X

Fram, fram, aldrei að víkja

Þegar stóra Vantrúarmálið gegn Bjarna Randver kom upp, langaði mig að skrifa um það. Samúð mín var með Vantrú. Það varð ekkert af því að ég skrifaði pistil um málið, enda voru Matthías Ásgeirsson og Harpa Hreinsdóttir greinilega einfær um að halda umræðunni um þetta eina mál gangandi og rúmlega það, ekki vikum saman heldur í margamarga mánuði og svo enn fleiri mánuði. Ég hafði engu við að bæta og efast um að þeir séu margir sem hafa úthald til að lesa öll samskipti Matta og Hörpu gaumgæfilega.

Ég hef mikla samúð með baráttu Vantrúarmanna gegn trúboði og gagnrýnislausri umfjöllun um gervivísindi. Ég er oftast sammála þeim skoðunum sem settar hafa verið fram í nafni Vantrúar. Mér finnst þeir sem súpa hveljur yfir hranalegum yfirlýsingum Matthíasar Ásgeirssonar yfirleitt ekkert kurteisari en hann, þótt þeir vefji útúrsnúninga og persónulegar árásir í umbúðir, og reyndar efast ég um að samfélagsumræða eigi endilega alltaf að vera kurteisleg. Það er algerlega fráleitt að tala um að Vantrúarfólk hafi ráðist gegn akademisku frelsi Bjarna Randvers með því að skjóta málinu til siðanefndar.  Það er eitthvað gruggugt við afstöðu háskólafólks til akademísks frelsis, ef það flokkast sem ofsóknir að nýta ferli sem er sérstaklega til þess ætlað að fá úr því skorið hvort kennari hefur gerst sekur um ófagleg vinnubrögð og má einu gilda hversu mikla andúð kærandinn hefur á viðkomandi kennara.

Kærunni til siðanefndar var vísað frá. Háskólakennarar eru samkvæmt því í fullum rétti með að líkja gagnrýni á kirkjuna við gyðingahatur. Þeir sem vilja nýta stöðu sína til þess að útmála grasrótarhreyfingar sem herskáa öfgamenn undir yfirskini vísinda, þurfa því ekki að hafa áhyggjur af akademisku frelsi sínu. Þessi niðurstaða vekur margar spurningar, t.d. hvort kennari í stjórnmálafræði sé þá ekki líka frjáls að því að fjalla um Samtök hernaðarandstæðinga sem ofstækisfulla kommúnistahreyfingu og líkja hörðum dómum þeirra um Nató við gyðingaofsóknir.

Vantrúarmenn voru í fullum rétti með að kæra Bjarna Randver til siðanefndar. Leiða má rök að því að það flokkist sem þjófnaður að afrita gögn af lokuðu vefsvæði og þeir eru líka í fullum rétti með að fá úr því skorið hvort sú túlkun stenst. Rétt eins og hver sá sem telur að sér vegið með ruddalegu orðfari er í fullum rétti með að kæra Matta í Vantrú fyrir ærumeiðandi ummæli. Ég hef þó litla trú á að nokkur myndi vinna slíkt mál gegn Matta enda í langflestum ef ekki öllum tilvikum um gildisdóma að ræða. Tjáningarfrelsið á Íslandi er sem betur fer nógu mikið til að þeir sem taka þátt í opinberri umræðu verða að vera menn til að taka móðgandi ummælum.

Á sama hátt þarf engum að koma á óvart þótt lögreglan vísi þjófnaðarkærum Vantrúar frá.  Hvað sem líður orðabókarskilgreiningu á þjófnaði, tekur réttarkerfið tillit til þess hvaða tilgang hinn brotlegi lagði upp með. Ég hygg að flestir hafi skilning á því að maður sem verður var við verulega neikvæða umræðu um einstakling sem er honum kær, hafi fyrir því að afrita umræðuna og koma gögnum til þess sem í hlut á. Ekki síst ef fyrir koma ummæli sem má túlka sem áform um að gera honum verulega skráveifu.

Ég skil vel að Vantrúarmenn séu ósáttir við niðurstöðu siðanefndar. Í hina röndina finnst mér Vantrú minna dálítið á naut í flagi og ég efast um að það sé hreyfingunni til framdráttar að halda málinu áfram með ásökunum um þjófnað á trúnaðargögnum.

Sjálfsagt er þetta prinsippmál, Vantrú er ekki í neinni vinsældasamkeppni og það er nú eitt af því sem ég kann að meta við þetta félag. En ef prinsippið er svo mikilvægt, þá ættu meðlimir Vantrúar heldur ekki að móðgast þótt þeir séu kallaðir ofstækismenn. Því satt að segja; þegar átök grasrótarhreyfingar við einstaklinga fá meira vægi en markmið hennar og hugmyndafræði; þegar það er orðið prinsipp að leyfa andstæðingnum aldrei að halda haus og hreyfingin keyrir áfram á viðhorfinu fram, fram, aldrei að víkja; þá þurfa meðlimir hennar ekkert að undrast það að vera álitnir herskáir.

 

Categories: Allt efni Pistlar
Eva Hauksdóttir:

View Comments (19)

  • Eftir þessi miklu og nánu samskipti finnst mér næstum eins og hann Matti sé sonur minn ... týndur :)

  • Mér fannst það aldrei koma skýrt fram hvað það var sem Bjarni Randver gerði sem fór svo fyrir brjóstið á Vantrúarmönnum. Það var vísað í glærur en ég sá ekkert ærumeiðandi á þessum glærum. Var það frekar eitthvað sem hann sagði þegar hann fór yfir glærurnar? Veit einhver nánar hvað var sagt/skrifað sem olli þessum viðbrögðum hjá Vantrú?

    (p.s. ég er ekki með neinum í liði, er bara forvitin hver uppsprettan var þar sem ég gat aldrei fundið það út á sínum tíma).

  • Það var ýmislegt sem fór fyrir brjóstið á okkur og það kemur flest fram í umfjöllun okkar.

    1. Bjarni Randver safnar saman sundurslitnum brotum í okkur til að mála af okkur tiltekna mynd.
    2. Bjarni Randver slítur tilvitnanir í okkur í sundur og breytir merkingu þeirra
    3. Hann segir ragnlega að við höfum kallað nafngreinda einstaklinga vissum nöfnum
    4. Hann segir að málflutningur okkar sé vatn á myllu haturshreyfinga sem ógna minnihlutahópum svosem gyðingum.

    Þetta fjórða á miklu frekar við um ríkiskirkjuna og aðrar kristnar hreyfingar heldur en Vantru.

    Stuðingnsfólk Bjarna heldur því fram að ekkert sé að marka glærurnar. Sérfræðingar í kennslufræðum hafa haldið öðru fram.

    ps. Eva - viltu ekki færa Facebook athugasemdir af forsíðunni hjá þér. Forsíðan er gríðarlega þung í vinnslu þar sem Facebook er að sækja haug af athugasemdum. Nær að hafa athugasemdirnar bara á greinasíðunni sjálfri.

    • Takk fyrir ábendinguna Matti. Ég setti fb kerfið inn af því að flest komment á pistlana mína koma á fb og ég vonaði að ef fólk ætti kost á fb kommentum kæmu athugasemdir frekar inn á bloggið. En það virðist ekki virka þannig.

  • Og ég hef engin samskipti átt við Hörpu. Ég hef gert tilraunir til að leiðrétta rangfærslur með engum árangri. Manneskjan hefur engan áhuga á hinu sanna í málinu og gerir ekki minnstu tilraun til að vera heiðarleg í málflutningi. Ég er svosem vanur að fást við fólk af þessu tagi en það verður ekkert skemmtilegra fyrir það.

  • Örfáar athugasemdir við svar Matta við spurningu Sonju:

    1. Glærur eru alltaf "sundurslitin brot" - nema kannski hjá aulum í kennslufræði. Glærur eiga nefnilega að birta punkta til stuðnings því sem fjallað er um í kennslustund eða fyrirlestri.
    2. Bjarni Randver sagði aldrei að málflutningur félagsins Vantrúar væri "vatn á myllu haturshreyfinga" o.s.fr. Þetta orðalag kemur fyrir á glæru þar sem punktuð er niður helsta gagnrýni á Dawkins og fylgjendur hans. Heimildir fyrir þeirri gagnrýni eru að mestu erlendar og félagið Vantrú er líklega ekki þekkt utan landsteinanna. Þess utan lýsti kennarinn sig aldrei sammála gagnrýnispunktunum, raunar var glæran ætluð til að kveikja umræðu nemenda.
    3. "Sérfræðingar í kennslufræði" [Matthías á eflaust við Ingvar Sigurgeirsson, Gerði G. Óskarsdóttur og Guðmund Heiðar Frímannsson] hafa ekki haldið því fram að eitthvað sé athugavert við þessar glærur, þetta fólk hefur einfaldlega ekkert tjáð sig um glærurnar.

    ---------
    Svo er ég sammála ábendingu Matthíasar um að forsíða bloggsins þíns, Eva, sé mjög þung í vinnslu, væntanlega af þeim orsökum sem hann tilgreinir.

    P.S. Matti: Þegar þú kemur og heimsækir mig í kjötheimum, eftir hin nánu kynni okkar í netheimum, mun ég slátra alikálfinum :)

  • > Bjarni Randver sagði aldrei að málflutningur félagsins Vantrúar væri “vatn á myllu haturshreyfinga” o.s.fr. Þetta orðalag kemur fyrir á glæru þar sem punktuð er niður helsta gagnrýni á Dawkins og fylgjendur hans.

    Og hverjir eru fylgjendur Dawkins? Vísbending: Bjarni Randver hafði notað nokkrar glærur í sömu glæruröð til að tengja Vantrú við Dawkins.

    > "Þess utan lýsti kennarinn sig aldrei sammála gagnrýnispunktunum"

    Í greinargerð sinni ítrekar kennarinn þvert á móti að þetta sé niðurstaða hans.

    Vissulega birta glærur "punkta", en ég er að tala um svona tilvitnanir:

    > "Gagn þunglyndislyfja er vel sannað og þau eru almennt örugg og þolast vel"

    Harpa Hreinsdóttir á bloggsíðu sinni, 9. október 2012.

  • Takk, takk fyrir svörin. Þar sem ég bý erlendis er oft erfitt að fá góðar upplýsingar um mál líðandi stundar á Íslandi.

    Þetta er greinilega vandmeðfarið mál. Það er ómögulegt að sjá samhengi fyrirlesturs af glærusafninu einu saman. Í kennslustundinni er allt eins líklegt að kennarinn hafi sagt að einhver tiltekin ummæli séu ekki dæmigerð fyrir boðskapinn, etc. etc. Það er líka erfitt að fjalla um samtímamál í háskólafyrirlestri. Ekki er hægt að ætlast til að háskólakennarar/prófessorar biðji núlifandi einstaklinga um leyfi fyrir að fjalla um þá í tímum eða um fyrirframgefið samþykki fyrir umfjöllun. Það myndi brjóta á bak hið akademíska frelsi. Á hinn bóginn er hægt (og ætti) að ætlast til þess að í Háskólanum fari fram málefnaleg umræða þar sem mismunandi sjónarmið koma fram óháð persónulegrar skoðunar viðkomandi kennara/prófessors.

  • Athyglisvert þykir mér, Eva, hvernig þú talar hér um Vantrú nánast sem eigandafélag eins manns. Ef til eftirmála kemur vegna Stóra Vantrúarmálsins og félagið yrði t.d. kært vegna eineltis til einhverra opinberra aðila, þá gerir þú þér væntanlega grein fyrir því að það yrðu þeir formenn Vantrúar, sem lögðu inn kærurnar, sem fengju að taka skellinn, þ.e. Reynir Harðarson og Egill Óskarsson, en að sá sem þú nafngreinir hvað eftir annað gengi hvítstrokinn frá öllu saman?

  • Eva, taktu eftir því hvernig Helgi Ingólfsson hefur hagað sér í þessu máli. Finnst þér framganga hans eðlileg?

    http://www.orvitinn.com/2011/12/21/14.00/

    > ". Í kennslustundinni er allt eins líklegt að kennarinn hafi sagt að einhver tiltekin ummæli séu ekki dæmigerð fyrir boðskapinn"

    Það gerði hann alls ekki og vörn hans gekk reyndar öll út á sömu vinnubrögð. Þannig er ítarleg greinargerð hans í málinu stútfullt af sambærilegum vinnubrögðum.