Steindór Grétar Jónsson skrifar

Aktívistinn Haukur Hilmarsson er sagður hafa fallið í innrás tyrkneska hersins í norðurhluta Sýrlands, 31 árs að aldri. Haukur á að baki merkilegan feril sem baráttumaður fyrir flóttamönnum, sem sumir þakka honum líf sitt. Vinir hans og fjölskylda minnast hans sem hugsjónamanns sem fórnaði öllu fyrir þá sem minna mega sín.

Hugsjónamaður með ljónshjarta, baráttumaður fyrir þeim sem minnst mega sín, tilbúinn til að fórna öllu fyrir velferð annarra. Svona lýsa vinir og fjölskylda Hauki Hilmarssyni aktívista, sem sagður er hafa fallið í átökum í norðurhluta Sýrlands, 31 árs að aldri. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Haukur komið töluvert við sögu íslenskra stjórnmála í rúman áratug, meðal annars fyrir þátt sinn í búsáhaldabyltingunni og baráttu fyrir réttindum flóttamanna, sem margir þakka honum líf sitt. Barátta hans leiddi hann í fremstu víglínu vandans, þar sem hann varði hugsjónina í bardögum við ISIS.

Lítið er vitað um atburði dagsins 24. febrúar, þegar Haukur er sagður hafa fallið í sprengjuregni tyrkneskra hersveita ásamt tveimur öðrum úr hans hersveit. Heimildum ber saman um að Haukur hafi komið til Rojava, svæðis Kúrda í norðurhluta Sýrlandi, í júlí 2017. Hann gekk til liðs við YPG, vinstrisinnaða skæruliðasveit and-fasista og anarkista, og barðist gegn hryðjuverkasamtökum ISIS í höfuðvígi þeirra í borginni Raqqa. Fékk hann þar nafnið Sahin Hosseini. Þegar Raqqa var unnin í suðri tók við ný hætta. Tyrkneski herinn hóf í janúar innreið yfir landamærin við Sýrland með það að markmiði að taka borgina Afrin og sigrast á Kúrdum. Haukur sneri aftur norður með það að markmiði að verja borgina.

Fjölskylda Hauks hafði ekki vitneskju um að hann væri að berjast í Sýrlandi og þegar Stundin fór í prentun höfðu tilraunir þeirra til að finna jarðneskar leifar hans ekki borið árangur, þrátt fyrir umleitan íslenskra stjórnvalda.

Studdi Rojava-byltinguna

Sýrlenska borgarastyrjöldin hefur staðið yfir í sjö ár, en margir ólíkir hópar koma að átökunum og mörg erlend ríki hafa beitt sér, meðal annars Bandaríkin, Tyrkland og Rússland. Hátt í hálf milljón hefur fallið í átökunum og þar að auki hafa um átta milljón manns misst heimili sín og yfir fimm milljónir flúið land. Kúrdar eru stærsti minnihlutahópur landsins, en þeir hafa sætt miklum ofsóknum þar og í nágrannalöndunum, Tyrklandi, Írak og Íran. Í norðurhluta Sýrlands hafa Kúrdar stofnað til sjálfstjórnarríkis innan Sýrlands, sem kallað er Rojava. Stjórnarskrá ríkisins var samþykkt 2014 og vakti hún athygli fyrir áherslur á trúfrelsi, jafnrétti kynjanna, réttindi minnihlutahópa og beint lýðræði. Stjórnmálastefna Rojava er kölluð confederalismi og byggir á hugmyndum um þátttökulýðræði.

Hersveitir Kúrda á svæðinu kallast SDF og innihalda meðal annars YPG hersveitina sem Haukur gekk til liðs við. Með stuðningi Bandaríkjahers hefur SDF tekist að sigra ISIS-hópa í Rojava, auk annarra hópa íslamista tengda Al-Qaeda og sýrlenska hópa sem studdir eru af Tyrkjum. Tyrknesk stjórnvöld telja YPG vera tengdar kúrdíska verkamannaflokknum PKK sem barist hefur fyrir sjálfstæði Kúrdistan og er skilgreindur sem hryðjuverkahópur af NATO.

Það er á þeim grundvelli sem Tyrkir hófu að senda hersveitir inn í norðurhluta Sýrlands í janúar undir nafninu „Operation Olive Branch“. Er yfirlýst markmið að uppræta YPG og ISIS, þrátt fyrir að hryðjuverkasamtökin hafi ekki lengur viðveru á svæðinu. Bandarísk yfirvöld hafa lýst yfir áhyggjum af aðgerðum Tyrkja, enda hafi sveitir YPG þurft að yfirgefa víglínur gegn ISIS í suðri til að verjast árás tyrkneska hersins í norðri. ISIS gæti því náð vopnum sínum aftur. YPG halda því einnig fram að stjórnvöld í Rússlandi styðji aðgerðir Tyrkja með ráðum og dáð.

Stutt myndband af Hauki hefur birst á netinu, þar sem hann segir frá markmiðum sínum með veru sinni í Rojava. „Ég heiti Sahin,“ segir Haukur. „Ég er frá Íslandi. Ég er hér til að standa með Rojava-byltingunni og berjast við hlið félaga minna til að verja það sem áunnist hefur og styðja hugsjónina um confederalisma.“ Í myndbandinu er Haukur klæddur felulitum og heldur á riffli.

„Félagi okkar Haukur Hilmarsson (einnig þekktur sem Sahin Hosseini) er orðinn ódauðlegur,“ sagði í tilkynningu International Freedom Battalion, sem sagður er vera hópur kommúnista, sósíalista og anarkista sem taka þátt í Rojava-byltingunni. „Hann var staðfastur anarkisti sem heyrði kall and-fasísku hreyfingarinnar YPG og International Freedom Battalion og fór strax til að berjast með í Manbij. Honum tókst ekki að komast til Rojava og var sendur aftur til Íraks, en gafst ekki upp. Hann sneri aftur til svæðisins og naut strax heiðurs og virðingar í blóðugum bardögum í Raqqa, þar sem hann var liðsstjóri í sveit okkar.  Hann var vinsæll og naut trausts allra félaga og var valinn til að sinna trúnaðarstörfum. Hann var tilbúinn til að fara eftir sigurinn á ISIS í höfuðvígi þeirra, en sneri aftur til að mæta innrásaröflum heimsvaldasinna og fasista frá Tyrklandi og þeirra stuðningsmönnum. Það var í þeim bardaga sem hann féll sem píslarvottur í Afrin. Í dauða segjum við að hann sé orðinn ódauðlegur, því við munum aldrei gleyma baráttu hans, nafni hans og fordæmi – og við munum aldrei gefast upp á baráttu hans.“

Kallaðir hryðjuverkamenn af Erdogan

Fregnir um fall Hauks hefur verið erfitt að fá staðfestar. Illmögulegt er að treysta tyrkneskum fréttaveitum, en samkvæmt umfjöllun The Economist hefur forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, gefið fjölmiðlum skýr fyrirmæli um hvernig eigi að fjalla um hernað Tyrkja í Sýrlandi. Skipun var gefin út um að fjalla ætti um hernaðinn sem baráttu gegn ISIS, þrátt fyrir að ISIS sé ekki til staðar á svæðinu lengur. CNN hefur sagt frá að innrás Tyrkja hafi þvert á móti gert baráttuna gegn ISIS erfiðari, þar sem kúrdískir skæruliðahópar, meðal annars YPG, hafi snúið frá því að bægja burt ISIS í suðri til að verjast tyrkneska hernum í norðri. Ríkisstjórn Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, telur YPG hryðjuverkasamtök vegna stuðnings þeirra við kúrdíska aðskilnaðarsinna í Tyrklandi og segja vilhallir fjölmiðlar gjarnan fréttir af því hversu marga YPG meðlimi herinn hefur fellt. Yfir 800 manns í Tyrklandi sem mótmælt hafa hernaðinum það sem af er ári hafa verið handteknir.

Þær upplýsingar sem borist hafa um andlát Hauks koma frá hópum tengdum YPG og systurarmi hans, YPJ, sem er eingöngu skipaður konum og inniheldur um 20.000 hermenn. Facebook-síða International Freedom Battalion greindi frá andlátinu og hefur verið í samskiptum við íslenska fjölmiðla og fjölskyldu Hauks undir nafnleysi. Þá hefur Facebook-síða tengd tyrkneska kommúnistaflokknum MLKP skrifað um málið, en tyrkneskir fjölmiðlar segja Hauk hafa gengið í MLKP í gegnum gríska anarkistahópinn RUIS. Undanfarin ár hafði Haukur gert sér ferðir til Grikklands til að hjálpa flóttamönnum á svæðinu, en fjöldi fólks frá stríðshrjáðum svæðum Mið-Austurlanda hefur siglt yfir Miðjarðarhafið til að leita á náðir stjórnvalda þar í landi um hæli.

Fjölskylda Hauks hafði hins vegar ekkert fengið staðfest þegar Stundin fór í prentun, en utanríkisráðuneytið leitar staðfestingar í samstarfi við ræðismanninn í Tyrklandi og alþjóðadeild lögreglu. Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, skrifaði pistil um málið á vefsíðu sína.

„Ég vildi að ég gæti sagt ykkur hvað gerðist hann 24. febrúar en ég veit bara ekkert meira en það sem hefur komið fram í fjölmiðlum,“ skrifaði Eva. „Það lítur út fyrir að hann Haukur minn sé látinn. Hvorki ég né nokkur annar af nánustu aðstandendum fékk neina tilkynningu og ég hef enn ekki náð sambandi við neinn sem veit meira en það sem komið hefur fram opinberlega.“

Eva og bróðir hennar, Guðbjörn „Beggi“ Dan Gunnarsson, hafa kallað eftir upplýsingum um málið á samfélagsmiðlum undanfarna daga. „Fjöldi manns hefur haft samband við mig, sent kærleikskveðjur og boðið fram aðstoð, líka bláókunnugt fólk,“ skrifaði Eva. „Þótt ég sé ekki búin að svara öllum þykir mér vænt um að finna þennan samhug og mun svara þegar þar að kemur.“

Beggi segir Hauk alltaf hafa verið fyrstan til að standa upp og verja þá sem minna mega sín. „Fréttirnar eru samt augljóslega afar þungbærar og það er eiginlega ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu að skoða heimsfréttirnar og sjá myndir af litla frænda með vélbyssu í hönd,“ skrifar hann á Facebook. „Ég veit hins vegar að hann var að berjast fyrir góðum málstað sem hann hafði óbilandi trú á.“

Flaggaði Bónusfána á Alþingishúsinu

Haukur var virkur í stjórnmálum frá unglingsaldri og kallaði einn viðmælenda Stundarinnar hann „legend í aktívistasenunni“. Einna fyrst vakti hann athygli fyrir þátttöku sína í Saving Iceland, samtökum sem börðust gegn Kárahnjúkavirkjun, en hann var einnig meðlimur í hópnum No Borders, sem berst fyrir algjöru ferðafrelsi og upprætingu landamæra. Hann kom að Food Not Bombs-verkefninu og gaf fólki heitan mat án endurgjalds á Lækjartorgi um helgar.

Í aktívisma sínum komst Haukur gjarnan í kast við lögin. Hann vakti athygli í mótmælunum í kjölfar bankahrunsins 2008, meðal annars þegar hann flaggaði Bónusfána á Alþingishúsinu til að vekja athygli á samkrulli stjórnmála og viðskiptalífs. Þegar hann var handtekinn tveimur vikum síðar safnaðist fjöldi fólks fyrir framan lögreglustöðina á Hverfisgötu og sýndi honum stuðning.

Haukur var tvisvar dæmdur í Héraðsdómi Austurlands til að greiða sektir fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu þegar hann tók þátt í mótmælaaðgerðum gegn Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuframkvæmdum í Reyðarfirði. Hann neitaði að greiða sektirnar og var því gert að afplána 18 daga fangelsisvist, sem hann kláraði að hluta en var sleppt vegna plássleysis. Í vísindaferð nema við heimspekideild Háskóla Íslands á Alþingi skömmu síðar var hann handtekinn aftur þegar starfsmaður Alþingis bar kennsl á hann. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Hauki síðar 150 þúsund krónur í bætur frá íslenska ríkinu, þar sem handtakan var talin of harkaleg og niðurlægjandi.

Bjargaði lífi flóttamanns

Haukur var staðfastur baráttumaður fyrir réttindum flóttamanna, meðal annars í starfi sínu með No Borders. Á meðal þeirra sem Haukur hjálpaði eru Paul Ramses og Rosemary Atieno, sem búa í Hafnarfirði ásamt tveimur börnum sínum, þeim Fídel Smára og Rebekku Chelsea. Þegar til stóð að senda Ramses til Ítalíu árið 2008 án þess að umsókn hans um hæli hefði verið tekin til efnismeðferðar á Íslandi brutu þeir Haukur Hilmarsson og Jason Thomas Slade sér leið inn á Keflavíkurflugvöll og stöðvuðu tímabundið flugvélina sem átti að ferja Ramses. Málinu lyktaði þannig að dómsmálaráðuneytið dró brottvísun Ramses til baka og gerði honum kleift að koma aftur til landsins. „Þeir voru að berjast fyrir réttlæti og mér fannst þeir vera með ljónshjörtu, vegna þess að á þessum tíma virtist enginn nenna að hlusta. Þannig að ég hef alltaf verið þeim mjög þakklátur fyrir að hafa staðið fyrir það sem þeir töldu rétt,“ sagði Paul Ramses í viðtali við DV árið 2013 og bætti við að með þessu hefðu Haukur og Jason bjargað lífi hans, án þess þó að hafa nokkurn tímann þekkt hann. Haukur hlaut 60 daga fangelsisdóm fyrir mótmælin.

Þann 20. nóvember 2013 birti Fréttablaðið frétt upp úr leka Gísla Freys Valdórssonar úr innanríkisráðuneytinu um mál Tony Omos, hælisleitanda frá Nígeríu, þar sem hann var sagður viðriðinn mansalsmál. Sama dag fór Haukur í þáttinn Harmageddon á X-inu ásamt konu og verðandi barnsmóður Tony, Evelyn Glory. „Ef ráðherrann er ábyrgur fyrir þessu, þá ætti hún að segja af sér,“ sagði Haukur.

Haukur beitti sér í máli Tony og Evelyn frá upphafi, en þó að Tony hafi á endanum ekki hlotið dvalarleyfi og verið vísað til Ítalíu, þá hafði málið verulegar afleiðingar í íslenskum stjórnmálum sem Haukur varð fyrstur til að kalla eftir. „Ég er gjörsamlega gáttaður á þessari forsíðu. Ég hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta,“ sagði Haukur í viðtalinu. „Þetta eru einstaklega viðkvæmar upplýsingar og þær ættu aldrei að enda í fjölmiðlum.“

Aðstoð­ar­maður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, Gísli Freyr Val­dórs­son, hlaut átta mán­aða skil­orðs­bundinn fang­els­is­dóm í Hér­aðs­dómi Reykja­víkur fyrir að leka trún­að­ar­upp­lýs­ingum úr inn­an­rík­is­ráðu­neyt­inu til fjöl­miðla. Hanna Birna sagði í kjölfarið af sér ráðherradómi, hætti sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og lauk afskiptum af stjórnmálum.

Þá beitti Haukur sér í máli márítanska strokuþrælsins Mouhamed Lo. Mouhamed, sem var 22 ára gamall er hann flúði til Íslands frá Noregi þar sem hann hafði sótt um hæli en ekki fengið svar. Honum var neitað um hæli í júlí 2011 en fór í felur á landinu, þar sem norsk stjórnvöld hugðust senda hann aftur til Máritaníu þar sem hann hafði verið hnepptur í þrældóm. Innanríkisráðuneytið ógilti ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda hann aftur til Noregs árið 2012 og loks var honum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum ári síðar.

„Barðist af heift gegn kúgun og ranglæti“

Vinir og fjölskylda Hauks hafa undanfarna daga birt fögur orð um Hauk á samfélagsmiðlum. Æskuvinur hans, Hjálmar Kakali Baldursson, segist furðu lostinn og dapur yfir fréttunum. „Einu sinni vorum við litlir vinir að spila spunaspil, slást með trésverðum og vera skotnir í sömu stelpunum,“ skrifar Hjálmar. „Hann var alltaf mikið hugrakkari og óeigingjarnari en ég og mér fannst hann alltaf eiga heima í sögunni Bróðir minn ljónshjarta.“

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segist fyrst hafa kynnst Hauki í kringum mótmæli Saving Iceland árið 2005. „Við tókum þátt í að skipuleggja alls konar aðgerðir í gegnum tíðina,“ skrifar hún. „Hann var einstakur eldhugi með ríka réttlætiskennd og hugrekki sem var heillandi og á sama tíma nægilega ögrandi til að breyta eitruðum hefðum samfélaga. Hann var einn af örfáum aktívistum sem ég hef kynnst sem var tilbúinn að fórna öllu fyrir velferð annarra. Ég votta hans nánustu djúpri samúð. Höldum áfram að berjast – það er eina leiðin til að virða minningu hans. Hann er helst þekktur hérlendis fyrir að hafa dregið bónusfána að húni þinghússins í mótmælaöldunni í kringum hrunið. Það er aðgerð sem um margt er táknræn fyrir Hauk en bara brotabrot. Hann barðist fyrir hælisleitendum og fyrir náttúrunni, hann barðist yfirleitt fyrir málstað á undan öllum öðrum, þegar fólk vildi helst líta í hina áttina og halda áfram í partýinu þó að það væri löngu búið.“

Vésteinn Valgarðsson, vinur Hauks til langs tíma, segir hann hafa haft heitar skoðanir frá því í framhaldsskóla, sem snerust fyrst mikið um umhverfisvernd en þróuðust snemma yfir í anarkisma. „Hann var lengi besti vinur minn, sérstaklega á árunum 2005–2008, við brölluðum margt og ég leit á hann nánast sem bróður,“ skrifar Vésteinn. „Þegar sterkri réttlætiskenndinni var misboðið lét hann ekki duga að nöldra eða sveia eða láta sig dreyma, heldur fór hann og gerði í alvörunni það sem hann gat. Það mættu fleiri gera. En ásamt þessum harða skilningi hans, var hann líka mjög tilfinningaríkur og þótt hann væri blíður og mætti ekkert aumt sjá, var hann oft líka hrjúfur við þá sem honum var í nöp við, og óspar á stóru orðin. Og hann hafði litla þolinmæði fyrir væli, nöldri, gífuryrðum eða róttækum snjallræðum sem fólk var ekki tilbúið að standa við í alvöru. Því honum var alvara. Haukur var trúlega harðasti nagli sem ég hef kynnst. Framan af hugsaði hann mikið um að herða sig, til að eiga auðveldara með að fást við erfiðleika eða hættur sem hann gæti lent í. Hann svaf til dæmis um tíma oft úti við á berri jörðinni til að venja sig við það, eða í skúrum eða draugahúsum. Hann gekk berfættur í að minnsta kosti heilt ár, inni og úti, sumar og vetur. Annar þáttur í því að vera viðbúinn hættum var að láta vera erfitt að ná í sig eða fylgjast með sér. Þannig hvarf hann oft og lét ekki ná í sig í lengri tíma. Ég var í litlu sambandi við hann síðustu árin, við vorum komnir á sitthvorn staðinn, og maður orðinn vanur því að heyra ekki frá honum um lengri tíma. Margir hafa sagt mér að þeir hafi, eins og ég, oft hugsað að í rauninni væri réttast að fara til Sýrlands og berjast gegn Íslamska ríkinu og öðrum glæpaöflum, sem allt þetta fólk er að flýja, en enginn þeirra hefur lagt í það, frekar en ég, að láta verða af því. Nema Haukur.“

Samfélag samstöðu og baráttu

Jamie McQuilkin, vinur Hauks, segir fregnir af andláti Hauks mikið áfall, ekki aðeins fyrir fjölskyldu hans og aðra nákomna, heldur einnig fyrir samfélagið sem hann barðist svo staðfast við að breyta. „Hann gaf okkur svo mikið og var til staðar þegar enginn annar var það,“ skrifar Jamie. „Hann dró mörg okkar með valdi út úr þægilegum felustöðum okkar til að sýna okkur hræðilegt óréttlæti heimsins og krefjast þess að við risum upp og gerðum eitthvað í málunum. Þegar við vorum veiklunda gagnvart kúgun, þá hjálpaði hann okkur að vera sterkari, að neita að sætta okkur við hlutina, neita að þola þá, neita að gefast upp. Ég mun minnast hans, ekki með byssu í hönd – Haukur var einn mesti andstæðingur hernaðar sem ég þekki og myndin er enn óraunveruleg – heldur sem ljóðskálds, tónlistarmanns, sanns og stolts anarkista, sem félaga í tilraunum okkar til að finna hvernig eigi að byggja nýjan heim úr skel hins gamla. Hann var með okkur og hann féll í baráttunni við að gera heiminn frjálsan og mannsæmandi stað. Við munum halda þeirri baráttu áfram. Á þeim tíma sem ég þekkti hann, þá sá ég Hauk aldrei tapa vilja sínum og hugrekki. Ég mun minnast hans þegar ég leita að mínum.“

Hjalti Hrafn Hafþórsson, bekkjarfélagi Hauks úr háskóla, segist aldrei hafa þekkt nokkurn mann með jafn sterka réttlætiskennd og jafn brennandi baráttuhug og Hauk. „Frá því að við námum heimspeki saman í HÍ og í gegnum ótal samtök og málefni þar sem leiðir okkar lágu saman, þá stóð hann alltaf með þeim sem minnst mega sín, og barðist af heift gegn kúgun og ranglæti,“ skrifar Hjalti. „Haukur hafði gífurleg pólitísk og hugmyndafræðileg áhrif á mig og alla í kringum sig. Hann reif fólk með sér og hann fékk fólk til að sjá heiminn í nýju ljósi; möguleika á nýju samfélagi með samstöðu og baráttu. Hauks verður saknað en hugsjónin lifir.“

Share to Facebook