http://kvennabladid.is/2018/03/24/ordsending-evu-hauksdottur-lesin-a-samstodufundi-med-afrin-i-london/

Ef vestræn ríki taka ekki afstöðu og stöðva innrás Tyrkja í Afrin, má búast við því að ungir menn og konur taki málin í eigin hendur og fari þangað sjálf. Ungt, sterkt, hugrakkt fólk, fullt af eldmóði. Fólk sem er tilbúið til að verja tíma sínum til þess að hjálpa öðrum án endurgjalds. Fólk sem sennilega myndi bjóða sig fram sem slökkviliðsmenn eða vinna önnur björgunarstörf ef heimsfriði hefði verið komið á og ríki sem og fyrirtæki virtu mannréttindi. Fólk eins og Anna Campbell og sonur minn, Haukur Hilmarsson.

Svo hljóðaði hluti orðsendingar frá Evu Hauksdóttur sem lesin var í London í dag, á samstöðufundi gegn hernaði Tyrklands í Norður-Sýrlandi.

Krafa um vopnahlé til að finna megi látna

Eins og fram hefur komið var boðað til mótmæla- og samstöðuaðgerða víða um heim í dag, gegn hernaði Tyrklands gegn sjálfstjórnarsvæðum Kúrda í Norður-Sýrlandi. Í London var efnt til mótmælasamkomu, þar sem þess var krafist að bresk stjórnvöld stöðvi hernað Tyrklands á svæðinu, felli niður vopnaviðskipti við Tyrkland, veiti borgurum í Afrin mannúðaraðstoð og krefjist sjálfstæðrar rannsóknar á atburðunum.

Á samkomunni var einnig heiðruð minning Önnu Campbell, sem gekk undir nafninu Hêlîn Qereçox eftir að hún hélt til Sýrlands til að berjast við hlið annarra kvenna í kúrdísku kvennasveitunum YPJ. Um miðjan marsmánuð bárust fréttir af því að hún hefði fallið í árásum tyrkneska hersins, rétt eins og Haukur Hilmarsson.

Samkoman setti um leið fram kröfu um að bresk stjórnvöld beiti diplómatískum leiðum til að þrýsta á um tímabundið vopnahlé, til að hafa megi uppi á líkamsleifum Önnu Campbell og flytja þær aftur til Bretlands, til greftrunar og minningarathafnar.

Bæði börðust fyrir mannréttindum, umhverfisvernd og rétti flóttafólks

Í ljósi hins sameiginlega hlutskiptis Önnu Campbell og Hauks Hilmarssonar, fjölskyldu þeirra og aðstandenda, var Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, beðin um framlag til viðburðarins. Hún sendi stuttan texta sem lesinn var upp á fundinum.

Spurð um samskiptin við Campbell-fjölskylduna segir Eva að þau Dirk Campbell, faðir Önnu, hafi skrifast á. „Ég hef ekki spurt hversu mikla von þau hafi um að bresk stjórnvöld beiti sér. En það er greinilegt að fjölskylda Önnu vill ekki þurfa að bíða mánuðum eða árum saman eftir því að líkið finnist.“

„Faðir Önnu er stoltur af því að hún skuli hafa barist fyrir góðum málstað þótt sorgin sé hyldjúp,“ segir Eva og bætir því við að Anna og Haukur eigi margt sameiginlegt. „Bæði hafa barist fyrir mannréttindum, umhverfisvernd og réttindum flóttamanna.“

„Með þátttöku okkar í NATO styðjum við stríð“ – orðsending Evu

Orðsending Evu, sem lesin var upp á fundinum, fylgir hér fyrir neðan, í íslenskri þýðingu:

Kæru kúrdísku vinir, fjölskylda Önnu Campbell og aðrir sem hér eru samankomnir til að lýsa samstöðu með Rojava.

Sonar míns, Hauks Hilmarssonar, er saknað eftir átök í Afrín í febrúar síðastliðnum. Líkur eru á að hann hafi farist í loftárás en svo virðist sem engin vitni hafi verið að dauða hans. Ég hef aldrei upplifað stríð og ég hef djúpa samúð með íbúum Rojava, fólkinu sem sonur minn var að reyna að verja. Ég sveiflast þó líka milli angistar og vonar um að sjá son minn aftur, því ég hef enga sönnun fyrir því að hann sé látinn. Ég óttast líka að hann kunni að vera á lífi í hræðilegum aðstæðum.

Sonur minn er fæddur og uppalinn á Íslandi, einhverjum friðsælasta stað á jarðríki. En þó svo að við séum blessunarlega laus við styrjaldir merkir það ekki að íslensk stjórnvöld geti þvegið hendur sínar af hinu blóðuga stríði í Afrin. Með þátttöku okkar í NATO styðjum við stríð. Með því að láta undir höfuð leggjast að mótmæla ólögmætum hernaðaraðgerðum, innrásum, stríðsglæpum og kerfisbundnum mannréttindabrotum, styðjum við þá hryðjuverkastarfsemi sem þrífst í skjóli þjóðríkisins.

Forsætisráðherra Íslands tilheyrir vinstri flokki sem gefur sig út fyrir að vera boðberi mannréttinda og heimsfriðar. Árið 2016, þegar flokkurinn var í stjórnarandstöðu, skoraði þingflokkur hans á ríkisstjórnina að fordæma ofsóknir Tyrkja gegn Kúrdum, á alþjóðlegum vettvangi. Nú þegar flokkurinn leiðir ríkisstjórn landsins ætti honum að vera í lófa lagið að láta í sér heyra. En samfélag þjóðanna hefur ekki heyrt aukatekið orð frá íslenskum stjórnvöldum, ekki einu sinni eftir að yfirlýsingar bárust um að íslenskur ríkisborgari hefði fallið í árás Tyrkneskra hersveita á Afrin.

Ef vestræn ríki taka ekki afstöðu og stöðva innrás Tyrkja í Afrin, má búast við því að ungir menn og konur taki málin í eigin hendur og fari þangað sjálf. Ungt, sterkt, hugrakkt fólk, fullt af eldmóði. Fólk sem er tilbúið til að verja tíma sínum til þess að hjálpa öðrum án endurgjalds. Fólk sem sennilega myndi bjóða sig fram sem slökkviliðsmenn eða vinna önnur björgunarstörf ef heimsfriði hefði verið komið á og ríki sem og fyrirtæki virtu mannréttindi. Fólk eins og Anna Campbell og sonur minn, Haukur Hilmarsson.

Bretland hefur misst hæfileikaríka, unga konu. Ísland hefur misst hæfileikaríkan, ungan karlmann. Ég skora á þessi ríki að taka afstöðu með þeim málstað sem þessir hugrökku einstaklingar voru að verja. Það minnsta sem þið getið gert er að fylgja fordæmi Angelu Merkel og fordæma innrás Tyrkja í Afrin.