Í breskum kvikmyndum sést stundum lykkjufall á sokkabuxum, svitablettur í skyrtu og fólk grætur með grettum, verður þrútið í framan og snýtir sér. Dásamleg tilbreyting frá marenstertu og kappakstursveruleika Kanans.
Búin að sjá tvær, hreint dásamlegar báðar og ætla að sjá þær allar. Semsé pasta og grjónagrautur út september; stór kostur við einlífið að þurfa ekki að rífast um forgangsröðina.
Af hverju í fjáranum eru ekki annars seld afsláttarkort á svona viðburði? Þú borgar þig inn á 6 myndir, færð þá 7. frítt eða 15% afsláttur ef þú kaupir 2 miða á allar myndirnar eða eitthvað í þá veru? Ég er viss um að það eru fleiri en ég sem vilja sjá þær allar en það kostar sitt að fara í bíó 9 sinnum á 2 vikum og áreiðanlega margir sem hafa ekki efni á því, hvað þá að fara með alla fjölskylduna.