Andvaka

Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum.
Birta: Andskotakornið. Ég var að vona að tappinn væri að losna úr Þvagleggnum.
Eva: Í alvöru, það er eitthvað í aðsigi, ég er með verk í hjartanu.
Birta: Kannski er það bara líkamlegt. Of mikið kaffi?
Eva: Nei, það er Skrattinn.
Birta: Við þurfum að sofa.
Eva: Við þurfum að troða tappanum í legginn.
Birta: Á morgun kannski. Við getum ekki tekið áhættuna á að hreyfa við honum núna.

Eva: Af hverju er ég í rusli? Af hverju núna?
Birta: Skiptir það nokkru máli? Geturðu ekki bara hætt að vera í rusli og þar með hætt að pæla í því?
Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum. Ég held það í alvöru.

Púss

-Af hverju ertu svona treg til að birta myndir?
-Ég er ekki viss. Kannski af því að þetta er míns eigins blogg og mér finnst eitthvað óþægilegt við að birta efni annarra hér. Eins og að bjóða fólki að skoða í skápana hjá einhverjum öðrum.

-Þú birtir heldur aldrei myndir sem þú tekur sjálf. Eins og af fjölskyldu og vinum.
-Ég tek mjög sjaldan myndir og kannski er það vegna þess að ég hugsa svo miklu meira í orðum en myndum en ég kann heldur ekkert á fótósjopp.
-Vá, leim exkjús, hvaða ástæða er til að fegra myndir?
-Óunnin ljósmynd er eins og illa stílaður texti. Vanur ljósmyndari nær kannski myndum sem eru birtingarhæfar en amatörar þurfa oftast myndvinnslu til að myndirnar verði eitthvað meira en heimild um hvað maður var að gera þann daginn. Alveg eins og texti. Hugsaðu þér t.d. ef ég tæki samtölin okkar og birti þau hrá, með öllu málfarsklúðri, útúrdúrum og hikorðum. Það gæti kannski verið ágæt heimild um það sem okkur fór á milli en hver heldurðu að nennti að lesa þann hroða?
-Ég skil hvað þú meinar, þú ert alltaf að reyna að gera lífið að listaverki. Ég skil hinsvegar ekki hversvegna þú ert alltaf að stílisera lífið, því mér finnst það nógu áhugavert eins og það er. Þetta er dálítið eins og öfug yfirborðsmennska hjá þér. Það þarf allt að vera svo djúpt að það snýst upp í leikaraskap.
-Lífið er leiksýning elskan. Sápuópera. Þér finnst þitt líf áhugavert af því að þú lifir því sjálfur og þér finnst mitt líf áhugavert vegna þess einmitt að ég stílisera það. Sjáðu til, það sem maður upplifir er aðeins öðruvísi en frosið augnabilk sem einhver sýnir manni eftir á. Svolítið eins og eitthvað sniðugt sem einhver sagði en virkar ekki fyrir aðra en þá sem voru á staðnum. Ef ég t.d. birti óunnar myndir af mér þar sem ég er skellihlæjandi, þá yrði fólk bara hrætt við mig.
-Já, þú ert náttúrulega alltaf að gæta þess að enginn verði hræddur við þig!
-Jújú, ég vil mjög gjarnan að fólk sé hrætt við mig, sérstaklega teprulegir karlmenn en kannski ekki rétt á meðan ég er að hlæja.
-Eva hættu þessu kjaftæði, þú ert falleg þegar þú hlærð.
-Auðvitað er ég falleg þegar ég hlæ, allir eru fallegir þegar þeir hlæja. Málið er að ljósmynd nær ekki alltaf hlátrinum. Ég hef t.d. þann hallærislega kæk að rífa í hárið á mér og halla höfðinu aftur þegar ég hlæ svo hláturmyndirnar sýna tannfyllingarnar og hálskirtlana í mér óþarflega vel. Svo ef ég ætti að taka mark á myndinni þá myndi ég halda að það færi mér bara ekkert sérstaklega vel að hlæja.Sjáðu. Það er þetta sem ég á við.hlæjhlæj2

-Uhh, mér finnst þú líka falleg á þessari í fjólubláu peysunni.
-Það er af því að þú þekkir mig. Og þessi er reyndar mjög góð. En sjáðu bara, þú ert ekki í neinum vafa um það hvor þeirra er unnin. Önnur er bara svo miklu fallegri en hin.

Önnur myndin er hrátt augnablik. Hin er tekin frá svipuðu sjónarhorni en ég sat á höndinni á mér og myndin er fínpússuð með fótósjopp. Fyrir utan það náttúrulega að þar er búið að farða á mig andlit.
Önnur er sannleikur. Hin sannleikur í neytendaumbúðum.

Hversu áhugavert er óstíliserað líf?
Og, mikilvægari spurning? Er óstíliserað líf í alvörunni meiri sannleikur? Þegar allt kemur til alls þá nærðu aldrei augnablikinu nema upplifa það sjálfur.

-Þú birtir þetta samtal á blogginu þínu er það ekki?
-Kannski.
-Ég þori að veðja að þú ætlar að enda það á orðunum: þú elskar mig líka.
-Þú ert spámaður yndið mitt. Þú elskar mig líka.

 

Lausar skrúfur

-Get ég aðstoðað, spurði afgreiðslumaðurinn, þar sem ég stóð við skrúfurekkann í Byko og reyndi (greinilega með góðum árangri) að líta út eins og bjargarlaus kona.
-Mig vantar svona skrúfur með hvössum enda, eins og t.d. þessar, en það þarf líka að vera ró eða eitthvað svoleiðis til að halda á móti, sagði ég.

Halda áfram að lesa

Órætt

Birta: Segðu mér nú ekki að þú ætlir að fara að búa til vandamál dramadrottningin þín.
Eva: Þvert á móti, ég ætla að fyrirbyggja að það verði vandamál.
Birta: Þú tekur þessu of alvarlega. Það er ekkert að ræða, þið eruð ekki einu sinni ósátt.
Eva: Ekki núna nei, en Pegasus sagði einu sinni að flest hræðileg flugslys hefði mátt fyrirbyggja ef áhöfnin hefði tekið mark á litlu, ómerkilegu aðvörunarljósi, sem virtist bara vera „eitthvað tilfallandi“. Halda áfram að lesa

Bliss

Birta: Óðinn, Satan, Gvuð, ég vissi ekki að við hefðum smekk fyrir þetta.

Eva: Kannski höfum við bara aldrei gefið því séns. Eða kannski er það hann. Eða kannski er ég bara svona ástfangin.
Birta: Bííííbíííbíbíbí… róleg á væmninni góða.
Eva: Þetta er ekki væmni.
Birta: Ok ekki ennþá kannski en það er samt alveg óþarfi að klístra kandýflossi í röddina og þú ert alveg að fara að segja eitthvað sætt upphátt.
Eva: Þú vilt kannski taka við og segja eitthvað gáfulegt?
Birta: Neinei, segðu bara eitthvað væmið en vertu þá ekki hissa þótt hann kalli þig kjútípæ eða eitthvað álíka. Kannski þessu sem byrjar á d.
Eva: Engin hætta, hann er búinn að lofa að segja ekki d-orðið.

Sápuóperan mælir með:
-Villibráðarhlaðborðinu í Perlunni.
-Einstöku púrtvíni.
-Creme Brulay.
-Félagsskap myndarlegs og skemmtilegs karlmanns sem kemur fram við þig eins og drottningu og getur haldið uppi áhugaverðum samræðum í marga klukkutíma, jafnvel þótt þið eigið engin sameiginleg áhugamál.
-Að reikna með möguleikanum á því að réttur sem ekki bragast vel hjá einum kokki, geti heppnast betur hjá þeim næsta.
-Að prófa allt sem er í boði, allavega einu sinni.
-Að sofna út frá Hendel, í fanginu á manni sem getur látið þér líða eins og gyðju þegar þú ert bæði grenjandi og á túr.
-Að vakna hjá manni sem finnst þú falleg með morgunhrukkur og úfið hár.
-Að reikna með möguleikanum á því sem er eiginlega of gott til að vera satt.

Vel að merkja; kjólar, kápur, peysur, nærföt, varalitur, skór: rautt virkar.

Dindill

Mér finnst Hilmir Snær afskaplega kynþokkafullur karlmaður. Samt sem áður kemur þessi „frétt“ mér á óvart og það kemur mér enn meira á óvart að hún skuli koma mér á óvart. Ég hef hingað til talið sjálfa mig hina mestu dindilhosu, hef séð allar þessar myndir en ef ég hefði verið spurð að því fyrir 20 mínútum hvort ég hefði séð dindilinn á Hilmi Snæ á hvíta tjaldinu, hefði ég svarað nei. Í fullri alvöru, ég bara get ekki rifjað upp þessar meintu typpasenur. Hversvegna ætli það sé? Mér detta í hug eftirfarandi skýringar: Halda áfram að lesa

Koss

Birta: Þú skelfur gungan þín.
Eva: Viltu láta mig í friði í smástund. Ég er að reyna að … ég ég veit það ekki, tengja eða eitthvað svoleiðis.
Birta: Ég skal sjá um að tengja. Ég verð örugglega sneggri að því en þú.
Eva: Nei. Þú aftengir. Það er einmitt það sem þú gerir. Manstu eftir manninum sem sagði að ég væri með svarthol í sálinni? Það er það sem gerist þegar þú færð að ráða.
Halda áfram að lesa

Eymd dagsins

Menningarlíf mitt er í rúst. Ég hef mjög lítið farið í bíó, ekkert séð í leikhúsunum þetta haustið, og ekki farið á eina einustu tónleika á árinu, trúið þið því? Ég hef séð tvo þætti af House en annars horfi ég ekkert á sjónvarp nema Kastljósið þá sjaldan að ég er heima. Ég hef varla lifað neinu félagslífi heldur, ekki einu sinni haldið matarboð nema einu sinni síðan ég flutti inn í Mávahlíðina. Ég fór að vísu á bekkjarmót, góðu heilli, spilaði eitt skabbl við Pegasus og er að fara í morðgátuferð með Auði um næstu helgi en annars lítur út fyrir töluverða kvöldvinnu næstu vikur. Halda áfram að lesa

Það er til

Þegar ég var í 7. bekk, reyndi ég að kría koss út úr skólabróður mínum. Ég hafði fengið minn fyrsta koss algerlega óvænt nokkrum dögum fyrr og væri rík kona í dag ef ég gæti selt fá tilfinningu í pilluformi. Kossvaldur hafði ekki virt mig viðlits síðan og þótt ég væri svona fyrir siðsemissakir orðin ástfangin af honum (maður kyssir ekki einhvern sem maður er ekkert hrifinn af) og hefði hann grunaðan um að hafa aðeins verið að æfa sig á mér, gat ég ekki almennilega erft það við hann. Skildi það bara svo vel. Halda áfram að lesa