Þessi færsla er hluti af pistlaröð
Í fyrri pistum hef ég rætt helstu ástæðurnar fyrir því hversvegna samræður trúaðra og trúlausra ganga svo illa. Það er útilokað að við verðum nokkurntíma sammála svo hversvegna halda trúleysingjar uppi umræðu um trúmál? Ég lýk þessari röð á tilraun til að svara þeirri spurningu.
Trúin boðar vondar hugmyndir
Þegar fólk neitar að þiggja blóð eða aðra læknisaðstoð af trúarlegum ástæðum ofbýður mér. Ég vil ekki að gamlar kreddur komi í veg fyrir að fólk treysti vísindalegum niðurstöðum læknarannsókna og bíði jafnvel bana fyrir vikið. Það er vanþekkingin sem trúin viðheldur sem veldur andúð á henni. Sama hugsun einkennir þá sem vilja uppræta galdratrú. Nákvæmlega sama hugsun einkenndi kristnu vísindamennina sem börðust gegn trú Íslendinga á Heklu sem inngang helvítis. Þeir vildu ekki að ranghugmyndir kæmu í veg fyrir að hálendið yrði kannað og þeir vildu ekki halda fólki í tilefnislausum ótta eða trú á ævintýraverur.
Það er m.a. af þessum ástæðum sem trúlausir standa yfirhöfuð í því að rökræða við fólk sem ræðir málin ekki út frá rökum, heldur einhverju öðru sem er okkur óskiljanlegt; vegna þess að stundum er trú beinlínis skaðleg og jafnvel þegar hún er það ekki er hún áhugaverð, rétt eins og trúin á Loch Ness skrímslið. Allar stranda umræðurnar þó á því sama, guðshugmyndinni sjálfri.
Ef trúmenn hafa í alvöru áhuga á rökræðu:
Trúmenn virðast oft álíta að þegar trúleysingjar reyna að halda uppi umræðu um trúmál sé ástæðan ýmist blint hatur á trúuðum eða sú að „innst inni“ séum við ákaflega leitandi og viljum endilega láta sannfæra okkur. Ég held að hvorttveggja sé sjaldgæft. Við ræðum trúmál vegna þess að við höfum andstyggð á því vonda siðferði og þeirri andvísindahyggju sem einkennir trúna.
Kæru trúmenn. Þegar þið segið við mig “já en gerum nú samt ráð fyrir að guð sé til” þá er það alveg eins og að segja “gerum samt ráð fyrir að þríhyrningur sé í raun með fjögur horn”. Ég get samþykkt hugmyndina upp á grín, dálitla stund en ég get ekki trúað henni. Ekki biðja mig um eitthvað sem er mér ómögulegt, útskýrið frekar.
Ef þið viljið ræða trú af skynsemi, þá verðið þið að færa fram einhver skynsamleg rök fyrir guðshugmyndinni. Annars eru þessar umræður fyrirfram dæmdar til að fara út í persónulega rimmu. Ég óska því, í fullri einlægni, án þess að hafa nokkra löngun til að gera lítið úr trú ykkar, eftir skynsamlegum, röklegum skýringum á Guði. Ég nefnilega skil ekki hvernig þig hugsið og get ekki talað við ykkur af viti um eitthvað sem ég skil ekki.