Eitt daðr

Þakka hlýjar kveðjur og fullt af heimsóknum og gjöfum.

Ég er á leiðinni út að borða eitthvað hrikalega gott, ekki á gráa kettinum, heldur með gráa kettinum.
Kannski fáum við okkur heitan graut.

Mælt af

Árið er hálfnað. Samkvæmt tölfræðinni er ævi mín líka hálfnuð.Dagana eftir fertugsafmælið mitt var ég oft spurð að því hvort ég fyndi fyrir miðaldurskrísu. Ég varð 41 árs fyrir tæpum 2 tímum og nei, ég bara finn ekkert fyrir þessari krísu enn. Að vísu hef ég svosem ekkert afrekað ennþá en ég var á alveg jafn miklum bömmer yfir því þegar ég var tvítug. Ég sé líka alveg hrukkunum fjölga með hverju ári en mér líður ekkert verr yfir þeim en mér leið yfir ímynduðum útlitsgöllum mínum 15 ára eða 23ja ára. Ætli það sé óeðlilegt að hafa ekki verulegar áhyggjur af því að maður sé að eldast?

Ég gekk í gegnum aldurskrísu um 17 ára aldur. Kveið því að verða fullorðin af því að ég hélt að því fylgdi svo mikil ábyrgð og að það hlyti að vera þrúgandi. Það reyndist mér auðveldara að vera fullorðin en barn. Mig grunar að það verði mér líka auðveldara að vera miðaldra en ung.

Ég hef aldrei verið mikið afmælisbarn en mér finnst samt alltaf stöðugt meira tilefni til að fagna því að vera á lífi. Hef aldrei skilið almennilega tilganginn með að hafa sérstakan dag á árinu til þess en kemst samt alltaf við af væmni yfir því að fá afmæliskveðjur. Var einmitt í þessum orðum skrifuðum að fá eina sem mér þykir sérdeilis vænt um.

Ég held annars að ég sé að endurheimta kynhvötina. Spurning hvort ég ætti ekki að halda upp á það.

Náttúrulega

Þjóðin er mætt í Grasagarðinn.

Ég treðst í gegnum mannfjöldann með hnút í maganum. Lenti einu sinni í því að troðast hreinlega niður á gólf á yfirfullum skemmtistað og varð slíkri skelfingu lostin að ég gleymdi bæði nafni og andliti mannsins sem bjargaði mér frá stórslysi. Ég hef alltaf orðið kvíðin í mannmergð síðan en svo er þetta líka bara eitthvað svo ógeðslegt. Iðandi mannhaf, mor. Það minnir svo á pöddur og það er alltaf eitthvað ónotalegt við að vera minntur á að maðurinn er padda. Að lokum komumst við að rétta básnum. Halda áfram að lesa

Aumingi

Æ hvað ég hef nú mikla óbeit á huglausu fólki og fávitum. T.d. þessum sem einn daginn kynnir sig með nafninu SS, þann næsta sem Gest og hann þriðja sem RA. Mikið vildi ég hitta þann einstakling augliti til auglitis svo ég geti sagt honum hvað mér finnst um hann. Það er bara hreinlega ekki sæmandi að birta orðbragð sem líkur eru á að ögri heimsmynd og grundvallar lífsviðhorfum saklauss fólks á opinni netsíðu. En fyrst þig langar svona mikið að hitta mig, kíktu þá bara í heimsókn næst þegar þú átt leið til landsins og ég skal bæta áhugaverðum kjarnyrðum í orðaforða þinn.

 

Yfirfærsla

Bara ekkert ísbjarnarútkall í allan dag. Ég er svo aldeilis hissa.

Ég hef tekið eftir því að það hversu illa mér líður í pólitíkinni, stendur ekki í neinu sambandi við það hversu alvarlegir hlutir eru að gerast í heiminum eða það hve illa maður verður var við firringu, spillingu, heimsku og gleymsku. Ég verð upptekin af pólitík þegar fólk sem mér þykir vænt um hegðar sér óskiljanlega. Líklega er þetta svona yfirfærsla. Eða kannski varnarháttur. Það er alltaf hægt að afgreiða pólitískar ákvarðanir sem fávitahátt en flestir hafa tilhneiginu til að halda að það sé eitthvað flóknara þegar maður botnar ekkert í þeim sem standa hjarta manns næst.

Mig langar að kynnast þessum.

WTF?

Hópur af ferðamönnum með asískt útlit. Enginn kann stakt orð í ensku en allir áhugasamir um rúnir og íslenskar jurtaolíur.
Eftir 20 mínútna mixtúru af actionary og pictionary kemur svo í ljós að þeir tala reiprennandi dönsku.

 

Út vil ek

Ég er víst að fara út á lífið. Ein. Allir sem ég myndi venjulega fá til að koma með mér eru annaðhvort að heiman, ástfangnir, að vinna eða að hamast við að skipuleggja byltingu. Ég verð vessgú annaðhvort að kynnast einhleypu fólki eða hanga ein öll fríkvöld það sem eftir lifir sumars og það er ekki nema hálfnað enn. Ég er virkilega að leggja mig fram um að vera roslega jákvæð. Af hverju í fjandanum byrjar þetta frábæra ‘líf’ aldrei fyrr en um miðja nótt?

Annars er mér engin vorkunn. Það er svo mikil óregla á mér þessa dagana að ég man bara ekki annað eins tímabil síðan ég var að vinna á veitingahúsi fyrir 4 árum og þá oft langt fram á nætur. Ég hlýt allavega að geta haldið mér vakandi til 2.

 

Bara að gá…

Birta: Heldurðu að geti verið að kynhvötin í okkur sé dauð?
Eva: Nei, ég hef nú enga trú á því, þetta er líklega bara lægð.
Birta: Endast lægðir virkilega svona lengi?
Eva: Það hlýtur að vera. Eða ert þú kannski með girndarauga á einhverjum?
Birta: Nei. Alls ekki. Heldurðu að þetta sé eðlilegt?
Eva: Æ bíddu bara. Eftir nokkra daga eða í mesta lagi nokkrar vikur verðurðu farin að kvarta undan því að við séum með óeðlilega mikla kynhvöt. Það er áreiðanlega normalt að hafa ekki áhuga í nokkrar vikur.Birta: Við ættum samt kannski að ganga úr skugga um það? Til öryggis.
Eva: Hvaða öryggi væri í því?
Birta: Bara þú veist. Vera öruggar um að við séum ekki búnar að missa áhugann endanlega. Við þyrftum ekkert að láta vaða, enda myndi ég nú ekki nenna því. Ég meina bara svona að gá hvort er hægt að koma okkur til. Athuga hvort við erum orðin uppþornuð piparjúnka.
Eva: Njaaat… við nennum nú ekki að fara heim og mála okkur og standa svo í einhverju eymdar hösli á börum borgarinnar fram eftir nóttu, bara svona í tilraunaskyni. Það er lágmark að hafa áhuga til að leggja það helvíti á sig. Hvað þá að ætla að hætta í miðju kafi. Hvaða karlmaður heldurðu að sætti sig við það?

Birta: Hmmm… Ég er að hugsa… Ungir menn eru hlýðnir. Kannski ekki við lögin en áreiðanlega í rúminu. Við gætum tekið einn og baðað hann.
Eva: Nei góða mín, við erum ekki að fara að forfæra einhvern anarkistahvolp, bara til að gá hvort kynhvötin í okkur sé dauð. Ekki einu sinni þótt okkur tækist að reka hann í sturtu fyrst og svo heim áður en nokkurt fallerí nær fram að ganga.
Birta: Nei það er líklega rétt. Líklega ættum við bara að fara heim að sofa.

 

Kornflex vikunnar

Byltingin: Mamma, má ég fá blómavír hjá þér?
Mamman: Alveg sjálfsagt.
Byltingin: Heyrðu, hvað heldurðu að Össur Skarphéðinsson sé þungur?
Mamman: Ég hef nú bara ekki vigtað hann nýlega, af hverju ertu að spá í það?
Byltingin: Ég er bara að spá í hvort þrefaldur blómavír haldi honum.

Bara tengja

Og auðvitað elskan mín, auðvitað tekur maður mark á aðvörunarljósinu, staldrar við og athugar málið. En rauða ljósið merkir ekki endilega að tækið sé ónýtt. Stundum er það bara merki um að þurfi að tengja einn pínulítinn vír.

Hnútur

Fyrr eða síðar verður maður að taka á sig rögg og gera það sem maður þarf að gera. Leysa hnútinn. Fyrr eða síðar, bara ekki í dag. Það er eitthvað svo erfitt að leysa hnúta á meðan maður er með hnút í maganum. Þótt maður viti að hann hjaðnar um leið og maður er búinn að leysa hina hnútana.

Vits er þörf

Ég er satt að segja farin að halda að ranghugmyndir um orkusteina séu að verða álíka stórt vandamál og blessaður kristindómurinn. Og of margir sem kæra sig hreint ekki um að maður leiðrétti vitleysuna og útskýri hvers vegna sumir steinar virka fyrir sumt fólk

Orkusteinabullið

Þegar ég opnaði Nornabúðina hélt ég að aðeins mjög þröngur hópur nýaldarsinna tryði á svokallaða orkusteina. Ég hélt bara að almenn eðlisfræðiþekking dygði til þess að uppræta þá hugmynd að grjót búi yfir einhverri sérstakri ‘orku’, hvað þá að nærvera ákveðinna steinda lækni sjúkdóma. Halda áfram að lesa

Þjóðhátíð hvað?

Þjóðhátíð? Leit ég rétt á dagatalið? Sé ekki betur en að þetta sé fjölmenningarhátíð. Tailensk tónlist. Kung fu. Dansar frá Balkanskaga. Á Ingólfstorgi er ein kona í íslenskum búningi. Þjóðhátíðarmatseðlar veitingahúsanna bjóða upp á japanska sósu með lambinu, spænska fiskrétti og cruncy cashnew með einhverju sem ég kann ekki að bera fram. Halda áfram að lesa