Í gærkvöldi gerði ég heiðarlega tilraun til þess að fara út á lífið. Það var nú gaman.

Ég byrjaði kvöldið á því að tölta með vini mínum inn á subbulegt rónaspilavíti þar sem við keyptum okkur bjór og settumst í það horn sem minnst umferð var um. Þetta var annar tveggja toppa á kvöldinu, líklega af því að við vorum einir og gátum talað saman á hrokafullum nótum og klórað okkur gáfulega í skeggbroddunum. Slíkar viðræður eru frábær vetvangur fyrir sófakommúnisma, en af hverju í ósköpunum við urðum endilega að sitja inni á þessum leiðindastað þar sem óþolandi popptónlist glumdi í eyrunum og bjórinn var fjórfalt dýrari en heima hjá okkur, er ofar mínum skilningi.

Hafandi suplað fyrsta skamt kvöldsins af deyfilyfjum hefði maður ætlað að nú kæmist hreyfing á hlutina, en það sýnir kanski best fáfræði mína og barnaskap. Um 11 leitið reyndum við að skemta okkur á nýjum stað en þar þótti ég of ungur og var meinaður aðgangur. Ég ráfaði um Laugaveginn, svona eins og fólk gerir þegar er reglulega gaman hjá því, og eftir að þau hin höfðu skellt í sig einu glasinu enn af gleðigjafa ráfuðum ég og fyrr nefndur vinur minn niður á samlokustað þar sem við tróðum í andlitið á okkur. Þetta var seinni toppur kvöldsins af tveimur ástæðum: Þarna var hægt að tala saman, og maturinn bragðaðist betur en aðrar veitingarnar kvöldsins.

Því næst tróðum við okkur inn á enn einn „skemmti“staðinn. Ég hef ekki oft komið inn í þá holu, en ég er að sannfærast um það að með einhverjum dularfullum hætti tekst þessum bar að gera bæði tónlist og fólk leiðinlegra en það í raun og veru er. Þessi staður átti ekki skilið að taka þátt í að eyðileggja í okkur lifrarnar svo að við freistuðum gæfunnar á enn einni knæpunni. Síðustu 2 tímar kvöldsins voru raunar nokkuð áhugaverðir. Ég fylgdist með því hvernig hinn almenni fáviti skemtir sér, en það viðist felast í því að haga sér eins og það sem hann er í takt við hver þau óhljóð sem hljómsveitinni dettur í hug að nauðga honum með. Lífsspeki djammaranna virðist vera á þá leið að orð séu óþörf þegar maður hefur það skemtilegt. Blessunarlega voru hnakkar í hverfandi minnihluta þarna inni en í þeirra stað mátti sjá önnur félagsfræðileg viðundur því að meirihluti þeirra sem þarna sólunduðu lífi sínu voru komnir vel á aldur en fannst þeir vera 14 ára af því að það var svo gaman þarna, eins og ég hef margoft vikið að.

Síðasta trompið á hendi mér féll þegar vinalegur dyravörður neitaði mér um að koma aftur inn á barinn, líklega eftir að hafa séð mig staupa mig á eigin viskíi úti fyrir.

Ég drattaðist heim glaður og ánægður. Ég tel mig hafa upplifað alla helstu kosti þessa „lífs“ og hef því ákveðið að sitja hjá í kvöld, en þá ætla vinir mínir að ganga aftur.