Betri tíð

Það er engu líkara en að heppnin hafi ákveðið að leggja mig í einelti.

Fyrst lendi ég í vinnu hjá manni sem á einmitt leiguíbúð sem hentar mér, á frábærum stað. Svo fæ ég brilliant hugmynd um það hvernig ég get auglýst bókina mína með lágmarks vinnu, lágmarks kostnaði og án þess að þurfa að leika sölumann. Halda áfram að lesa

Bloggið virkar!

Í dag hringdi í mig maður. Sagðist lesa bloggið mitt og að hann hefði hugsanlega aukavinnu handa mér. Hún fælist í því að smíða rafeindabúnað.

Ég hélt fyrst að þetta væri einn hálfvitinn enn – menn sem lesa bloggið mitt eiga til að senda mér tölvupóst með ýmsum undarlegum ráðleggingum – svo ég hnussaði bara eitthvað um að ég væri ekki rafvirki. Hann baðst afsökunar og kvaddi.

Ég áttaði mig á því um leið og sambandið rofnaði að ég hafði ekki einu sinni gefið því séns að þetta væri eitthvað athugunarvert. Það er út af fyrir sig gaman að vita að ókunnugir lesi bloggið mitt og ég hafði bara verið truntuleg við hann. Ég hringdi í hann (þökk sé tæknivæðingunni fyrir gemsa með innbyggðum símanúmerabirti) og það kom í ljós að hann er uppfinningamaður en ekki hálfviti.

Hann segir að það sé ekkert flókið að smíða rafeindabúnað, þetta sé bara föndur sem maður geti unnið við eldhússborðið heima hjá sér og að verkfærin og allt dót sem tilheyrir komist fyrir í einum pappakassa. Hann ætlar að koma við hjá mér á morgun og kenna mér það sem þarf til.