Í Tónlistarþróunarmiðstöðinni er framin tónlist sem ég þekki ekki, skil ekki, fíla ekki, hlusta ekki á og ætla aldrei að hlusta á. Tónlist sem viðkvæmasta fólkið í viðkvæmasta aldurshópnum hefur eignað sér. Djöflagangurinn sem fram fer í TÞM er ekki bara einhver bóla heldur heill menningarkimi sem krefst ákveðinna aðstæðna sem eru hvergi annarsstaðar fyrir hendi, allavega ekki í Reykjavík. Setjum sem svo að á Íslandi væri aðeins eitt hús þar sem hægt væri að spila fótbolta án þess að það leiddi til borgarastyrjaldar. Dytti nokkrum heilvita manni í hug að ríki og sveitarfélögum bæri ekki siðferðileg skylda til að halda því gangandi?
Hvað ætla menn að gera til að koma í veg fyrir að ca 50 fokreiðar hávaðahljómsveitir komi sér fyrir í illa einöngruðum bílskúrum í íbúðahverfum? Segja þeim að fara bara að spila fótbolta í staðinn? Eða reyna að komast inn í Synfó? Einhverjir ungu tónlistarmannanna munu eflaust valda nágrönnum sínum ómældum taugatirtingi ef TÞM verður lokað en sennilega fá ekkert allar þessar hljómsveitir húsnæði. Einhverjir munu einfaldlega finna sköpunarþrá sinni aðra útrás. Það verður ekki í gegnum KFUM.