Hvaða persónu saknar þú mest? (FB spurningaleikur)

Ég sakna fólks sjaldan. Vinir koma og fara, ég er sátt við það. Og þeir sem virkilega skipta mig máli verða svo stór hluti af lífi mínu að það er óþarfi að sakna þeirra. Ég hélt að ég myndi sakna Drengsins sem fyllti æðar mínar af endorfíni, en ég hugsa sjaldan til hans með trega.

Ég sakna samt mannsins míns, sem ég hef enn ekki kynnst.

Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks? (FB leikur)

Heildarmyndin held ég og svo málfar.

Um leið og maður sér einhvern tekur maður inn fullt af upplýsingum sem maður veltir ekki fyrir sér en gæti auðveldlega svarað ef maður væri spurður. Kynferði, aldursbil, kynþáttur. Svo er það bara mismunandi hvað er mest áberandi í fari hvers og eins. Ef einhver er 250 kg þá tek ég sennilega ekki eftir augnlit hans. Ef hann er með 15 pinna í gegnum andlitið tek ég kannski ekkert eftir því hvað hann er með sætan rass.

Yfirleitt tek ég lítið eftir fatnaði, gleraugum, augnlit, hárlit og hæð, nema eitthvað af þessu sé óvenjulegt. Ég tek hinsvegar mjög vel eftir málfarseinkennum og málsniði.

Uppáhaldsísinn? (FB leikur)

Jæja, þessi listi ætlar víst að endast mér fram á vorið. 13 er happatala svo ég hlýt að verða gífurlega heppin í kvöld. En áfram með smjörið:

Ís. já takk. Uppáhalds… Fokk. Ég fæ mér oftast annað hvort hnetutopp eða mjúkan úr vél með mokkasósu. Ef ég kaupi fjölskyldupakkningu þá er það oftast mjúkís með karamellu og pekanhnetum.

Og þú, veistu dálítið, þetta svar er ekki eins óspennandi og það lítur út fyrir að vera. Skoðaðu betur. Ef þú áttar þig færðu eina ósk uppfyllta.

Að halda kúlinu

Yfirleitt eyði ég ekki miklu púðri í að daðra. En það er ekki af því ég hafi ekki gaman af því eða sé ófær um það. Það er bara með daður eins og aðra leiki, maður vill leika við jafningja. En hitti maður á jafningja er það gaman. List. Lyst. Skemmtilegast þegar maður fær næstum því, en ekki alveg þó, staðfestingu á því að dýrið hafi áttað sig en viti ekki alveg hvar það hefur mann. Halda áfram að lesa

Þetta eru fokkans fasistar

-Löggan elti okkur. Hægði á bílnum þegar þeir nálguðust. Hringsólaði í kringum okkur. Tók smá rúnt en kom svo aftur, sami bíllinn. Rétt á eftir kom annar á móti honum, þeir stoppuðu, töluðu saman og einn benti í átt til okkar. Annar bíllinn stoppaði svo við hús vinar okkar eins og til að láta okkur vita að þeir vissu hvert við ætluðum.
Halda áfram að lesa

Þværð þú ónýtar nærbuxur áður en þú hendir þeim? (FB leikur)

Á listanum sem ég fékk var engin spurning nr 12 svo það hlýtur að merkja að ég megi ráða. Spurningin mín er þessi: Þværð þú ónýtar nærbuxur áður en þú hendir þeim?

Ég á semsagt, þótt það stríði gegn bæði skynsemi og umhverfissjónarmiðum, erfitt með að henda óhreinum nærbuxum. Ég þvæ þær fyrst, svo asnalegt sem það nú er.

Þótt ég setji myglaða ávexti og allskonar ógeð í ruslið, þá er ég haldin einhverjum undarlegum tepruskap gegn líkamlegu ógeði. Ég vef t.d. tíðabindi í pappír áður en ég hendi þeim, jafnvel þótt ég fari svo beint út með ruslið.

Uppáhaldsmorgunkorn? (FB leikur)

Ég borða oftast cheerios. Stundum lifi ég á því nánast eingöngu vikum saman. En kókópuffs er betra.

Ég er haldin nostalgíu gagnvart gömlu gerðinni af kókópuffsi. Það var einhver hvít slikja utan á kúlunum og þær voru ekki eins stökkar. Það kemur alltaf illa við mig þegar einhverju sem ég nota mikið er breytt án samráðs við mig. Ég varð miður mín þegar kaffimolinn var tekinn úr makkintosinu (já ég játa, ég er svo mikill hræsnari að ég versla stöku sinnum við það skítafyrirtæki Nestle) og það kemur alltaf illa við mig þegar útlitinu á netsíðum sem ég nota mikið er breytt.

Trix fannst mér aldrei gott og ekki heldur Lucky Charms.

Ertu ennþá með hálskirtlana? (FB leikur)

Þeir voru rifnir úr mér þegar ég var fjögurra ára. Ég man ennþá þegar ég vaknaði af svæfingunni. Enginn sem ég þekkti var hjá mér, ég var dauðhrædd, fárveik og mér hefur líklega aldrei liðið verr. Einhver hjúkrunarkona laug því að foreldrum mínum að ég hefði ekki grátið þegar ég vaknaði. Ég reyndi fyrst að leiðrétta það en fékk svo mikið hrós fyrir að vera ‘dugleg’ að ég lét bara gott heita og naut lyginnar.

Fjárans kirtlarnir hafa vaxið aftur og eru víst skrímsli að stærð. Læknar sögðu mér fyrir 5 árum að þyrfti að tæta þá úr mér aftur en ég er hrædd við svæfingar og slæ því þessvegna alltaf á frest.

Spurningar úr FB leik

Notast þú við kaldhæðni?

Nei. Ég er hjartahlý kona, trúi á hið góða í manneskjunni og stafa frá mér yl og ljósi hvar sem ég kem.

Myndir þú vera vinur þinn?
Jájá, ég og ég erum ágætar vinkonur og stöndum saman þegar við erum búnar að ákveða eitthvað. Við erum að vísu oft ósammála og þurfum að rökræða hlutina mikið og lengi áður en við komumst að niðurstöðu. Mér finnst ég stundum óþarflega gagnrýnin á mig og mér finnst svo aftur ég taka þeirri gagnrýni óþarflega illa. En við sættumst nú alltaf á endanum.

Ég held annars að það hljóti að vera hræðileg örlög að líka illa við einu manneskjuna sem maður kemst ekki undan.

Áttu börn? (FB leikur)

Ég á tvo yndislega stráka en þeir eru fullorðnir og það er ekki eins.

Mig langar í barnabörn en synir mínir eru ekki sammála mér. Haukur sagði einhverntíma að það vær tilgangslaust að tala um börn á meðan hann ætti ekki einu sinni kærustu. Ég sagði honum að hann gæti bara barnað einhverja lausgyrta dræsu eins og aðrir ungir menn og það væri áreiðanlega fínt að vera helgarpabbi. Hann tók mig ekki alvarlega. Allavega veit ég ekki til að nein dræsa sé ólétt eftir hann enn.

Ég er að vísu ekki eins viss um að það sé tímabært fyrir Darra að verða pabbi, en ég er búin að margbiðja hann að negla einhverja einstæða móður. Hann vill það ekki.

Ef

Einu sinni var maður sem langaði að kvænast mér. Yfirleitt hefur það verið öfugt, því þrátt fyrir annálað hórirí mitt úti um allar koppagrundir, er ég mikill aðdáandi hjónabandsins og finnst ekkert sérstakt atriði að fólk sem ákveður að búa saman sé heltekið af hrifningu. Halda áfram að lesa

Hvað er uppáhalds hádegisverðarkjötið þitt? (FB leikur)

Umhverfisvænn nýstúdent með augnhárin titrandi af feimni, enda er uppáhaldsfrasinn minn ‘lambakjöt í rúmið mitt’.

Ef ég væri karlmaður myndi þessi játning leggja mannorð mitt í rúst en þar sem ég er kona munu sumir kyngja hneykslun sinni, aðrir hnussa stundarhátt, einhver hugsa ‘jahá, ég líka en ég er ekki svo vitlaus að tala um það’ og einhver nýstúdentinn mun hugsa dónalega til mín og kalla mig MILF.

Uppáhalds kvöldverðarkjötið mitt er hinsvegar saltkjöt en það getur maður nú ekki lagt á skrokkinn á sér mjög oft.

Líkar þér við skriftina þína? (FB leikur)

Rithönd segir eitthvað um persónuleikann. Mín rithönd er ekki snotur. Frekar gróf og flausturleg en læsileg þó -eins og ég. Rithönd mín var mjög hvöss á unglingsárunum en hefur mýkst. Maður meyrnar með aldrinum.

Ég kann alls ekki illa við skriftina mína en ég sit heldur aldrei og dáist að henni á sama hátt og ég get dáðst að minni eigin ritsnilld þegar maður horfir á innihaldið og orðfarið.

Hvenær gréstu síðast? (FB leikur)

Þessi finnst mörgum óþægileg svo ég spyr bara þá sem hafa klukkað mig.

Ég er ekki viss. Ég bregst við ofþreytu með með tárum og græt oft af tilfinningasemi yfir einhverri væmni í bíómyndum eða bókum, jafnvel í auglýsingum. Græt hinsvegar ekki við jarðarfarir, vinum og vandamönnum til óhugnaðar yfir kaldlyndi mínu. Ég hef ekki grátið af sorg, ótta eða reiði í nokkur ár.

En maður getur nú verið sár þótt maður grenji ekki.

Varst þú nefnd/nefndur í höfuði á einhverjum? (FB leikur)

Já, ég var nefnd eftir móðurafa mínum, Jóhanni, og langömmu Helgu. Semsagt Jóhún Helga. Það var ágætis nafn en ég kunni samt aldrei vel við það.

Þegar ég var 17 ára varð ég ástfangin af strák sem ég giftist nokkrum mánuðum síðar. Ég færði honum ávaxtakörfu þegar við vorum rétt að byrja að kynnast. Í körfunni voru allskonar suðrænir ávextir og eitt, rautt epli. Ég meinti ekkert sérstakt með þessu epli en minn tók því sem hinti um að ég vildi sofa hjá honum (og má furðu sæta að hann hafi þurft epli til að átta sig á því). Hann tók upp á að kalla mig Evu og það nafn fór mér betur og festist við mig. Í dag heiti ég Eva skv þjóðskrá.

FB leikur 50 spurningar

Ég svaraði flestum þessara spurninga en ekki öllum. Tók eina í einu enda bjóða sumar upp á löng svör. Hér eru spurningarnar.

1.Varst þú nefnd/nefndur í höfuði á einhverjum?
2.Hvenær gréstu síðast?
3. Líkar þér við skriftina þína?
4. Hvað er uppáhalds hádegisverðarkjötið þitt?
5. Áttu börn?
6. Myndi þú vera vinur þinn?
7. Notast þú við kaldhæðni?
8. Ertu ennþá með hálskirtlana?
9. Teygjustökk?
10. Uppáhaldsmorgunkorn?
11. Leysir þú reimarnar áður en þú ferð úr skónum?

13. Uppáhaldsísinn?
14. Hvað er það fyrsta sem þú tekur eftir í fari fólks?
15. Rauður eða bleikur?
16. Hvað finnst þér vera þinn stærsti galli?
17. Hvaða persónu saknar þú mest?
18. Viltu að allir ljúki við þennan lista?
19. Hvaða litur er á buxunum og skónum sem þú ert í núna?

21. Á hvað ertu að hlusta núna?
22. Ef þú værir vaxlitur, hvaða litur værir þú?
23. Uppáhalds lykt?
24. Hvern talaðir þú síðast við í síma?
25. Líkar þér við manneskjuna sem merkti þér þessa umræðu?
26. Uppáhalds íþrótt til að horfa á?
27. Háralitur?
28. Augnalitur?
29. Notar þú linsur?
30. Uppáhaldsmatur?
31. Hryllingsmynd eða góður endir?
32. Hvaða mynd horfðir þú á síðast?
33. Hver er liturinn á bolnum sem þú ert í?
34. Sumar eða vetur?
35. Faðmlög eða kossar?
36. Uppáhaldseftirréttur?
37. Hver er líklegastur til að svara þessum pósti?
38. Hver er ólíklegastur til að svara?
39. Hvaða bók ertu að lesa núna?
40. Hvaða mynstur er á músamottunni þinni?
41. Hvað horfðir þú á í sjónvarpinu í gær?
42. Uppáhalds ljóð?
43. Róling stónes eða bítlarnir?
44. Hvað er það lengsta sem þú hefur farið að heiman?
45. Hefur þú einhvern sérstakan hæfileika?
46. Hvar fæddist þú?
47. Svör hvers hlakkar þér mest til að lesa?
48. Hvar hittir þú maka þinn?
49. Ef þú myndir endurfæðast sem eitthvað spendýr (annað en maður)?
50. Simpsons eða South Park?

Gælur

****: Ég var að heyra brandara, datt í hug að deila honum með þér
Eva: Nú varstu að hlusta á kvöldfréttir?
****: 😀 Veistu hvað er það besta við munngælur?
Eva: Ef ég á að svara fyrir sjálfa mig; þær taka enda þegar ég er búin að gera mér upp fullnægingu.
****: LOL, en rétta svarið er 10 mín. þögn.
Eva: Ég get alveg talað þótt maður sé að veita mér munngælur. Væri reyndar líkleg til þess, svona til að dreifa huganum. Halda áfram að lesa

Eva er komin á séns

Baggalútur er skotinn í mér.

Sem er út af fyrir sig skemmtilegt.
Ég hef gert nokkrar tilraunir til að máta Braga Valdimar Skúlason inn í erótískar fantasíur af því að ég er skotin í skáldgáfu hans og húmorinn hans gerir mig graða. Samt ganga þessar fantasíur ekki almennilega upp, því hann er alltof vel greiddur fyrir minn smekk. Alltaf þegar ég er þangað komin í fantasíunni að Bragi er kominn í hjúkrunarkonubúninginn og er einmitt að veiða feitan, erótískan saltketsbita upp úr pottinum, þvælist úfin lopapeysa á ryðguðu reiðhjóli inn í drauminn.

Tinna ráðlagði mér að máta Kalla í staðinn.
Það gengur því miður ekki upp. Hann verður bara ekki eins heitur í hjúkrunarkonubúningi.