og kinkí náunga eins og þú ert?

 

Eva Hauksdóttir:

View Comments (1)

  • ---------------------------------------

    Vér Guðjónar mótmælum allir :) Vor heimsmynd er best sett fram í þessum texta frá Baggalútsmönnum :

    "Þú ert mér sem lyftiduft í lífsins deig.
    Lostafull sem fagurmótuð sending inní teig.
    "
    Rómantík er okkur í blóð borin og ekki síður þegar tengjast saman matargerð og fótbolti :)

    Posted by: Guðjón Viðar | 11.06.2007 | 17:24:30

    ---------------------------------------

    Þarna var mér aldeilis skemmt! :)

    Posted by: Unnur María | 14.06.2007 | 13:27:00

Related Post