Sannleikann eða kontór?

Þelamerkurskóli. Það var ágætur tími. Mér leið vel í skólanum. Eða allavega skár en heima hjá mér. Ég átti ekki nána vini en ég hafði félagsskap og naut þess.

Við tuskuðumst og keluðum, spiluðum hjónasæng og kossaspil. Fórum í kjánalega leiki eins og 5 mínútur undir sænginni og sannleikann eða kontór (sem var ekki kaupfélagskontórinn). Halda áfram að lesa

Tilgangur lífins

Ekki svo að skilja að mér finnist tilgangur nauðsynlegur. Ég geri fullt af hlutum sem ekki þjóna sérstökum tilgangi en finn aldrei hjá mér neina hvöt til að leggjast í þunglyndi yfir tilgangsleysi þeirra. Stundum naga ég neglurnar. Stundum klára ég að lesa bók sem mér finnst ekkert áhugaverð þótt ég hafi nóg þarfara að gera. Stundum helli ég mér kaffi í bolla en drekk það svo ekki. Stundum skrifa ég bloggfærslu sem ég birti ekki.

Utangarðs

Merkilegir hugmyndakokteilar sem verða til í hausnum á manni í einhverju meðvitundarleysi.

Keli gaf mér alla fyrstu seríuna af þeim snilldarsjónvarpsþáttum „Six Feet Under“ í afmælisgjöf og nú er ég loksins búin að gefa mér tíma til að sjá þá. Þeir sýna líf fjölskyldu sem rekur útfarastofu svo dauði og greftrun koma heilmikið við sögu. Halda áfram að lesa

Kveðast á?

Æ, elskan

Sumum hálfkveðnum vísum hæfir enginn botn. Eða þekkir þú eitthvert almennilegt orð sem rímar við botn?

Þú hefur auðvitað fullan rétt á að vera bitur en ef þú vilt töfrana þá bara fylgir þessi böggull skammrifi. Gandálfur kemur, heldur flugeldasýningu og fer. Múnínsnáðinn bíður eftir Snúði, sem kemur -og fer. Hvort sem við erum gagnkynhneigð, samkynhneigð, fjölkynhneigð, sjálfkynhneigð eða vankynhneigð mun hvert einasta tilfinningafyllirí hafa einhverskonar timburmenn í för með sér. Það eina sem hægt er að gera í því er að loka augunum og lifa það af. Eða opna augun og lifa það af ef maður hefur hugrekki til þess.

Og því máttu trúa að rituð bók verður ekki aftur tekin.

Eini mælikvarðrinn

Og þótt ég hafi aldrei séð hann og viti ekkert um hann þá veit ég alveg hvaða helvíti þú ert að ganga í gegnum.

Fólk mun gera lítið úr því, það geturðu verið viss um. Af því að það á sjálft að baki lengri sambönd, af því að engin börn eru í spilinu, af því að það eru svo margir aðrir fínir kostir sem standa þér til boða, af því að allir hafa lent í þessu, af því að þetta gæti kannski lagast, af því að hann er hvort sem er ekki nógu góður fyrir þig…

En ekkert af þessu skiptir verulegu máli. Alvarleiki sambands verður aðeins mældur í sorginni sem tekur við þegar því lýkur.

Engin venjuleg manneskja

Ég held að ég þekki engan sem álítur sjálfan sig venjulega manneskju, vill vera venjuleg manneskja eða telur eftirsóknarvert að vera venjuleg manneskja.

Samt get ég ekki betur séð en að allt þetta so fucking special fólk sé hvert öðru líkt. Allir með sömu komplexana, sama fjölskyldudramað, sama ástarruglið, sama vinnuálagið, lífsgæðakapphlaupið, áhyggjurnar, fordómana… Sé ekki betur en að þetta fólk sé nákvæmlega eins og ég, sem samt sem áður er sjálf svo sannfærð um að ég hljóti að vera alveg sérstakt eintak, að ég get auðveldlega fengið annað sauðvenjulegt fólk sem heldur að það sé „öðruvísi“ til að kóa með mér í þeirri trú að ég sé engin venjuleg manneskja.

Svo ég bara spyr, hvernig er venjulegt fólk og hvar finnur maður slíkt fyrirbæri?

Pínu nörd

Sjálfsmynd mín passar ekki vel við hugmyndir mínar um nörd. Einu skiptin sem ég hef verið kölluð nörd eru þegar mér verður það á að segja málfræðibrandara. Ég fann nördapróf á blogginu hennar Hildigunnar (jamm, rétt til getið, þetta var mjög rólegur dagur) og samkvæmt því er ég allavega í áhættuhóp. Ég hef engan áhuga á eðlisvísindum og er löngu hætt að spila spunaspil svo ég dreg niðurstöðuna í efa.

I am nerdier than 82% of all people. Are you a nerd? Click here to find out!

 

Undir mottuna

Efasemdir eru sársaukafullar og þeir hugsa sem efast. Þessvegna held ég að allt hugsandi fólk lendi einhverntíma í því að líða illa í pólitíkinni. Við því er tvennt í boði. Annaðhvort að horfast í augu við að stundum séu hlutirnir ekki alveg nákvæmlega eins og maður helst vildi, endurmeta stöðuna og taka upplýsta afstöðu, eða þá að sópa undir mottuna því sem raskar hugarró manns og leiða hugann að einhverju öðru, þar til maður sjálfur og flestir aðrir hafa gleymt því sem hvíslaði að manni efasemdum um að maður hefði fullkomna yfirsýn yfir litla þrönga kassann sem maður lifir í.

Eitlaleit

Í fríinu mínu rifjaði Hulla systir mín upp fyrir mér læknisskoðanirnar í litlum skóla úti á landi, þar sem við ólumst upp um tíma. Líklega hefur læknir komið á staðinn til að bólusetja hluta af hópnum en annars var læknisskoðunin í höndum prestins og skólastjórans sem var kona prestsins. Hún gegndi, ef ég man rétt, hlutverki ritara við þessa viðmiklu rannsókn á allt að 50 börnum. Auk þeirra var sonur þeirra hjóna 5-7 ára gamall, ávalt viðstaddur læknisskoðunina. Hlutverk hans var þó óljóst. Halda áfram að lesa

Heræfing í heimkeyrslunni

Vaknaði í súðarherbergi í Hullusveit, laust fyrir kl 7 í gærmorgun við skothríð. Mér datt helst í hug að þetta væri einhver satanísk landbúnaðarvél. Mér skjátlaðist, þetta var sumsé vélbyssuskothríð en líklega bara gerviskot. Herinn var nefnilega með æfingu í garðinum hjá Hullu og Eika. Þegar Hulla var á heimleið eftir að hafa komið börnunum í skólann, rak hermaður í felubúningi, með hjálm og andlitsmálningu hausinn út úr runna rétt við innkeyrsluna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem herinn er með æfingu í þessu friðsæla sveitaþorpi. Í fyrra ók hertrukkur alveg upp að húsinu og notaði planið fyrir framan útidyrnar til að snúa við. Mér finnst þetta ekki í lagi.

 

Rekinn!

Haukur er mikil félagsvera og þótt hann hafi strax tekið þá afstöðu að líta á dóminn sem launað frí til menntunar og ritstarfa í þágu Saving Iceland, og þótt hann hafi notið þeirra forréttinda að fá að valsa eftirlitslaust um borgina var hann samt feginn að komast á Skólavörðustíginn. En Adam var ekki lengi í Paradís. Þann 13. ágúst var honum hent út. Það þurfti nefnilega að rýma plássið hans, ekki fyrir morðingja eða ofbeldismanni, heldur fyrir öðrum aktívista. Steinunn fór semsagt inn þennan sama dag. Mér leikur forvitni á því hvort hun hefur líka þurft að krefjast þess að fá inngöngu.

Hauki var sagt að hann yrði kallaður til að ljúka afplánun einhverntíma seinna þegar fangelsisyfirvöldum hentaði. Mér finnst með ólíkindum að það geti verið löglegt. Hann var búinn að fá sig lausan úr vinnu þessa 18 daga og varla hægt að bjóða vinnuveitanda upp á það, eftir að hann er búinn að lofa öðrum yfirvinnu í 18 daga, að svo þurfi hann að gefa frí aftur af sömu ástæðu „einhverntíma seinna“. Mitt fólk hittir lögfræðing í dag og vonandi skýrist þá réttarstaða þeirra.