Rambl

Ég er úthvíld! Loksins! Hef sofið rúmar 70 klst frá því að ég lokaði búðinni kl 10:30 á Þoddlák. Það er hellingur. Hef ekki gert neitt sem gæti með góðu móti flokkast sem vinna síðan á jóladag, nema að elda einn grænmetisrétt, hengja upp úr tveimur þvottavélum (æxlið er ekkert að hjaðna) og fara með einn ruslapoka í Sorpu. Ég er svo hress að ég gæti hlaupið ef ég sæi ástæðu til þess. Ég ætla samt ekki að hreyfa mig fyrr en magadansnámskeiðið byrjar eftir áramót, enda hef ég ekki lagt það í vana minn að safna spiki þessa einu viku, skil ekki alveg það rugl að éta yfir sig bara af því að tíminn heitir jól. Halda áfram að lesa

Kannski frekar hvað maður gerir EKKI

Þegar Haukur var 6-7 ára sagði hann mér, all-hneykslaður að einhverjir kjánar í skólanum héldu því fram að fólk ætti það til að hafa mök þótt það kærði sig alls ekki um fleiri börn og notaði jafnvel „asnalega blöðru“ til að koma í veg fyrir getnað. Það lá við að drengurinn sykki niður úr gólfinu af skömm þegar ég sagði honum að þessir kjánar hefðu reyndar nokkuð til síns máls en hann náði fljótt áttum og sagði:
-Ég er samt feginn að þú og pabbi eruð allavega ekki svoleiðis. Halda áfram að lesa

Þytur

Jarðfræðingurinn kemur í dag og verður hjá okkur yfir áramótin. Byltingin fer svo með henni út til Bretlands eftir áramótin til að sjá ættarsetrið og fjölskylduna áður en hann fer út í heim að leita sér frægðar og frama. Mér finnst hálfótrúlegt að sonur minn Byltingin skuli vera í tygjum við breska aðalskonu en Jarðfræðingurinn ólst upp (og býr enn) á herragarðinum sem er fyrirmyndin að Fúsastöðum í „Wind in the Willows“ og langafi hennar var kveikjan að Fúsa.

Ég er búin að tilkynna Hauki að ég óski eindregið eftir því að fá barnabörn á meðan ég er ennþá í ástandi til að vera skemmtileg amma og þrátt fyrir stutt kynni við Jarðfræðinginn, hefur hann ekki aftekið það með öllu. Nú þarf ég bara að sannfæra Jarðfræðinginn um að hún vilji hvergi búa nema á Íslandi og helst í næsta húsi við mig.

Og allt varð fullkomið

Venjulega skreytum við jólatréð á Þorláksmessukvöld. Klárum þvottinn, moppum yfir og skiptum um kerti í aðventukransinum (ég hef alltaf kveikt á þeim öllum í einu enda er aðventukransinn ekki kristilegur siður að uppruna). Þoddláksritúalinu lýkur með jólaöli, eins og hvítöl var kallað til skamms tíma en á mínu heimili er jólaöl aldrei drukkið fyrr en á Þoddlák. Það ásamt laufabrauðinu er heilög hefð. Allt annað er umsemjanlegt en einhverja geðveiki verður maður að halda í, annað væri óheilbrigt.

Að þessu sinni var ég að vinna fram eftir, Haukur til miðnættis og Darri kom ekki heim úr sveitinni fyrr en um 10 leytið. Þoddlákur fór því fram í nótt og endaði á bjór í stað jólaöls.

Eg komin með tölvuna upp í rúm. Ég er í fríi. Í marga daga. Ætla að liggja í bælinu til hádegis ef ég get.
Allt er fullkomið.

 

Hvarfl

Systir mín barnaheimilið sagði einu sinni að fljótlegasta leiðin til að verða sér úti um almennilegan maka væri sú að finna sér ungling og ala hann upp. Og það gerði hún. Fermingardrengurinn hennar varð fullorðinn á aðeins 5 árum en ég er enn ógipt og grátandi.

Ég held að sama regla gildi ef maður vill gott starfsfólk. Ráða ungt fólk, bara ekki heimskt, latt eða leiðinlegt. Búðarsveinninn jólaði bílinn minn. Glætan að ég hefði fengið svona góða þjónustu ef ég hefði ráðið einhverja andlega kerlingu með mikla reynslu af afgreiðslustörfum. Ég ætla samt ekki að senda piltinn í Bónus til að sinna mínum persónulegu jólainnkaupum. Það væri einum og langt gengið í því að misnota aðstöðu sína. Ekki svo að skilja að það hafi ekki alveg hvarflað að mér.

 

Versta vika ársins að hefjast

Desemberkvíðinn í hámarki. Þótt ég hafi nákvæmlega engu að kvíða. Það eina sem ég þarf að gera sem mér finnst erfitt er að fara í Bónus (Darri verður í sveitinni fram á Þorláksmessu svo ég get ekki sent hann) og svo auðvitað að missa svefn. Ég hélt að ég væri vel birg af öllu í byrjun aðventu en sit uppi með sama lúxusvandamál og í fyrra, tómar hillur í lok dags. Ég veit ekki hvar þetta fyrirtæki væri ef Saumfríðar nyti ekki við en þótt hún sitji við vélina öll kvöld hef ég nóg að gera við að mála galdrastafi á allan fjandann, brenna birkiplötur og vigta jurtir fram á miðja nótt.

Annars er ég alltaf heltekin af þreytu og kvíða síðustu viku fyrir vetrarsólstöður, jafnvel þótt sé ekkert óvenjulegt álag á mér, jafnvel þótt mitt umhverfi sé sennilega streitulausara en flestra annarra Íslendinga og jafnvel þótt ég verði í fríi öll jólin. Veit ekki alveg hvernig á því stendur en ég er yfirleitt búin að ná mér á Þorláksmessu, einmitt þegar allir aðrir eru gjörsamlega að fara á límingunum. Og það er alveg sama hvað ég er vel undirbúin og hef mikinn stuðning, þessi tími er alltaf sama helvítið fyrir sálina í mér.

Sum sár gróa bara einfaldlega ekki.

 

Álög

Ég sé enga ástæðu til að neita mér um það sem mig langar í nema það sé sjúkt, rangt eða skaðlegt. Hitt er svo annað mál að ég hef oft staðið sjálfa mig að því að stinga upp í mig kökubita, bara af því að hann var fyrir framan mig en ekki vegna þess að mig langaði svo mikið í hann. Svo er líka talsverður munur á því að vilja og langa. Það er bara þessvegna sem ég ét ekki allar kökurnar í bakaríinu. Mig langar það ekki nógu mikið til að taka áhættuna á því að fá sykursýki. En ef mann langar í alvöru, þá má maður samt alveg fá eina. Helst með jarðarberjum.

Maðurinn sem er með sprungu í skelinni trixaði mig með töfrasprota og í dag er ég kaka. Og með jarðarber i hjartanu. Sem gerir það líklega sætt og girnilegt til átu. Það er dálítið ógnvekjandi en það er allt í lagi. Ótti er ekkert hættulegur nema maður leyfi honum að stjórna sér. Hann sagðist líka vera hættur að lesa bloggið mitt. Það var, trúi ég, hin mesta lygi.

 

Lögmálið

Skilaboðin á gemsanum algjörlega úr karakter. Merkilegt hvað þú gerist alltaf ástúðlegur þessi stuttu tímabil sem ég trúi því að ég muni einhverntíma eignast maka, eins og þú ert annars hamingjusamur og alveg tilbúinn til að sleppa takinu á mér. Hálftíma síðar ertu kominn, af því þú veist að ég þarfnast þín þótt ég nefni það auðvitað ekki. Sonur minn hinn herskárri kemur heim af kvöldvakt og fagnar þér með því að klóra þér blíðlega undir hökunni. Ég hef margsinnis bannað strákunum að koma fram við þig eins og þú sért gæludýrið okkar en við hverju er að búast þegar þú lygnir augunum og biður um meira? Halda áfram að lesa

Óafgreitt mál

Kannski er nett galið að fá egóbúst út úr því að fara inn á netbankann bara til að sjá skilaboðin enginn ógreiddur reikningur, rétt eins og það sé eitthvert afrek að standa við skuldbindingar sínar. En stundum er hamingjan fólgin í því að eiga fyrir reikningunum sínum og dálítinn afgang líka, sérstaklega þegar stóri bagginn vegna utanhússviðgerðanna kemur í desember. Ég gat borgað hann án þess að taka lán og er að rifna af monti, búin að kíkja oftar á netbankann en tölvupóstinn þótt ég hafi svosem haft nóg annað að gera. Lét Búðarsveininn bara skúra og sendast svo ég gæti setið og brosað framan í netbankann :-Þ Halda áfram að lesa

Lögmálin

Það eru all mörg ár síðan mér varð ljóst að lögmál markaðarins gilda um makaleit eins og allt annað. Takmarkað framboð kallar á stærri fórnir, lágt verð og slakur gæðastaðall fara gjarnan saman o.s.frv. Það sem er mikilvægast, ef þú ætlar að selja einhverjum þá hugmynd að hann hafi sérstaka þörf fyrir návist þína, er að planta þeirri grillu í kollinn á honum að hann sé mun spenntari fyrir því að „viðskiptin“ fari fram en þú og að hann þurfi að hafa dálítið fyrir því að sannfæra þig. Halda áfram að lesa

Gildran

-Nei sko! Ég fékk tölvupóst frá honum.
-Ekki svara strax! Láttu hann bíða smávegis, tvo daga minnst, helst þrjá.
-Eftir þrjá daga myndi ég nú bara afskrifa dæmið og snúa mér að næsta.
-Þú já en þú ert svo illa brennd að þú þolir minna en meðalmaðurinn. Fólk vill þjást. Það er engin tilviljun að þjást rímar við ást. Gerðu ráð fyrir að honum líði ekkert verr eftir tveggja daga bið en þér eftir tvo tíma.
-Ég trúi þessu ekki. Þú situr hér og plottar fyrir mig þótt þú vitir að það gæti orðið til þess að ég verði ekki lengur aðgengileg hvenær sem þér hentar.
-Ég elska þig nógu mikið til að sleppa takinu á pilsfaldinum.
-Ég veit það nú ekki. Þú veist líka að það síðasta sem ég geri er að þiggja góð ráð.
-Þú ert kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Verst að þínar leiðir hafa bara aldrei komið þér þangað sem þú vilt.
-Ef maðurinn missir áhugann á mér við það að vita að ég sé spennt fyrir honum, þá gengur þetta ekki hvort sem er.
-Gott og vel, en ég ER strákur þótt þú sjáir mig ekki sem kynveru og ég veit hvað kveikir í strákum.
-Ég vil ekki með í svona asnalegu leikriti.
-Fínt, drífðu endilega í að klúðra þessu. Ég ætti ekki að reyna að hafa vit fyrir þér, þegar allt kemur til alls hef ég hagsmuni af einlífi þínu.
-Ég lifi hálfu lífi mínu í lélegri sápuóperu. Ég kom mér í þessa aðstöðu sjálf en það er ekki þar með sagt að ég ætli aldrei að vera til nema sem sögupersóna, sagði ég og ýtti á send.

-Ég vona að þú finnir einhvern með þinni eigin aðferð. Einhvern sem verður góður við þig, sagði hann blíðlega.
-Nei, það vonar þú ekki, sagði ég í öllu freðýsulegri tón. Það sem þú vonar er að ég finni einhvern fávita fyrst ég þarf endilega að vera að þessu brölti á annað borð. Svo getur þú farið í rústabjörgunarleik þegar það klikkar.
-Já. Ég fæ kikk út úr því að horfa á þig þjást.
-Ekki þannig séð, but it makes you feel needed.
-Og þú heldur að í lífi mínu sé einhver skortur á fólki sem þarfnast ástúðar?
-Nei en enginn þekkir mig eins vel og þú og það er kikk að vera einstakur.

-Hvað er að Eva?
-Ekkert.
-Þú ert köld og fjarræn og þú slettir ensku. Mjög ólíkt þér verð ég að segja og þú ert vond við mig. Eiginlega hef ég fullan rétt á að vera reiður.
-Ég sé engan hér sem bannar þér að vera reiður. Tíkin þín verður að taka það að sér eins og svo margt annað.
-Þú gerir þér semsagt ekki grein fyrir því sjálf hvað er að hrjá þig?
-Jújú en þú getur ekki lagað það.

Þá horfði hann á mig eins og hann hefði séð geimveru og sagði:
-Drottinn minn dýri. Þú heldur í alvöru að þú sért persóna í leikriti. Og nú ætlar þú að taka sorgarferlið út áður en þú stígur á svið, svo þú haldir andlitinu sýninguna á enda.

Þá þótti mér ég fara að gráta og þá vaknaði ég.

Rótin

Vinur minn Mammón er tíður gestur í Nornabúðinni þessa dagana. Návist hans gleður mig svo ákaflega að ég finn ekki einusinni hjá mér sérstaka hvöt til að hafa vit fyrir verslunaróðum viðskiptavinum. Ég hef iðulega klúðrað góðri sölu með því að benda viðkomandi á að val hans/hennar sé ekki sérlega skynsamlegt en jólunarröskun landans og hagsmunir mínir fara saman og hagsmunir eru sterkari en siðgæði, lets feis itt.

Og þannig verður kapítalisti til.