EN. Við höfum engan sem ætlar að kaupa hval af okkur, Íslendingar éta hann ekki einu sinni sjálfir og hvalveiðar fara greinilega fyrir brjóstið á mjög mörgum. Við erum sennilega að koma okkur í vandræði með þessu og tilgangurinn virðist ekki vera annar en sá að „gera eitthvað“.
Það er nóg af terrierhundum í heiminum. Þeir eru ekki í neinni útrýmingarhættu. Það er allt eins líklegt að kjötið af þeim sé ágætt. Ættum við þá að ala terrierhunda til slátrunar bara af því við getum það?
Ef við værum að berjast fyrir lífi okkar þætti mér málið horfa öðruvísi við en við eigum ekkert bágt. Íslenska ríkið er smátittur sem veður áfram á viðhorfinu „ég geri það sem mér bara sýnist“. Það getur þjónað tilgangi að fara sínar eigin leiðir og gefa skít í viðhorf annarra en í þessu tilviki er Ísland ekki sjálfstæðishetja sem stendur af sér kreddur og kúgun heldur andfélagslegur unglingur.