Leiðindi

Byltingin er að vinna á Sólheimum, Jarðfræðingurinn að undirbúa ráðstefnu, Pysjan í Danaveldi, Lærlingurinn á Ítalíu, Anna á Spáni, Elías – það er nú eins og það er og Ljúflingur farinn heim að fóðra tíkina.

Ég hef andskotans yfirdrifið nóg að gera en nenni engu af því.

Mér leiðist.

Ég fann síðast fyrir þessari tilfinningu í ágúst árið 2000. Þá var ég fangavörður á Litla Hrauni. Leiðindin komust á alvarlegt stig en ég læknaði sjálfa mig af þeim með því að stofna til ástarsambands við einn fanganna. Það var ekki gott mál að leiðast of lengi.

 

 

Sellofan

-Hvernig þekkirðu þennan mann? spurði Lærlingurinn.
-Gömul silkihúfa, svaraði ég.
-Draugur?
-Já. Hann skýtur upp kollinum einu sinni á ári eða svo.
-Draugur sem droppar inn og býðst til að sverma fyrir viðskiptasamböndum. Það er athyglisvert. Heldurðu að sé einhver alvara á bak við það eða er hann bara að vesenast eitthvað til að hafa afsökun fyrir því að nálgast þig?

Það er nú það. Ég veit það ekki og eiginlega er mér sama. Það kemur allt í ljós. Heppnin á það til að bregða sér í dulargervi og þegar allt kemur til alls virka galdrar ekkert verr þótt þeim sé pakkað í sellófan. Þeir seljast hinsvegar betur.

Silkihúfa.
Kannski sellófanhúfa.
Mikið vildi ég að hann Elías drifi nú í því að barna einhverja huggulega lesbíu.

 

Hvað er tröll nema það?

-Er hann þá loksins farinn?
-Það lítur út fyrir það.
-Eva. Sorrý að ég skuli skipta mér af þessu en ólíkt fólk rennur stundum saman í eina persónu á blogginu þínu. Stundum veit ég ekki hvort þú ert að skrifa um mig, Elías eða einhvern annan, sagði hann og hljómaði eins og eitthvað væri athugavert við það.
Halda áfram að lesa

Páskafrí útrunnið

Notaði páskana til að þrífa hólf og lakka gólf. Gerði reyndar líka fleira, fór t.d. á leiksýninguna „Epli og eikur“ hjá Hugleik, alltaf gaman að þeim. Fór í mat á Selfoss til pabba og Rögnu á föstudaginn langa. Prísa mig sæla fyrir að vera ekki í mat hjá Rögnu á hverjum degi því það væri vís leið til að koma mér upp krónískri átfíkn. Ég er ennþá södd en reyndar gætu kjúklingabringurnar sem Sigrún eldaði ofan í mig í gær og keisaralega páskaeggið sem Stefán færði mér frá útlandinu haft einhver áhrif. Fyrir nú utan allar kaloríurnar sem Elías er búinn að troða í mig en hann hefur reyndar líka lagt sitt af mörkum til að láta mig brenna þeim aftur og það fannst mér nú skemmtilegt.

Þótt sé góð tilbreyting að hafa búðina lokaða og dunda bara við að lakka og þrífa er samt varla hægt að kalla það páskafrí. Ég er ákveðin í því að taka mér frí fyrstu helgina í júní. Svona alvöru frí, fara burt heila helgi. Ég veit reyndar ekkert hvert ég ætla. Nenni varla austur fyrir svona stuttan tíma en þar sem ég verð þá flutt í kjallarann á Vesturgötunni, kemur ekki til greina að vera heima í því fríi.

 

Eitt hugs um staðfestingar og fordóma

Fyrir tæpu ári trúði ég því að dömuskór í mínu númeri væru einfaldlega ófáanlegir nema kannski í Kolaportinu, notaðir með snúnum hæl úr einhverju dánarbúinu. Ég leitaði og leitaði, spurði og spurði, réðst á litlar gular konur á götu og yfirheyrði þær um skókaup sín (þær fá sína skó senda frá Thailandi) hringdi út um allar trissur og bað alla sem ég þekkti að hafa augun opin. Halda áfram að lesa

Endurskoðun

Ég komst að niðurstöðu og það var góð niðurstaða og skynsamleg og rétt líka. Rómantísk ást er ónauðsynleg og oftar en ekki til óþurftar.

Ég kastaði ástargaldri og pantaði þægilegan mann, ekki alkóhólista, sem yrði góður við mig og kynni á borvél. Hann gaf sig fram og ég íhugaði alvarlega að slá til. Þar sem ég sýndi honum engan kynferðislegan áhuga (það virðist vera pottþétt leið til að gera karlmenn ástfangna)varð hann bálskotinn í mér og því meiri almennilegheit sem hann sýndi mér, því hrifnari varð ég af Elíasi, sem kæmi ekki undir nokkrum kringumstæðum til greina sem lífsförunautur. Halda áfram að lesa

Annarskonar nánd

Elías þekkir líkama minn. Svo langt sem það nær.

Hann þekkir lyktina af mér, snertinguna við hörund mitt, hreyfingar mínar. Hann veit í hvaða stellingu mér finnst best að sofna. Hann þekkir viðbrögð mín við ýmsiskonar áreiti. Hann veit reyndar ekki hvað mér finnst óþægilegt því það hefur aldrei reynt á það en hann veit hvenær er líklegast að mig kitli, hvað kemur mér til og hvers konar snerting mér finnst notaleg. Halda áfram að lesa

Uppdeit

Það er ekki endilega samhengi á milli fréttagnægðar og bloggafkasta. Sem stendur eru aðstæður á þessa leið:

-Sveitamaðurinn er farinn til Danaveldis að smíða minkabúr, Byltingunni til mikillar armæðu. Sagt er að prinsinn brosi hringinn í Baunalandi og hafi aukið orðaforða sinn úr já og nei í jahá, jájá og neeejneii.

-Byltingin er búin að stinga anarkistabibblíunni í bakpoka ásamt hreinum sokkum (ósamstæðum) og tannbursta og hyggst halda austur á land í dag, til að uppræta framkvæmdir við Kárahnjúka eða í versta falli að kalla aldalanga bölvun yfir útsendara Landsvirkjunar.

-Elías truflaði ástargaldurinn minn, en nú er fullt tungl í nótt og mun ég þá gera aðra tilraun. Ennfremur mun ég kalla minniháttar bölvun yfir forkólfa Bílastæðasjóðs. Ekkert rosalegt samt. Bara svona sýnishorn af bölvun eins og t.d. að finna langt svart hár í matum sínum eða að reka við með miklum fnyk og látum í viðurvist fagurra kvenna.

Sniff

Æ Elías.

Hjartað í mér sýgur alltaf pínulítið upp í nefið þegar hann fer en kommonsensinn er verulega ánægður.

Og daginn eftir kemur sæti sölumaðurinn í Nornabúðina og spyr hvort ég eigi galdur til að hætta að reykja.

Meðan hárið er að þorna

Mér líður illa í mannþröng en magadansstelpurnar voru samt þess virði. Helga Braga eins og sveitt fjósakona innan um þessa álfakroppa. Fóstbræður fara henni betur. Kræst hvað mig langar á fleiri námskeið. Ég á m.a.s. nýtt peningabelti sem ég hef aldrei notað.

Hendurnar á okkur eins og frostpinnar, svo við fórum inn á kaffihús og eftir aðeins 40 mínútna setu lykta ég eins og skítahaugur. Fallegi kjóllinn minn sem ég var að nota í fyrsta sinn, kápan, nærfötin og hárið á mér. Frekar írónískt að augnrennsli, andnauð og óþefur skuli vera helstu merki þess að maður hafi orðið fyrir aðkenningu að félagslífi.

En sótthreinsun er lokið og Elías á leiðinni. Yndislegt að þekkja einhvern sem getur deilt með manni rúmi án þess að reka kjánaprikið á sér utan í mann í tíma og ótíma. Ég þarf að vinna minnst 6 tíma á morgun og hef ekki fengið frídag síðan um páska en skuldastaðan stefnir líka hraðbyrði í kökusneið. Handrit að rúnabók tilbúið. Meðvirkni minni við margháttaðri geðsýki hér með lokið. Matarboð annað kvöld.

Þetta eru góðir dagar.