Akranes

Þegar við komum að Grímsstöðum á mánudagskvöld, uppgötvaði ég að ég hafði týnt símanum mínum. Sem betur fer var þetta ekki óbætanlegur snjallsími heldur gamli nokiasíminn sem ég fékk þegar Hulla yngdi upp. Ég reiknaði ekki með að finna hann aftur en við stoppuðum við Borgarnes þar sem við höfðum borðað nesti á mánudeginum því þar mundi ég síðast eftir honum. Og haldiði að hann hafi ekki bara legið þar í grasinu. Sem betur fer hafði ekkert rignt og síminn er í fínu lagi.

Akranes

Það var fallegt veður þennan dag en dálítil gola, ekkert til að kvarta yfir en við þurftum yfirhafnir. Við komum við á Akranesi og það reyndist nógu áhugavert til þess að við stoppuðum þar lengur en ég hafði reiknað með þrátt fyrir að ekki væri sólbaðsveður og náttúrufegurðin ekkert eins og í Borgarnesi.

Þessi gamli bátur heitir Höfrungur og stendur við slippinn á Akranesi

 

Við skoðuðum styttuna af sjómanninum. Ég held því fram að hún sýni einn þeirra sem dóu ekki á kútter Haraldi. Hvað ætli hafi annars orðið af honum? Við skoðuðum ekki kútter Sigurfara, hann er víst í skralli og bannað að fara um borð í hann en hér er allavega lagið um hann og textinn.

Þótt ég sestur nú, sé í helgan stein
og minn stakk ég hafi hengt á snaga,
ennþá man ég glöggt, árin sem ég var
á kútter Sigurfara, forðum daga.

Úrvals kappasveit á því skipi var
karlar þessir kunnu fisk að draga.
Enginn skóli bauðst ungum manni betri en
kútter Sigurfari, forðum daga.

Þessi kappasveit, þetta frækna lið
kunni líka voðum vel að haga.
Sigldi skipa hæst, silgdi skipa glæstast
kútter Sigurfari, forðum daga.

Lagst var miðin á landið allt um king
undir Jökli, útaf Gerpi og Skaga.
Oft þá dreginn var afli býsna vænn
á kútter Sigurfara forðum daga.

Gegnum veðrafár, gegnum manndrápssjó
alltaf slapp hann, það var segin saga.
Ekkert vissu menn annað eins happaskip
og kútter Sigurfara, forðum daga.

Dátt var hlegið oft, dátt var sungið oft,
mörg var líka kveðin kátleg baga,
þegar haldið var heim úr góðri ferð
á kútter Sigurfara forðum daga.

Þótt ég sestur nú sé í helgan stein
og minn stakk ég hafi hengt á snaga,
ennþá man ég glöggt árin sem ég var
á kútter Sigurfara forðum daga.

 

 

Ég hafði vonað að hægt væri að fara upp í gamla vitann og horfa yfir en þegar til kom var ekki aðeins hægt að fara upp heldur voru einnig nokkrar myndlistasýningar í gangi og lítil stelpa að spila á þverflautu.

Hér er flautuleikarinn

Hér má sjá útsýnið úr vitanum

Ég held að Hulla sé að reyna að sleikja sólina

Áttavitinn, Veðurguðinn og Sagnaþulurinn sitja í skjóli við gamla vitann á Akranesi. Þetta skot heitir hér eftir Hulluskjól enda galdraðri Hulla gott veður á þennan blett.

 

Þessi skemmtilegu smátröll hittum við fyrir utan vitann. Líklega búa þau þar.

Borghildur ætlaði að ná mynd af vitanum öllum og lagðist því niður

Og tókst bara ágætlega upp

 

    Fjölmenningin blómstrar við Gamla vitann

 

Um kaffileytið bauð pabbi upp á kaffi og köku á einkar heimilislegu kaffihúsi þar sem við sátum í sófa frá 8. áratugnum og fengum kaffið okkar úr bollum frá þeim tíma líka. Það þótti okkur einkar viðeigandi í svona fjölskylduferð. Fengum þessar líka fínu terur og Hulla fékk kleinu til viðbótar því hún er að stækka.

Borghildur undi sér svo dálitla stund í barnahorninu þar sem hún fann þessa bráðskemmtilegu rólu.

Hér má sjá meira af Borghildi á kaffihúsi.

 

Pabbi gæðir sér á rauðri flauelsköku

Hér er hægt að sjá meira um það hvað þetta var rosalega góður drekkutími

Hulla var búin að lýsa Akranesi eins og baðströnd. Hvítur sandur og sturta fyrir þá sem vilja synda í sjónum. Ég taldi víst að hún hefði ruglast í hitabeltum en það eru reyndar salerni og sturta þarna. Ætli Skagamenn séu komnir af selum?

 

Hvaðan skyldi Hulla hafa þessan hörundslit?

Deila

admin:
Related Post