X

Um duttlungafulla órökvísi sálarinnar

Sumir álíta að allar órökréttar tilfinningar eigi sér uppruna í einhverri reynslu og jafnvel reynslu sem maður man ekkert eftir. Ég held að þetta sé bull. Ég get nefnt amk eitt svona dæmi úr lífi mínu sem er nánast útilokað að skýra með öðru en duttlungum sálarinnar.

Ég þoli ekki lyktina af rotnandi ávöxtum. Í hvert sinn sem ég finn þessa sérkennilegu dísætu lykt fyllist ég óskiljanlegum kvíða, kúgast og fæ munnþurrk. Verð eiginlega bara miður mín. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma brugðist svona við ávaxta- eða rotnunarþef sem barn og ég er almennt hrifin af sætum ávöxtum. Ég man vel þegar ég varð fyrst fyrir þessari undarlegu upplifun. Það var í fyrsta sinn sem ég bragðaði mangó. Bæði bragðið og þó sérstaklega lyktin vöktu mér óskýranlegan viðbjóð sem síðan hefur einhvernveginn yfirfærst á þefinn af öðrum ávöxtum og þó aðeins skemmdum ávöxtum. Þetta mangó var alls ekkert farið að skemmast.

Út frá kenningum sálgreiningarinnar er rökrétt að álykta að ég hafi orðið fyrir einhverju hræðilegu sem tengdist rotnandi mangóávexti þegar ég var lítil. Það er rökrétt en getur samt ekki staðist. Mangó sást ekki á Íslandi fyrr en ég var orðin fullorðin og ég fór aldrei til útlanda sem barn.

Einhver myndi sjálfsagt segja að áfallið gæti tengst öðrum ávöxtum en mangóið hafi einhvernveginn dregið minninguna upp að yfirborði vitundarinnar. Það stenst samt varla því ef ég hefði slæma reynslu af skemmdum banana, ferskju eða öðrum ávöxtum, hefði lyktin af þeim angrað mig áður en ég kynntist þeim ógeðslega ávexti sem kallast mangó.

Ég held að þetta séu bara duttlungar í sálinni minni og ekkert dularfyllra en það. Tilfinningar eru nefnilega ekkert sérstaklega gáfaðar og kannski er ekkert nauðsynlegt að allt sé í heiminum rökrétt. Ég held að sálin sé karlkyns. Duttlungafull, haldin athyglissýki og svolítið heimsk.

Eva Hauksdóttir:
Related Post