X

I heard about the crysis in Iceland

Ég hef ekki verið dugleg að fylgjast með fréttum að heiman undanfarið. Ástæðurnar eru stopulll aðgangur að nettengdri tölvu, langir og erfiðir vinnudagar og takmarkaður áhugi á fjármálafréttum.

Ég er þó farin að velta því fyrir mér hvort ég sé kannski full skeytingarlaus. Fólk er stöðugt að votta mér samúð sína. Strákur frá Kaliforniu spurði mig hvort Norðmenn myndu ekki bara yfirtaka landid ‘aftur’. Margir virðast telja að hungursneyð blasi við Íslendingum. Netmogginn talar um landflótta til Færeyja af öllum stöðum.

Er þetta ekki bara sami hófsemdarkvíðinn og venjulega grípur Íslendinga þegar við sjáum fram á að einhverjir ímyndunarríkisbubbar neyðist til að horfast í augu við að eign er ekki eign ef maður skuldar 150% í henni og þarf því að losa sig við einn jeppa eða svo?

Hvað segja menn? Er þetta í alvöru ‘ástand’ eða eru fjölmiðlar í dramakasti? Væri kannski bara skynsamlegast að biðja Norðmenn að passa bankana okkar?

Categories: Allt efni Örblogg
Tags: auðvaldið
orblogg:

View Comments (1)

  • --------------------------------------------

    einhverjir verða að passa þá, það er ljóst.

    Posted by: hildigunnur | 17.10.2008 | 12:25:47

    -----------------------------------------

    Það er nærri engin leið til þess að vita það fyrir víst að svo stöddu. Gengi krónunnar og gjaldþrot bankanna segir sitt, en ríkisstjórnin heldur spilunum svo þétt að sér og fjölmiðlar eru orðnir algjörlega vitstola að það er erfitt að segja hverjar afleiðingarnar verða fyrir íslenska ríkið og almenna borgara þess í raun.

    Posted by: Alexander | 17.10.2008 | 16:25:48

    -----------------------------------------

    Ætli það segi ekki heilmikið um ástandið á Íslandi að manneskja í hjálparstarfi í Palestínu fær samúðarkveðjur vegna ástandsins í eigin landi frá öðrum útlendingum.

    Posted by: anna | 17.10.2008 | 17:19:48

    -----------------------------------------

    Ég held þú ættir að framlengja dvöl þína þarna suðurfrá. Framtíðarhorfur Palestínumanna eru mun bjartari en okkar.

    Posted by: Guðjón Viðar | 17.10.2008 | 17:23:15

    -----------------------------------------

    Ég held að það sé nú ennþá langt í að Björn Bjarna fari að skjóta á almenning með gúmmíkúlum, spurning um að hafa hlutina í samhengi.

    Það sem hefur gerst hér er hinsvegar mjög alvarlegt og er nú þegar búið að hafa mjög alvarlegar afleiðingar sem sér ekki fyrir endan á, þó mér heyrist almenningur kyrja saman íslensku meðvirknismöntruna "þetta reddast" mitt í brunarústunum.

    Posted by: anna | 17.10.2008 | 18:14:27

    -----------------------------------------

    Áður en Steingrímur Hermannsson hætti á þingi og varð seðlabankastjóri sagði hann við þá sem gagnrýndu fullkomin skort á menntun og reynslu hans í þetta starf, "Það að vera þingmaður og ráðherra er eins og doktorspróf í hagfræði". Ætti maður ekki að þakka fyrir að það hefði ekki verið laus staða í heilaskurðlækningum á sama tíma með sömu röksemdum ?

    Þá hefði nefnilega óhæfi viðkomandi einungis drepið einn í einu en ekki framtíð tugþúsunda og barna þeirra tugþúsunda líka ?

    Ég held að ég sé fyrst og fremst reiður því einhverjir einstaklingar með gerðum sínum og svo aðrir með aðgerðaleysi,hafa eyðilagt orðstír okkar sem þjóðar. Mannorð okkar sem þjóðar,ímynd okkar. Þeir hafa einnig þurrkað út sparnað tugþúsunda landsmanna. Ekki bara "sparnað" Svörtu Range Roverarana(nýríka liðið) heldur venjulegs fólks sem hafði safnað fyrir hverri krónu með heiðarlegri vinnu.
    Leysist þessi mál ekki í Bretlandi og annars staðar þá hefur þeim einnig tekist að setja börnin okkar í skuldaklafa til guð veit til hve langs tíma.
    Við erum svo langt komin upp kríkið að báturinn stendur á þurru.

    Posted by: Guðjón Viðar | 17.10.2008 | 20:07:25