Utanríkisráðuneytið er að kanna hvað til sé í orðrómi um að íslenskur karlmaður hafi látist í Sýrlandi fyrir nokkrum dögum. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.
Mbl.is hefur líkt og ráðuneytið fengið ábendingar um frásagnir á erlendum Facebook- og fréttasíðum um að Íslendingur hafi fallið í Afrin í norðvesturhluta Sýrlands. Í þeim frásögnum er talað um að Frakki og Spánverji hafi einnig fallið.
Meðal þeirra sem greina frá málinu á Facebook-síðu sinni er tyrkneski vefmiðillinn Etha. Þá er einnig greint frá málinu í tyrknesku útgáfu fréttamiðilsins CNN og í frétt Hurriyet, sem er einn stærsti fréttamiðill Tyrklands. Í fréttunum segir að Íslendingurinn hafi fallið í árásum tyrkneska hersins en að sjálfur hafi hann barist við hlið sýrlenskra Kúrda.
Í Afrin hefur ítrekað komið til átaka, m.a. síðustu daga. Blandaðar hersveitir undir stjórn tyrkneska hersins hófu umsátur um Afrin fyrir nokkrum dögum. Tilgangur aðgerðarinnar var sagður vera sá að halda vopnuðum sveitum Kúrda (YPG) frá landamærum Tyrklands, en Tyrkir segja YPG vera útibú Verkamannaflokks Kúrdistans (PKK) sem lengi hefur barist hart fyrir sjálfstæði Kúrdahéraða í Tyrklandi.
Tyrkneski herinn hóf fyrir nokkrum vikum að gera árásir á liðsmenn YPG og fékk til þess aðstoð frá sýrlenskum uppreisnarmönnum.
Sagður hafa barist í Raqqa
Í færslu á Facebook-síðu International Freedom Batallion, samtaka sem Íslendingurinn er sagður hafa verið liðsmaður í, kemur fram að hann hafi ætlað sér að taka þátt í baráttu samtakanna í Manbij í Sýrlandi árið 2016. Honum hafi ekki tekist að komast þangað. Hann hafi þó ekki gefist upp heldur snúið aftur og þá til að taka þátt í orrustunni í Raqqa sem lauk í fyrra en þar börðust samtökin gegn uppgangi vígamanna Ríkis íslams. Hann hafi svo snúið enn á ný til svæðisins til að verja Afrin gegn herjum Tyrkja. Í þeim bardögum hafi hann fallið.
International Freedom Batallion eru samkvæmt Wikipedia vopnuð samtök útlendinga sem barist hafa í stríðinu í Sýrlandi og gegn Ríki íslams í Sýrlandi og Írak.
Uppfært kl 16:07: María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá utanríkisráðuneytinu, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is, að ráðuneytið hafi ekki haft neinar upplýsingar um að Íslendingur hafi verið staddur í Sýrlandi. Ráðuneytið kanni áfram orðróm þess efnis að íslenskur karlmaður hafi látist þar.