Þessa grein Hauks birti anarkistavefritið Aftaka í kjölfar fánaaðgerðarinnar 17. júní

Forsagan

Jørgen Jørgensen eða Jörundur Hundadagakonungur eins og hann er nú oftast kallaður hér á landi, fæddist þann 29. mars 1770 í Kaupmannahöfn sem þá var höfuðborg danska heimsveldisins. Hann lærði sjómennsku á unga aldri og lagðist í ferðalög með breska hernum, m.a. til S-Afríku og Tasmaníu í Ástralíu. Á viðburðaríkri ævi sinni átti hann stormasöm samskipti við breska ríkið sem ýmist réð hann til trúnaðarstarfa eða sendi í fangavist, og þá jafnan til Ástralíu.

Hann var mikill djammari og uppreisnarseggur, en líka fjölfróður greinahöfundur, ferðamaður og ólíkindatól. Það ber að taka fram áður en lengra er haldið að hér verður hann ekki lofsunginn meir en efni standa til því 51 árs að aldri tók hann þátt í “Black Line” þjóðernishreinsuninni í Tasmaníu. Það sem hér verður fjallað um er hins vegar aðkoma hans að Íslandssögunni þ.e. þáttaka hans í uppreisn sem stundum er kölluð íslenska byltingin.

Jörundur, þá túlkur breska stórkaupmannsins Samuels Phelps, heimsótti Ísland í annað sinn á ævi sinni þann 25. júní árið 1809. Þetta var á tímum einokunarverslunarinnar og því var þeim félögum meinað að versla við Íslendinga sem almennt bjuggu við þröngan kost og kúgun, bæði af hendi danskra yfirvalda og íslenskrar borgarastéttar. Skipið hafði aðeins legið fimm daga við akkeri í Reykjavíkurhöfn en þann tíma hafði Phelps, kaupmaður og kapítalisti, notað til að skipuleggja valdarán þar sem Jörundi var falið að vera uppreisnarleiðtogi. Jörundur tók hlutverk sitt alvarlega með neðangreindum afleiðingum.

 

Drög að byltingu

Þennan dag stormuðu 13 menn upp í Gúvenorsbústaðinn við Austurvöll og handtóku þar Trampe Landsstjóra og settu í gæsluvarðhald. Daginn eftir lýsti Jörundur yfir sjálfstæði Íslands með plaggi í 11 liðum sem hófst með þeim fleygu orðum ,,Allur danskur myndugleiki skal upp hafinn á Íslandi”.

Og stjórnmálin voru tekin föstum tökum. Jörundur lýsti sjálfan sig verndara hins nýfædda lýðveldis og hófst handa við að tryggja mikilvægustu undirstöður byltingarinnar, þ.e. varnir landsins og áframhaldandi uppgang sjálfstæðis Íslendinga. Fallbyssugörmum sem áttu að vernda höfuðstaðinn, væntanlega fyrir ekki minna ferlíki en danska sjóhernum var hlaðið upp í svokallað ,,batterí” í Reykjavíkurhöfn og lífvörður var skipaður ótíndum glæpamönnum. Viðskiptahöftum var aflétt, skattar lækkaðir um helming, verð á mjöli lækkað stórlega, skuldir við danska ríkið og danska kaupmenn voru þurkaðar út, fiðlur stroknar og dans stiginn.

Og Jörundur var umhyggjusamur einvaldur, það má hann eiga. Hann reið um Norðurland þvert og endilangt til að kynnast þegnum sínum og gefa fyrstu orðum nýju stjórnarskrárinnar verklegt gildi. Hann stóð sig svo vel að enn þann dag í dag syngja Íslendingar um rúsínurnar sem hann gaf norðlenskum fátæklingum og fótinn sem hann á að hafa rekið skörungslega í botninn á dönskum embættismönnum. Um heimildagildi þessa söngs skal kanski ekki farið mörgum orðum hér, en þessi gjörningur þykir mér benda til að alvöru hugsjón hafi ráðið för hjá Jörundi, fremur en blákaldir verslunarhagsmunir.

Fyrsti þjóðfáni Íslendinga var dreginn að húni þann 12. júlí, 1809. Þetta var glæsilegt flagg, (heiðblátt að lit og vinstra megin í efra horninu tróndu þrír flattir þorskar) hvers virðingu Jörundur hét að ,,forsvara með lífi voru og blóði”. Sjaldan eða aldrei hafa undursamlegri fánar verið hafnir á loft. Hvað getur betur rammað inn þess tíma íslenskan almúga og náttúru en þrír saltfiskar á bláum fleti? Stílhreinn, kaldur og laus við alla helgislepju blakti hinn rómantíski fáni þessarar fyrstu byltingar Íslandssögunnar yfir höfuðstaðnum.

 

Áhrif frá frönsku byltingunni

Það er engin tilviljun að þetta gerðist við upphaf 19. aldar og í raun má líta á það sem lítinn hluta af gríðarlegu uppreisnartímabili. Bandaríkin höfðu brotist til sjálfstæðis og komið á fulltrúalýðræði aðeins um aldarfjórðungi áður og franska byltingin hafði gert sitt gagn og haft áhrif um gervöll Vesturlönd. Í löndum latnesku Ameríku voru miklar þjóðfrelsishreyfingar í gangi, þrælauppreisnir voru tíðar og aðeins fimm árum áður höfðu svartir þrælar á Haítí hrifsað til sín völdin fyrir fullt og allt.

Frelsisgyðjan leiðir fólkið eftir Eugène Delacroix

Það var með öðrum orðum allt í fokki hjá heimsvaldasinnum um aldamótin 1800 og forsendur til byltinga um allan heim höfðu aldrei verið betri, og hafa ekki verið það síðan. Jörundur hafði fulla ástæðu til þess að ætla að Íslendingar eins og aðrir, væru orðnir þreyttir á kúgun og heimsvaldastefnu og væru tibúnir að berjast fyrir frelsi sínu og sjálfstæði. Hann var uppfullur af hugmyndum upplýsingartímabilsins um að allir ættu að njóta friðar, hamingju og frelsis í þessu lífi jafnt sem því næsta. Hann vildi gera Ísland að nýstárlegu lýðveldi (hefur vafalítið litið til frönsku byltingarinnar og hinna ungu Bandaríkja) með fornu lýðræðisskipulagi, þ.e. endurreisa hið forna Alþingi og fá Íslendingum völdin í hendur.

Áætlun hans var að skipa nefnd átta manna sem síðan semdu stjórnarskrá og legðu línurnar fyrir endurreisn Alþingis. Það ferli er nánast tekið að láni frá frönsku byltingunni, með þeirri undantekningu að hann vildi veita öllum mönnum kjörgengi og kosningarétt óháð stéttastöðu, sem á þess tíma mælikvarða var ótrúlega róttæk hugmynd.

 

Viðbrögð Íslendinga

En voru Íslendingar tilbúnir? Sýndu þeir lit? Seisei nei, ætli það. Þann 22. ágúst silgdi breskt herskip í mestu makindum inn í Reykjavíkurhöfn, handtók hinn milda “konung” Íslendinga og kom þar með aftur á dönskum myndugleik, sem átti eftir að endast alveg þar til seinni heimstyrjöldin braut Danmörku niður í öreindir og frelsaði Ísland sjálfkrafa. Eða hefði öllu heldur gert það hefði hin nýja ríkisstjórn þess ekki kríað út Marshallaðstoð og þar með gerst leppríki BNA. Sá gerningur var fullkomnaður með inngöngunni í Nató 1949 og stöðugum sleikjuhætti við heimsveldið allar götur síðan.

Valdarán Jörundar gaf Íslendingum ómetanlegt og einstakt tækifæri til þess að hrifsa til sín sjálfstæði undan Danaveldi upp á eigin spýtur. Einokunin hefði runnið út í sandinn (reyndar varð það bein afleiðing af “byltingu” Jörundar að Bretar tóku að versla við Íslendinga) og þar með hefði verið kominn rekstrargrundvöllur fyrir alvöru hagkerfi sem hvorki reiddi sig á aumingjabætur frá danska ríkinu né léti stjórnast af því. Það má jafnvel gera ráð fyrir því að byltingin hefði komið betur út efnahagslega fyrir almúgann en íslensku yfirstéttina sem þegar hagnaðist gífurlega á einokunarfyrirkomulaginu.

Í staðinn var setið á lúkunum og beðið með sjálfstæðispælingar fram að Marshallaðstoðinni. Það var bara svo miklu þægilegra fyrir þetta pakk að vera bara kúgað í eina og hálfa öld í viðbót og komast svo beint á spenann hjá nýju vinunum sínum í Vestri.

En hvað sem því líður þá voru hundadagar árið 1809 góðir dagar.

Rétt er að fram komi að reyndar titlaði Jörundur sig aldrei konung, heldur “alls Íslands verndara, og hæstráðanda til sjós og lands”. Valdið sem hann tók sér var neyðarúrræði þar sem Íslendingar fengust ekki til þess að endurreisa Alþingi að svo stöddu.

Heimildir:
Wikipedia
Vísindavefur

Myndin frá dansleiknum er eftir Jörund sjálfan. Hún sýnir atvik sem varð á dansleik í Reykjavík þetta sumar þegar kona festi hákollu sína í ljósakrónu.

Share to Facebook