Setjum sem svo að þú lendir i mjög dramatískum aðstæðum. Vítisenglar hafa umkringt heimili þitt, og hóta að ráðast til inngöngu án þess að gefa neinar skýringar. Einhver úr fjölskyldunni er horfinn og þú hefur ekki hugmynd um hvort það tengist umsátursmönnunum. Forvitna nágranna drífur að en þar sem allt tiltækt lögreglulið er niðri á Austurvelli að verja Alþingishúsið gegn trylltum skrílnum, lítur út fyrir að þess verði langt að bíða að löglegir ofbeldismenn komi þér til hjálpar. Þú ert mjög reið(ur) og mjög hrædd(ur) og veist í rauninni ekkert hvað þú átt til bragðs að taka.
Myndir þú í slíkum aðstæðum, treysta sjálfum/sjálfri þér fyrir skotvopni? Myndirðu halda nógu mikilli ró og nógu skýrri hugsun til að beita vopni aðeins til að verja líf og limi eða er hætta á því að þú skytir jafnvel á saklausan nágranna þinn í geðshræringunni?