Nú á að bjarga hagkerfinu með því að taka lán en því er ósvarað hvernig við eigum að greiða aftur lán upp á hundruð milljarða. Við vitum að þeir sem mest skulda munu ekki borga, því fyrirtækin þeirra voru bara loftbólur, leikur að tölum, en eru í raun verðlaus.
Hvar á að skera niður? Getum við búist við endalausum ‘hagræðingum’ í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu og félagslegri þjónustu? Hvaða atvinnubótavinnu verður okkur boðið upp á þegar verðlag er orðið svo hátt að fyrirtæki fara unnvörpum á hausinn? Hvernig á að ná hærri vöxtum út úr fólki sem er búið að missa vinnuna og er þegar með hærri greiðslubyrði en það ræður við? Hvaða ríki er líklegast til að hernema okkur (allavega viðskiptalega) þegar kemur í ljós að við getum ekki borgað?
Af hverju komast ráðamenn upp með að hegða sér eins og hinn íslenski meðaljón gerir þegar hann verður blankur, að taka bara lán sem hann getur ekki endurgreitt og ímynda sér að það ‘reddist’? Erum við virkilega svo gegnsýrð af þessum hugsunarhætti að við umberum ríkisstjórninni hann gagnrýnislaust?