Sko er gott orð. Það felur í sér tilraun til útskýringar, beiðni um að viðmælandinn horfi út frá ákveðnu sjónarmiði. Ekki bara að hann horfi og sjái það sama og maður sjálfur heldur að hann sko-ði málið.

Ég var að senda grein í Fréttablaðið, grein sem varðar skoðun mína á meðferð opinberra upplýsinga. Skoðun í tvennum skilningi, annars vegar athugun mína á ákveðnu máli og hinsvegar álit mitt á því. Ég fékk tölvupóst til baka og var spurð um starfsheiti.

Það er ekki að ástæðulausu sem börn eru spurð hvað þau ætli að verða þegar þau orðin stór, fremur en hvað þau ætli að vinna við. Maðurinn er ekki metinn og skilgreindur út frá persónuleika sínum, hugmyndum og ánægjustundum, heldur út frá lifibrauði sínu. Nú er ég í þeirri stöðu að hafa ekkert starfsheiti. Ég er heldur ekki atvinnulaus þar sem ég er ekkert að leita mér að vinnu, og ekki einu sinni bótaþegi. Þegar Fréttablaðið krafði mig um starfsheiti svaraði ég því fyrst að ég gerði það sem mér bara sýndist. Sem er satt. Það þótti ekki fullnægjandi, ég yrði að titla mig einhvernveginn, var mér sagt.

Ég gæti svosem titlað mig norn eða skáld en þar sem ég hef engar tekjur af galdrakúnstum eða skáldskap (maðurinn er það sem hann þénar) og efni greinarinnar kemur hvorugu við, þætti mér það hallærislegt. „Húsmóðir“ á tveggja manna heimili með öllum nútímaþægindum væri beinlínis hlægilegt. Húsmæður taka slátur og sauma barnaföt en ég sef til 11 á morgnana og þá lagar Eynar handa mér  latte og skreytir það með hjarta (sem verður reyndar stundum eins og eyra í laginu.) Prinsessa væri því nær lagi en mér skilst að það sé lögverndað starfsheiti. „Lífsförunautur fyrirvinnu minnar“ er mest lýsandi fyrir veraldlega afkomu mína (sem mér skilst að þetta snúist allt um) en hættan er sú að einhvern renni þá í grun að ég sofi hjá Eynari, sem yrði þá ákærður fyrir vændiskaup í framhaldinu, svo ég ætla að geyma þann möguleika þar til ég verð í skapi til að skrifa farsa.

Staða mín í dag er sú að ég geri nákvæmlega það sem mér bara sýnist, sem er að miklu leyti það að skoða samfélag mitt og þá umræðu sem er áberandi hverju sinni,  skrifa um þær skoðanir sem ég mynda mér út frá þeirri samfélagsskoðun og reyna að hafa áhrif á skoðanir annarra. Ég vil samt ekki vera „samfélagsrýnir“ því ég tengi það ýmsum sjálffræðingum sem hafa verið áberandi í íslenskri kranablaðamennsku og ég hef engan áhuga á að fylla þeirra flokk.

Ég sagði Fréttablaðinu að ég væri „álitshafi“. Ekki álitsgjafi, enda er ég sjaldan spurð álits á nokkrum hlut, og þótt ég vilji segja álit mitt, vil ég ekki gefa það með skeið. Ég vil ræða rökin og ég vil helst að sem flestir komist að sömu niðurstöðu (allavega þar til ég er búin að skipta um skoðun) en ég vil að þeir komist að sömu niðurstöðu með því að sko-ða bæði það sem ég hef að segja og ýmislegt annað líka en ekki með því að kyngja því hráu.

Eynar stakk upp á orðinu skoðari. Það er ágætt orð og lýsandi. Ég er alvarlega að hugsa um að taka það upp sem ruðu til að fleygja í titlatogssamfélagið.

Deila færslunni

Eva Hauksdóttir

Share
Published by
Eva Hauksdóttir

Recent Posts

320 dögum síðar

Benjamin Julian tók myndina Sennilega hefur mér aldrei orðið minna úr verki en árið 2018.…

54 ár ago

Góðra vina fundur

Mér finnst þessi mynd svo táknræn. Katrín Jakobsdóttir í snertifæri við bæði Theresu May og Erdoğan.…

54 ár ago

Fjórum mánuðum síðar

Í dag er ársfjórðungur síðan fréttist að bandamenn okkar í Nató hefðu drepið Hauk í…

54 ár ago

My Reply to Turks’ Hatemail

Dear Erdoğan worshippers who have been sending me hate mail Do you really think that…

54 ár ago

Svar mitt við haturspóstum Tyrkja

Originally published in English Kæru Erdoğandýrkendur sem hafið sent mér haturspósta Haldið þið virkilega að…

54 ár ago

Yfirlýsing vegna fánabrennu

Kallað hefur verið eftir skýringum á því tiltæki að brenna tyrkneska fánann framan við Utanríkisráðuneytið…

54 ár ago