Umfjölllun Kvennablaðsins um fánaaðgerðina 17. júní 2018

Darri hefst handa – Ljósmynd HJH

Upp úr kl. 11 fyrir hádegi í dag, 17. júní 2018, var fáni Tyrklands dreginn að húni á húsi Stjórnarráðsins. Að verki var Darri Hilmarsson, bróðir Hauks Hilmarssonar en aðgerðahópurinn Hvar er Haukur? stóð að baki framkvæmdinni, samkvæmt tilkynningu sem fjölmiðlum barst um hádegisbil.

Darri athafnaði sig hægt og rólega á þaki Stjórnarráðshússins, að sögn sjónarvotta, þar til lögreglubíll, tvö mótorhjól og sérsveitin komu á vettvang. Sérsveitin skipti um fána, setti upp þann íslenska, sem hangir nú að sögn nærstaddra „eins og lufsa“ á byggingunni, sneri sér að því loknu að athafnamanninum. Skömmu síðar kom körfubíll að byggingunni til að gera við fánastrenginn og koma íslenska fánanum aftur á flug.

 

Fréttatilkynning frá aðgerðahópnum „Hvar er Haukur“

Ljósmynd Sunneva Ása Wheissappel

Nú er liðið á fjórða mánuð frá því að fréttist að Hauks Hilmarssonar væri saknað eftir loftárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Haukur barðist við hlið Kúrda gegn Islamska ríkinu í Raqqa og síðar gegn innrás Tyrkja í Afrín. Lík Hauks hefur ekki fundist og í raun engin sönnun þess að hann sé látinn.

Óskum fjölskyldu Hauks um að Tyrkir verði krafðir svara um það hvað varð um lík þeirra sem féllu í Afrín hefur Utanríkisráðuneytið svarað á þann veg að það fylgi ráðleggingum tyrknesku lögreglunnar og vilji því ekki bera þessa spurningu undir stjórnvöld í Tyrklandi. Ennfremur telur ráðuneytið, þrátt fyrir að alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í París telji tyrknesk stjórnvöld sek um stríðsglæpi gegn Kúrdum, að þar sem Tyrkir segist sjálfir fara að alþjóðalögum á átakasvæðum sé ekki ástæða til að óttast að líkin liggi enn á víðavangi. Ráðuneytið hefur því ekki fengist til að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvers vegna Rauða krossinum sé ekki leyft að leita að líkum á svæðinu. Forsætisráðuneytið hefur neitað að taka við málinu enda telur forsætisráðherra að Utanríkisráðuneytið vinni að því „af heilindum“.

Rannsókn lögreglunnar á afdrifum Hauks hófst með því að lögreglan bjó til málsnúmer, sagðist „leita“ Hauks eins og sjómanns sem hefði fallið fyrir borð og beið þess síðan að líkið ræki að landi. Að sögn foreldra Hauks er nú tekinn við málinu lögreglumaður sem er hvorki heimalningur né hálfviti og hefur tekið skref í átt til alvöru rannsóknar. Þetta eru góðar fréttir og vonandi skilar sú rannsókn einhverjum svörum.

Viðleitni lögreglunnar breytir þó engu um framgöngu Utanríkisráðuneytisins og Forsætisráðuneytisins í þessu máli og þar sem sú undarlega staða er uppi að tyrkneska lögreglan stjórnar því hvernig íslensk ráðuneyti haga leit sinni að íslenskum ríkisborgara, er vel við hæfi á þjóðhátíðardegi Íslendinga að gera þessi óvæntu valdaskipti sýnileg. Af því tilefni stóð aðgerðahópurinn „Hvar er Haukur“ fyrir fánaskiptum á þaki Stjórnarráðsins í dag.

Gjörningurinn kallast á við fánaaðgerð á vegum anarkista fyrir réttum 10 árum, en þá flaggaði Haukur Hilmarsson byltingarfána Jörundar Hundadagakonungs á þaki Stjórnarráðsins.[/su_box]

Íslensk ráðuneyti undir stjórn tyrknesku lögreglunnar

Skírskotun aðgerðarinnar til máls Hauks er augljós en íslensk yfirvöld hafa að eigin sögn fylgt fyrirmælum tyrkneskra um hvernig fari best á því að rannsaka hvarf eða andlát hans í Sýrlandi, sem enn hefur enda engan árangur borið. Eins og það er orðað í tilkynningu aðgerðahópsins er „sú undarlega staða … uppi að tyrkneska lögreglan stjórnar því hvernig íslensk ráðuneyti haga leit sinni að íslenskum ríkisborgara“.

Á næstu mánuðum verða tíu ár liðin frá einni frægustu aðgerð Hauks Hilmarssonar á Íslandi, þegar hann dró fána verslunarkeðjunnar Bónus að húni á þaki Alþingishússins, í búsáhaldabyltingunni eins og sú atburðarás öll var síðar nefnd. Fljótlega eftir þá aðgerð var Haukur handtekinn og færður í gæsluvarðhald á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, þar sem hundruð mótmælenda komu saman, brutu sér leið inn á stöðina og kröfðust þess að hann yrði leystur.

Það er þó ekki til þessarar aðgerðar sem hópurinn vísar, samkvæmt tilkynningunni, heldur annarrar fyrir einmitt tíu árum síðan, þann 17. júní 2008, þegar Haukur dró fána Jörundar hundadagakonungs að húni á þaki Stjórnarráðsins.

Frétt Morgunblaðsins um aðgerð Hauks 17. júní 2008

Darri færður til skýrslutöku

Opinber dagskrá þjóðhátíðardagsins var nýhafin með ræðuhöldum yfirvalda á Austurvelli þegar aðgerðin átti sér stað. Lögregla færði Darra til skýrslutöku á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Ekki er ljóst að svo stöddu hvort fánaskiptin varða beinlínis við lög.

Fyrst skipti lögreglan um fána. Að því loknu var athafnamaðurinn handtekinn á þaki byggingarinnar. Ljósmynd: Benjamín Julian.

Handtakan á þaki Stjórnarráðshússins. Sérsveitarmenn hífðu íslenskan fánann upp á einu horni, sem lafði því „eins og tuska“, eins og sjónarvottar orðuðu það. Nefnt hefur verið, ef til vill þó ekki af mikilli alvöru, að hugsanlega varði sú meðferð lögreglunnar á fánanum við fánalög.

Darri handtekinn, sáttur, að virðist, við vel heppnaða aðgerð. Ljósmynd: HJH.

Sérsveitarmaður dregur tyrkneska fánann niður og hífir þann íslenska upp. Ljósmynd: Heiða Hafdísardóttir.

Nokkur fjöldi fylgdist með aðgerðum aðgerðahópsins Hvar er Haukur? og mótaðgerðum lögreglu við mót Bankastrætis, Lækjargötu og Hverfisgötu. Ljósmynd: Heiða Hafdísardóttir.

Viðgerðir á fánastrengnum urðu nokkuð plássfrekar. Ljósmynd: Benjamín Julian.

Share to Facebook