Sögnin að ske er dönsk að uppruna en hefur fest rætur í íslensku málfari. Þessi sögn á sama rétt á sér og önnur tökuorð en mér finnst slæmt hve oft hún er notuð í annarri merkingu en íslenska sögnin að gerast.
Hvað er um að ske er að mínu viti röng málnotkun vegna þess að sögnin að ske, merkir alls ekki það sama og sögnin að vera. Einhverju sinni spurði ég hóp unglinga í 9. bekk hvort væri hægt að nota annað orðalag en hvað er um að ske? Einn úr hópnum taldi heppilegra að segja hvað er í gangi? Ég er því sammála að það er skárra, en fallegra finnst mér að segja: Hvað er að ske? Hvað er að gerast? Hvað er um að vera?
Annars er engu líkara en að merking sagnarinnar að gerast sé óljós í hugum sumra Íslendinga. Eitt sinn fól ég fyrrnefndum bekk að leiðrétta setninguna hvað skeði fyrir Helgu? Ég hafði heyrt marga úr hópnum nota sögnina á þennan hátt en hélt að það væri merki um tískusveiflu í málfari eða kannski kæruleysi. Það runnu þó á mig tvær grímur þegar ég sá að meirihluti barnanna var sammála um að rétt útgáfa af þessari setningu hlyti að vera hvað gerðist fyrir Helgu?
Leiðréttum þessi ósköp hjá börnum og unglingum. Kennum þeim að nota sögnina að gerast á réttan hátt. Hvetjum þau til að segja hvað kom fyrir Helgu? eða bara hvað gerðist?