Bréf til ókunnugs bróður

Fékk póst á Facebook í morgun. Frá líffræðilegum hálfbróður mínum. Hann frétti fyrst af tilvist minni núna um daginn.

Það var hann Beggi bróðir minn sem sagði honum frá mér. Þeir eru víst gamlir vinir, hafa spilað saman en Beggi hafði ekki hugmynd um að þeir ættu sömu systur. Beggi áttaði sig á þessu þegar móðir okkar sagði honum frá sjúkdómnum. Vildi svo til að faðir vinar hans var nýlátinn úr sama sjúkdómi og nafnið stemmdi og heimabær hins látna. Ísland er lítið.

Eldri systkinin vissu af mér en ekki þeir tveir yngstu. Hann segir að fréttirnar af einni systurinni enn hafi komið sér í uppnám. Sagði að sig langaði að vita hvaða tilfinningar hrærðust í mér vegna þessara mála allra.

Hér er mitt svar.

Sæll …….

Ég votta þér samúð mína vegna fráfalls föður þíns.

Ég á föður sem hefur reynst mér vel og hef alltaf átt erfitt með að sætta mig við að vera ekki líffræðileg dóttir hans. Get ekki útskýrt hversvegna, því blóðtengsl skipta svosem engu máli nema vegna hættunnar á að maður viðhaldi erfðagöllum. Það var allavega sú afsökun sem ég gaf sjálfri mér fyrir að hafa samband við pabba þinn á sínum tíma. Ég komst að því að hann hafði tekið tilmælum Gvuðs um að uppfylla jörðina full bókstaflega svo ég skrifaði honum. Tók fram að ég væri ekki að gera neitt tilkall til hans en mér þætti betra að vita hvort ég ætti á hættu að hitta nána ættingja á skólaböllum.

Ég held samt eftir á að hyggja að það hafi bera verið fyrirsláttur. Ég var unglingur, sjálflæg og í leit að skýringum á því hversvegna ég hugsaði á allt annan hátt en aðrir í fjölskyldunni. Ég hef líklega ímyndað mér að það væri einhver erfðafræðileg skýring á áhugamálum og hugmyndum sem enginn hafði haft fyrir mér, rétt eins og þessu ljósa hári.

Ég hitti pabba þinn aldrei og heyrði aldrei neitt frá honum. Það er nú varla hægt að gefa unglingi mikið skýrari skilaboð en að hundsa hann en ég hékk samt eins og hundur á roði á þeirri réttlætingu að gen skiptu máli og hafði upp á ……. systur þinni. Hitti hana að mig minnir tvisvar og svo …… bróður þinn í eitt skipti nokkrum árum síðar. Talaði einu sinni við ……. (elstu systurina) í síma og hún bauð mér í heimsókn en það kom upp meiriháttar vesen heima fyrir og ég hreinlega gleymdi að mæta.

Systkinin tóku mér vel en faðir þinn sýndi hvorki þá né síðar nein merki þess að kæra sig um að vita af tilvist minni svo ég lagði mig ekkert eftir því að kynnast þeim nánar. Enda nógu skynsöm til að kyngja því að gen skipta ekki máli. Maður erfir hvort sem er ekki hæfileika eða skaplyndi, hugsaði ég, í mesta lagi háralit og holdafar en það gerir mann ekki að því sem maður er svo ætli maður sitji ekki bara uppi með skömmina eða heiðurinn af sjálfum sér.

Dálítið kaldhæðnislegt að frétta svo af sjúkdómnum. Ég þekki náfrænku Eddu Heiðrúnar en hjá henni er þetta erfðatengt og ég hélt fyrst að MND væri einfaldlega erfðasjúkdómur og fékk áfall. Skrýtið að hafa lifað áratugi í þeirri fullvissu að gen skipti ekki máli en sjá svo á einu augnabliki að þau geta reyndar skipt öllu máli. En mér skilst að hann hafi ekki verið með arfgenga afbrigðið. Ég er ósköp fegin.

Ég hafði semsagt rétt fyrir mér þegar ég var 15 ára, erfðir skipta máli. En það þarf svosem ekki erfðir til að átta sig á kaldhæðnislegum húmor örlaganornarnna.

Takk fyrir að hafa samband og gangi þér allt í haginn,

með bestu kveðju
Eva Hauksdóttir.

Best er að deila með því að afrita slóðina