Mig langar t.d. að vita hvort börnin þekktu bækurnar sem voru lesnar fyrir þau eða hvort þetta var allt nýtt fyrir þeim. Mér finnst líklegt að börn séu mjög upptekin af myndunum í fyrsta sinn sem þau sjá nýja bók, en þau virðast nú flest vilja meira af því sama svo oftast eru sömu bækur lesnar fyrir þau oft. Ég hef ekki lesið fyrir ógurlega mörg börn en þegar mínir strákar voru litlir, leiðréttu þeir mig af mikilli ákveðni ef ég sleppti úr setningu eða skipti út orði og ég hef oft heyrt foreldra lýsa sömu reynslu.
Auk þess held ég að samræðurnar sem spretta af því að skoða bók saman séu mikilvægur þáttur í máltökunni og gaman væri að vita hvort eitthvað er komið inn á það í þessari rannsókn.
Ég er allavega ekki tilbúin til að kasta frá mér þeirri sannfæringu að það sé sniðugt að lesa fyrir börn ef maður vill að þau verði vel talandi.