Í dag eru liðin 3 ár síðan ég varð að leggja bílnum mínum vegna þess að ég sá ekki út úr augunum fyrir tárum. Þá hafði komið frétt í útvarpinu að Íslendingur væri talinn af eftir sprengjuregn Tyrkja í Sýrlandi. Sá Íslendingur var vinur minn, Haukur Hilmarsson. Við kynntumst árið 1995 þegar hann flutti ásamt mömmu sinni og bróður, í Fellabæ þar sem mamma hans kenndi mér ekki aðeins síðasta spölinn í grunnskólanáminu heldur einnig á lífið og gleðina sem þar er að finna en ég hafði týnt gleðinni það árið.
Ég passaði strákana nokkuð reglulega og þótti strax mjög vænt um þá báða. Þeir voru gjörólíkir en báðir frábærir á sinn hátt. Darri var alltaf skoppandi út um alla veggi og var vel virkur en Haukur var öllu rólegri og pældi óvenju mikið í alls konar hlutum sem aðrir 9 ára krakkar spáðu ekkert í. Eftir nokkur ár flutti þessi skemmtilega fjölskylda suður en ég hélt alltaf sambandi og heimsótti þegar ég átti leið suður.
Ég fylgdist með honum með aðdáun þegar hann mótmælti Kárahnjúkavirkjun og mun alltaf sjá eftir að hafa ekki slegist í hópinn með honum þar. Ég horfði reyndar til hans með aðdáun allan þann tíma sem ég þekkti hann því hann var maður sem þorði að standa 100% við hugsjón sína, annað en ég sem oftast nær bakka þegar reynir á kjaftaganginn í mér, nenni ekki að taka slaginn. Haukur var líka óskaplega skemmtilegur strákur, fyndinn, stríðinn en hlýr og innilega góður.
Árið 2019 samdi ég ljóðið Hvar er Haukur? en þar fer ég yfir lífshlaup hans og baráttumál, hugsjónir hans en skít einnig á yfirvöld, svona í stíl við Hauk. Nýleg frétt af gleymsku þjóðaröryggisráðs Íslands við gerð skýrslu um Sýrland þar sem kom fram að enginn Íslendingur hafi barist gegn hryðjuverkasamtökum ISIS í Sýrlandi, sýnir enn og aftur að yfirvöldum er nákvæmlega sama um afdrif Hauks sem á miklu frekar skilið styttu af sér ofan á Alþingishúsinu en svona framkomu. Hann hefði nú samt ekki viljað svoleiðis bull. Hér er hlekkur á ljóðið.