Heimsyfirráð eða dauði

Atli Haukur: Ég stefni á að ná heimsyfirráðum.
Frænka: Nújá? Og til hvers?
Atli Haukur: Til að koma í veg fyrir að einhver annar geri það.
Frænka: Og hvað ætlarðu svo að gera við heiminn þegar þú ert búinn að ná alræðisvaldi.
Atli Haukur: Bara láta hann í friði.

Frændi minn er 16 ára og viturri en allar ríkisstjórnir veraldar samanlagt.

Í fótnum

Júlíus: Er Stulli keyrður?
Jói: Nei, hann fer ekki til vinnu í dag, útaf hann hefur vont í sínu beini.
Frænka: Honum er illt í fætinum.
Jói: Nú? Ég hélt hann hefði bara vont í einum fótnum. Hefur hann vont í tvem?

Ísdanska

Frænka: Jói minn, ætlar vinur þinn að borða með okkur?
Jói: Nei, hann verður bráðum náður í af pabba sínum.

Frænka: Viljiði hafa rauðuna lina eða á ég að steikja eggin báðum megin?
Dana: Hanne vill gjarnan hafa það snúið.
Jói: Ég vil ekki ost á mitt brauð og ég átti að spyrja hvis þú getur leggjað enga kartöflu á Atlas disk.

Stuttu síðar þegar við sitjum við matborðið fær Bjartur hóstakast.
Júlíus: Hefur þú vont í hálsinum Bjartur?
Hulla: Bjartur minn, ég er búin að segja þér að fólk á að hvíla sig þegar það er þreytt og fara til læknis þegar það er veikt. Ég er viss um að ef þú að leyfir mér að stjórna þér í hálfan mánuð þá færðu það betur.

Morðæði í eldhúsinu

Við stóðum í eldhúsinu þegar Júlíus kom fram á öðru hundraðinu með flugnaspaðann á lofti og sveiflaði honum vígalega í átt að nætufiðrildi sem reyndist hraðfleygara en ætla mætti. Fiðrildið flögraði undir eldhússgardínuna og andartaki síðar var Júlíus kominn upp í eldhússvaskinn, hékk í gardínustönginni og bandaði spaðanum undir gluggatjaldið. Halda áfram að lesa

Útlit er til alls fyrst

563274_10151309018827963_1807554242_nÁhrif Saving Iceland koma fram á undarlegasta hátt. Ég sé t.d. að Davíð Oddsson er búinn að taka upp hártískuna sem er ríkjandi hjá þeim virkustu. Eins og lopahönk hafi verið klesst á hausinn á honum. Mikið vildi ég að hann tileinkaði sér viðhorfin líka.

Kornflex vikunnar

Byltingin: Mamma, má ég fá blómavír hjá þér?
Mamman: Alveg sjálfsagt.
Byltingin: Heyrðu, hvað heldurðu að Össur Skarphéðinsson sé þungur?
Mamman: Ég hef nú bara ekki vigtað hann nýlega, af hverju ertu að spá í það?
Byltingin: Ég er bara að spá í hvort þrefaldur blómavír haldi honum.

Krísa

Mig langar að steikja kjötbollur. En ekki borða þær.
Brjóta saman þvott. En það sem á annað borð er hreint er samanbrotið.

Setja niður kartöflur. En það er ekki hægt.
Þrátt fyrir sýnilega sumarkomu er skítkalt úti og frost í jörð.

 

Lærlingurinn les í rúnir fyrir Dindilhosu:

Lærlingurinn: Og framtíðarrúnin er Fé. Það merkir að þótt þú hafir góðar tekjur í sumar verður þú að fara vel með þær. Þú átt ekki að eyða öllu, heldur finna leið til að láta peningana þína blómstra.
Dindilhosan: Hvernig blómstra peningar?
Lærlingurinn: Eins og kindur.

Það skyldi þó aldrei vera

Lærlingurinn: Ég held að konur fái eitthvað sérstakt kikk út úr því að þrífa.
Nornin: Við fáum kikk út úr því að hafa hreint í kringum okkur, ekki út úr því að þrífa.
Lærlingurinn: Jú, ég held að þið fáið kikk út úr því. Þú ert t.d.rosalega einbeitt með kúst og tusku.
Nornin: Mmmphrfmp. Þú ert ekki svo vitlaus. Ég drep náttúrulega skít. Það er ákveðið kikk fólgið í því að drepa.
Lærlingurinn: Ég held að ríki þögult samkomulag á milli kynjanna. Karlinn fær útrás fyrir kynhvötina og í staðinn fær konan að þrífa.

Í alvöru

Seyðkonan: Það er æðislegur maður að vinna þar. Ég meina æðislegur, þú veist, í alvöru æðislegur. Svo er líka annar en hann er svona meira eins og fyrir þig.

Jamm. Það er harla ólíklegt að við eigum nokkurntíma eftir að slást út af karlmanni.