Ég sé því lítinn tilgang í að svara síðustu athugasemd Hafsteins við færslu sem ég skrifaði um daginn en þar sem Hafsteinn er of spennandi penni til að ég vilji hunsa hann, ætla ég að svara og láta það verða mitt síðasta innlegg um það mál í bili. Öðrum er velkomið að halda þessu áfram ef þeir nenna því.
Hafsteinn, það þarf ekki sérfræðing til að átta sig á því að þessar pælingar um stafsetningarsérvisku spruttu af þeirri fráleitu hugmynd að það væri sambærilegt að rita Gvuð og að stafsetja nafnið mitt Evba.
Ég hef fært fram fullkomlega gild rök fyrir því hversvegna stafsetningin gvuð sé tæk út frá málfræðilegu sjónarmiði. Það er líka uppi á borðinu að hún er mér ekki heilög.
Kjánagangurinn sem hefur farið fram á þessari síðu undanfarið, felst í því að við skulum vera að þrátta um stafsetningu, þegar málið snýst í rauninni um tilfinningar. Þú tekur það nærri þér að mér finnist trúarhugmyndir þínar hálfvitalegar. Um það snýst þessi þræta.
Því miður Hafsteinn, það er alveg sama hvað þú leggur mikla vinnu í að grafa upp málfræðileg rök fyrir því að það sé asnalegt að skrifa gvuð með vaffi. Trú þín er jafn fíflaleg fyrir það.