Þessi hugrakki maður hét Haukur Hilmarsson. Hann var systursonur minn. Hann lést í átökum í Sýrlandi nýverið þar sem hann barðist við ISIS í Raqqa og studdi Kúrda gegn hræðilegum ofsóknum Tyrkja.
Ég vissi ekki að hann hefði gripið til vopna og farið í stríð fyrr en í fyrradag en eftir á að hyggja þá kemur það mér ekkert sérstaklega á óvart þar sem Haukur var alltaf fyrstur til að standa upp og verja þá sem minna mega sín. Fréttirnar eru samt augljóslega afar þungbærar og það er eiginlega ekki hægt að lýsa þeirri tilfinningu að skoða heimsfréttirnar og sjá myndir af litla frænda með vélbyssu í hönd. Ég veit hinsvegar að hann var að berjast fyrir góðum málstað sem hann hafði óbilandi trú á.
Haukur var ofboðslega klár og vel gefinn strákur og ég man alltaf eftir því að sitja með honum til borðs þegar hann var pínu putti þar sem hann leiddi umræðuna við matarborðið um heimsmálin og óréttlætið í heiminum og rak staðreyndavillur hiklaust ofan í þá sem voru að rugla einhverja vitleysu (þar á meðal mig).
Þrátt fyrir að Haukur hafi verið töluvert yngri en ég þá bar ég, og mun alltaf bera, mikla virðingu fyrir honum og því óeigingjarna starfi sem hann vann í þágu flóttamanna og hælisleitenda. Hann lét líka til sín taka í umhverfismálum svo tekið var eftir. Þrátt fyrir að hafa ekki orðið eldri en rétt rúmlega þrítugur þá skilur hann eftir sig einstaka arfleifð.
Hvíldu í friði frændi minn byltingin. Þú ert hetja og hugrakkasti maður sem ég hef kynnst. Ég á eftir að sakna þín sárt.