Högg

Smíða bát með leynivini mínum úr barnaskóla. Andans fley. Hann stýrir verkinu, ég ber lím á trékubbana en hann neglir.
Birta: Taktu hamarinn af honum!
Eva: Í guðsbænum láttu mig nú í friði. Ég er að reyna að leika við hann Halla Gulla og þetta er fínt svona.
Birta: Þú getur alveg svissað hlutverkunum án þess að hann fatti það.
Eva: Já áreiðanlega, en til hvers? Hann ræður alveg við þetta, áreiðanlega betur en ég. Halda áfram að lesa

Ég þjáist

_____________________________________________________________________

Ég þjáist, þessvegna er ég glöð. Eða kannski bara; þessvegna er ég.

-Hinir mestu menn hafa þjáðst hvað mest.
-Þjáningin er þroskandi.
-Ef ekki væri fyrir þjáninguna fyndum við ekki fyrir gleði.

Blablabla, mikið dæmalaust ógeð hef ég á þessum bullyrðingum.

Mestu úrhrök veraldarinnar hafa glímt við harm og vandamál ekkert síður en mannkynslausnararnir. Einstaka mikilmenni kemst kannski hjá því að láta endalausar þjáningar gera sig að skrímsli en mun líklegra er að illviðráðanlegrir erfiðleikar skaði fólk en bæti. Ef eymd og kvalræði er þessi stóri lykill að hamingjunni sem margir hálfvitar staðhæfa, hversvegna í fjandanum reynir fólk þá ekki unnvörpum að losa sig við allar veraldlegar eigur sínar og verða sér úti um HIV smit? Og ef þjáningar væru í alvöru þroskandi myndu foreldarar þá ekki fagna því þegar börnin þeirra eru lögð í einelti?

Hef ég þjáðst? Fokk já. Stundum þjáist ég svo ákaflega að ég er í rauninni hissa á því að hjartað í mér skuli ekki löngu hafa gefið sig. Ég hef grenjað þar til ég fékk sár í kringum augun. Ég hef þjáðst af nagandi samviskubiti yfir hlutum sem ég bar enga ábyrgð á og hafði enga möguleika til að hafa áhrif á. Ég hef kvalist af útlitskomplexum (ef þið skoðið myndina af mér hér til hægri sjáið þið væntanlega þennan ofvöxt í nefinu á mér). Ég hef komið mér upp óbærilegri ástarsorg út af mönnum sem höfðu það helst til síns ágætis að vera ekki með flatlús. Ég hef þjást af trúarkrísu og tilvistarkreppu, hæfileikaskorti og hefnarfýsn. Einu sinni braut ég nögl. Það var mjög erfiður tími.

Ég viðurkenni að það er vegna allra þessara þjáninga sem ég finn iðulega til djúprar hamingju og innri friðar. Ég geri mér grein fyrir því að ef mér hefði aldrei liðið illa væri ég óhamingjusamur hálfviti en ekki þessi djúpsæja, þroskaða vísdómskona sem ég er í dag. EN, þetta eru þjáningar sem ég hef valið mér sjálf og get þessvegna auðveldlega losað mig við þegar ég er orðin leið á þeim.

Maðurinn hefur afgerandi hæfileika til að koma sér upp þjáningum. Við þurfum ekki sjúkdóma, slys, fátækt, stríð, náttúruhamfarir eða ofbeldi til þess að njóta gleðinnar. Þjáningarhvötin er svo samofin eðli okkar að jafnvel þótt við værum öll á sóma, fyndum við samt tilefni til að þjást.

Í alvöru talað, okkur er óhætt að uppræta stríð, fátækt, ofbeldi og sjúkdóma (og auðvitað álver) og halda áfram að leita leiða til að draga úr hörmulegum afleiðingum náttúruhamfara og slysa. Ef við verðum leið á því að liggja í tilvistarkreppu eða ástarsorg er alltaf hægt að kaupa sér júmbósamloku og finna sig gripinn réttlátri gremju yfir því að allt áleggið sé í haug í miðjunni. Það er fjandinn hafi það heilagur réttur þess sem pungar út 270 krónum að fá samloku sem er almennilega smurð.

_____________________________________________________________________

Tjásur:

Hey, hefurðu séð ranann á mér?

Posted by: Kalli | 16.01.2007 | 11:29:06

————————————————-

var eitt sinn viðstödd rifrildi tveggja gáfumanna (sem voru í mastersnámi í tónlist) um hvort listamenn gætu orðið almennilegir listamenn ef þeir hefðu ekki þjáðst. afar áhugavert.

ég hallast að því að menn geti orðið hreint prýðilegir listamenn án þess að hafa soltið heilu hungri eða verið lokaðir í haughúsinu tímunum saman.

Posted by: baun | 16.01.2007 | 12:00:16

————————————————-

Enginn velur sér þjáningu nema hann sé art fart….. Þjáningin er hins vegar óþolandi fyrirbæri sem á það til að birtast óboðin og mig langar að fá nánari leiðbeiningar hvernig hægt er að losa sig við rað-þjáningar þegar maður verður leiður á þeim. Danke. 🙂

Posted by: lindablinda | 16.01.2007 | 19:52:29

————————————————-

obbobbobb, færðu raðþjáningu Linda?

Posted by: baun | 16.01.2007 | 22:14:19

————————————————-

Öh… ég var auðvitað að meina nefið á mér. Svona í tengslum við það sem stóð í færslunni.

Fattaði ekki tvíræðnina fyrr en á eftir. Ég vil nú ekki verða einhver bloggdónakallsflassari.

Posted by: Kalli | 17.01.2007 | 4:24:38

————————————————-

Raninn á þér er semsagt ekki líklegur til að valda raðþjáningu?

Posted by: Eva | 17.01.2007 | 7:23:48

_____________________________________________________________________

Drög

Birta: Ég held að þú sért að leggja drög að vandræðum.
Eva: Æ, góða láttu mig í friði. Það er ekki eins og ég hafi verið að máta brúðarkjóla.
Birta: Nei, ætli þú mátir ekki bara dindilinn á honum. Og verðir svo steinhissa þegar þú kemst að því að ekkert annað í fari hans passar við þig. Ég sé alveg í gegnum hann get ég sagt þér, og þetta byrjar EKKI gæfulega.
Eva: Þú ert aldeilis athugul, ég tók ekki eftir neinu ógæfulegu.
Birta: Og þú ætlar bara að hundsa innsæi mitt? Dettur þér ekkert í hug að þetta bendi til þess að hann hafi eitthvað að fela?
Eva: Fjárans tortryggnin í þér alltaf hreint, hvað heldurðu að þetta eina smáatriði, EF það er þá rétt hjá þér, segi okkur um hann.
Birta: Ekki þetta atriði í sjálfu sér, heldur það að hann skuli ekki bara hafa sagt það hreint út. Af hverju er það feimnismál ef ekkert meira hangir á spýtunni?
Eva: Af því að fólk gengur út frá því sem vísu að ef þessi tiltekni kubbur er ekki í kassanum, hljóti pakkinn að vera gallaður. Sjáðu okkur, við spurðum ekki einu sinni, við reiknuðum bara með kubbnum.
Birta: Hann hlýtur þá að líta svo á sjálfur að hann vanti þennan kubb. Sárlega. Annars hefði hann leiðrétt okkur.
Eva: Jæja, segjum við kannski Pétri og Páli allt sem við skömmumst okkar ekki fyrir?
Birta: Nei en það er bara af því að fólk er fífl.
Eva: Flest fólk dæmir mann út frá yfirborðinu. Hann hefur enga ástæðu til að ætla að ég sé eitthvað öðruvísi og ég skil bara vel að hann nenni ekki að útskýra fyrir ókunnugri manneskju hluti sem þarfnast ekki réttlætingar. Auk þess getur vel verið að þér skjátlist. Ég var lengi að leita að bílastæði og túlkunargleði þín er ekki beinlínis í lágmarki þegar karlmenn eru annars vegar.

Birta: Kannski er hann líka áhættufíkill, þú sérð nú áhugamálin hans.
Eva: Jájá, það getur verið stórkostlega varasamt að reyna á skrokkinn á sér. Eða gæludýrahaldið, það er auðvitað mjög grunsamlegt að eiga kött.
Birta: Hann á nú ekkert bara kött.
Eva: Ég held ekki að hann sofi með hitt dýrið uppi í rúmi hjá sér.
Birta: Kannski er hann gjaldþrota laumureykingamaður og alveg á kafi í djamminu. Kannski hefur hann misst bílprófið vegna ölvunaraksturs.
Eva: Já, kannski. Kannski er hann líka keðjusagarmorðingi, hver veit?

Eva: Birta. Ertu búin að hleypa skrattanum úr sauðarleggnum?
Birta: You and me and the devil makes three.
Eva: Drottinn minn djöfull er ég orðin þreytt á að dragast með ykkur hvert sem ég fer.

Þá lagðist skrattinn í gólfið og tók traustataki í pilsfaldinn minn.

 

Skrattinn í leggnum

Hann brölti um í sauðarleggnum í nótt og tókst að hagga beininu, m.a.s. velta því nokkrum sinnum þannig að glumdi í gólfinu undir rúminu mínu. Þegar ég vaknaði í þriðja sinn, hótaði ég að sækja róðukross og fimmarmastjörnu og Ægishjálm ef hann hefði sig ekki hægan.
-Einhversstaðar verða vondir að vera, sagði hann.
-Gakktu þá í Sjálfstæðisflokkinn gerpið þitt, svaraði ég.
-Mig langar í karlmann! gargaði Birta. Kastaðu þessum skrattakolli fram af svölunum og sæktu strák í staðinn.
-Ef þú fengir að ráða myndirðu láta okkur éta allar kökurnar í bakaríinu,
sagði ég.
-Já en bara sætu kökurnarm ekki súrdeigsbrauðin og við færum EKKI í ruslagáminn til að sækja uppþornaðar kúmenkringlur.
-Þær eru nú samt hollari og það vill svo til að það er ég sem ræð þessu
sagði ég.
Þá hló Skrattinn í sauðarleggnum svo hátt að ég hélt að tappinn hrykki úr holunni.

Noj!

Birta: Mér lýst ekkert á þetta! Ég vil að þú hendir þessum helvítis síma í sjóinn.
Eva: Hættu þessari vitleysu.
Birta: Vitleysu! Hann var m.a.s. búinn að eiga við hann áður.
Eva: Hann hlóð símann fyrir okkur, svo við gætum notað hann strax. Og teiknaði á hann hjarta. Ég myndi nú bara kalla það ósköp sakleysislega umhyggju. Halda áfram að lesa

Bögg

Ég held að ráterinn minn og blogger séu í hörkufýlu hvor út í annan. Hvort sem ég fer í gegnum nýja trixið eða reyni að blogga á hefðbundinn hátt, verða færslurnar undarlegar útlits og mánudagsfærslan vill bara ekki birtast á blogspot þótt hún sjáist inni á blogger. Samt var hún búin að vera uppi í einn dag og ég var búin að fá viðbrögð við henni þegar hún bara hvarf!

Kannski er andi einhvers framliðins tölvunörds að ásækja mig.

Horfinn

Nú ertu horfinn. Í bókstaflegri merkingu. Þegar ég kastaði á þig Hulinshjálmi, var hugmyndin sú að þú hyrfir úr huga mínum, ekki sú að jörðin gleypti þig. Næst nota ég varnarstaf með.

Ég veit að þú lest bloggið mitt og þar sem þú svarar ekki tölvupósti (og ég veit því ekki hvort þú lest hann) ætla ég að birta skilaboðin hér. Halda áfram að lesa

Eintal

Eva: Mig langar í karlmann.
Birta: Jæja. Af hverju ertu þá ekki löngu búin að verða þér úti um einn slíkan?
Eva: Það bara vill mig enginn. Ég veit; þú verður að gera það. Ég vil að þú farir og finnir mann handa okkur eigi síðar en í hvelli.
Birta: Ég get ekkert fundið almennilegan mann nema hafa réttu græjurnar og það vill svo til að við eigum enga skó með pinnahælum.
Eva: Þetta er stórt og mikið vandamál. Þér hefur ekkert dottið í hug að leysa það bara? Halda áfram að lesa

Rafmagnskallinn

Haldiði að rafmagnskallinn hafi ekki bara komið einmitt þegar ég var að birta síðustu færslu. Þetta er greinilega galdrablogg. Hann aftengdi útiljósin og þar með fékk ég rafmagn í íbúðina innanverða. Hann ætlar svo að koma og laga þetta almennilega einhvern næstu daga. Mikill öðlingur, hefði áreiðanlega komið með mér til Bosníu ef ég hefði krafist þess. Eða allavega til Tálknafjarðar. (Einu sinni hélt ég að Tálknafjörður héti eftir fisktálknum en það er önnur saga.) Halda áfram að lesa

Morgundrama

Ástmögur minn kom ekki til dyranna eins og hann var klæddur þegar ég bankaði upp á kl 8:20 í morgun. Enda er hann prúðmenni og óvíst að viðkvæmar sálir á leið til vinnu hefðu tekið því með æðruleysi að þurfa að berja karlmennsku hans augum á stigaganginum svo árla morguns. Hann á ekki slopp og kom því fram þokkalega úfinn með handklæðisbleðil fyrir sínu allra helgasta. Halda áfram að lesa